Helena Eydís Ingólfsdóttir
Helena Eydís Ingólfsdóttir
Stór hluti þess uppeldis og fræðslu sem áður fór fram á heimilum, segir Helena Eydís Ingólfsdóttir, fer nú fram í skólum.
ER ÞÖRF fyrir ferska vinda í íslensku skólastarfi? Þetta er mjög stór spurning og eins og oft vill verða með stórar spurningar er henni vandsvarað. Sumir munu hiklaust svara játandi á meðan aðrir segja nei.

Miklar breytingar hafa orðið á íslensku þjóðfélagi og íslensku skólahaldi á þeirri öld sem nú er að renna sitt skeið. Nefna má að núorðið eru yfirleitt báðir foreldrar útivinnandi öfugt við það sem áður tíðkaðist. Börnin sem áður fylgdust með foreldrum sínum við vinnu, aðstoðuðu þá og lærðu af þeim, hefja flest skólagöngu tveggja eða þriggja ára gömul, fyrst í leikskóla hálfan eða allan daginn og síðan tekur tíu ára skyldunám í grunnskóla við. Stór hluti þess uppeldis og fræðslu sem áður fór fram á heimilum fer nú fram í skólum. Ábyrgð þeirra hefur þannig vaxið í takt við örar breytingar á öllum sviðum þjóðfélagsins. Það hefur stundum verið bent á að þeir nái ekki ætíð að fylgja þjóðfélagsþróuninni eftir, vegna þess að sífellt skapast þörf fyrir nýjar leiðir, nýjar aðferðir, nýjar greinar og/eða nýja nálgun við námsefni.

Nýverið hafa tekið gildi nýjar námskrár fyrir leik-, grunn- og framhaldsskóla og bjóða þær svo sannarlega upp á breytingar, rými hefur verið skapað fyrir ferska vinda. Nýtt fag, lífsleikni hefur fengið fastan sess í námskrá grunnskóla. Hvernig er best að þróa hana, hvaða brautir er vænlegast að leiða hana inn á? Annað er það, að í byggðaumróti samtímans hefur orðið mikilvægara en nokkru sinni fyrr að nýta nánasta umhverfi skóla til náms og kennslu, efla þekkingu og skilning á því, stuðla að meiri sátt við það og auka þar með líkur á áframhaldandi öflugri byggð um allt land. Með samfelldri námskrá vakna líka spurningar um hvort ekki sé þörf á auknu samstarfi milli skólastiga og hvort hugmyndafræði eins skólastigs eigi ekki jafnframt heima á því næsta svo takast megi að skapa samfellu og hámarksárangur í skólagöngu hvers nemanda.

Þetta þrennt sem hér er talið varð til þess að Magister, félag kennaranema við Háskólann á Akureyri, réðst í það að skipuleggja og halda ráðstefnu þann 29. janúar næstkomandi, tengda þessum efnum. Ráðstefnan ber yfirskriftina "Nýjar leiðir á nýrri öld" og á henni munu kennarar og nemendur við kennaradeild háskólans fjalla um grenndarkennslu, lífsleikni og það, hvort leikskólafræði eigi erindi í grunnskóla. Þessum og fleiri þáttum þurfa skólastjórnendur, kennarar, foreldrar, kennaranemar og aðrir að velta fyrir sér og gera upp við sig hvort þeir eru meðal þeirra fersku vinda sem vænlegast er að veðja á til sóknar á nýrri öld.

Höfundur er nemi í Háskólanum á Akureyri og ritari stjórnar Magister, félags kennaranema.