STJÓRNARHER Burma gerði í fyrrinótt árás á stöðvar skæruliða sem kalla sig "her guðs", nálægt landamærum Burma og Taílands. Samtímis virðist sem taílensk stjórnvöld vilji þrengja að burmískum skæruliðum sem hafast við á landamærum ríkjanna.
STJÓRNARHER Burma gerði í fyrrinótt árás á stöðvar skæruliða sem kalla sig "her guðs", nálægt landamærum Burma og Taílands. Samtímis virðist sem taílensk stjórnvöld vilji þrengja að burmískum skæruliðum sem hafast við á landamærum ríkjanna. Ekki er vitað um afdrif barnungra tvíburabræðra sem sagðir eru leiðtogar hers guðs.

Aðgerðirnar koma í kjölfar þess að skæruliðar, þeirra á meðal meðlimir úr her guðs, tóku hundruð manna í gíslingu á sjúkrahúsi í Taílandi á mánudag. Gíslatökumenn voru allir vegnir af taílenskum hermönnum og virðist sem stjórnvöld beggja megin landamæranna vilji nú láta kné fylgja kviði og uppræta starfsemi skæruliða.

Taílensk lögregla fann í gær talsvert magn af sprengiefninu TNT í búðum Kareníta sem hafast við Taílandsmegin við landamærin. Karenítar eru minnihlutahópur í Burma og hafa margir þeirra sest að í Taílandi vegna andstöðu við stjórnvöld í heimalandinu. Skæruliðasamtök þeirra hafa um árabil stundað skæruhernað gegn herstjórninni í Burma og barist fyrir stofnun sjálfstæðs ríkis Kareníta. Her guðs er aðeins einn af mörgum skæruliðahópum sem hafa þetta að markmiði.

Voru gíslatökumenn teknir af lífi?

Taílensk stjórnvöld hafa lengi látið skæruliða á landamærunum að Burma óáreitta vegna þess að litið hefur verið á þá sem brjóstvörn gegn burmískum hersveitum. Þetta virðist nú vera að breytast í takt við að almenningsálitið í Taílandi hefur snúist gegn skæruliðum vegna gíslatökunnar fyrr í vikunni.

Tveir tólf ára tvíburadrengir sem taldir eru vera foringjar hers guðs voru ekki meðal gíslatökumanna í taílenska sjúkrahúsinu. Samkvæmt fréttum The Daily Telegraph í gær er ekki vitað hvar þeir eru niður komnir nú, eftir árásir Burmahers á búðir þeirra. Karenítar telja drengina búa yfir yfirnáttúrulegum gáfum sem geri þá hæfa til forystu.

Grunur leikur á því að taílenskir hermenn hafi gerst sekir um að taka af lífi skæruliðana sem tóku umrætt sjúkrahús herskildi, eftir að þeir síðarnefndu höfðu gefist upp. Forsætisráðherra Taílands, Chuan Leekpai, vék sér í gær undan því að svara spurningum fréttamanna um hvort fréttir fjölmiðla þessa efnis séu á rökum reistar. Dagblaðið Bangkok Post hefur eftir einum gíslanna að gíslatökumennirnir hafi fyrst gefist upp, "síðan voru þeir skotnir í höfuðið eftir að þeim hafði verið sagt að afklæðast og krjúpa á gólfinu". Forsætisráðherrann sagði aðeins að gíslatökumennirnir hefðu látið lífið vegna þess að þeir hefðu ekki verið jafn fljótir að skjóta og taílensku hermennirnir.