MORGUNBLAÐINU hefur borist eftirfarandi ályktun stjórnar Félags íslenskra barnalækna vegna Barnahúss: "Kynferðislegt ofbeldi gegn barni er alvarlegt afbrot sem yfirleitt hefur varanleg áhrif á sálarheill þess.
MORGUNBLAÐINU hefur borist eftirfarandi ályktun stjórnar Félags íslenskra barnalækna vegna Barnahúss:

"Kynferðislegt ofbeldi gegn barni er alvarlegt afbrot sem yfirleitt hefur varanleg áhrif á sálarheill þess. Til þess að draga úr afleiðingum verknaðarins er mikilvægt að sem best sé hlúð að þessum ungu einstaklingum.

Því er mikilvægt að þannig sé um hnútana búið að rannsókn málsins auki ekki á þá neikvæðu reynslu sem barnið hefur þegar orðið fyrir og að það fái þá bestu uppbyggjandi meðferð og ráðgjöf sem völ er á.

Svonefnt Barnahús hefur nú verið starfrækt í rúmt ár. Því er ætlað að vera vettvangur rannsókna og meðferðar barna sem orðið hafa fyrir kynferðislegu ofbeldi. Þar starfar sérþjálfað starfsfólk, sem m.a. hefur hlotið þjálfun í skýrslutöku af börnum undir þessum kringumstæðum. Þar er auk þess aðstaða til læknisskoðunar sem tveir sérfróðir læknar annast. Barnahúsi er komið fyrir í venjulegu íbúðarhúsi og er leitast við að hafa umhverfi barnanna sem hlýlegast. Á fyrsta starfsári hússins komu þangað 125 börn í rannsóknarviðtal, 27 börn fengu læknisskoðun og 54 börn fengu áframhaldandi meðferð og ráðgjöf. Því er ljóst að mikil þörf er á þessari starfsemi og hefur starfsfólk hússins nú þegar öðlast mikla þjálfun í meðferð þessara erfiðu mála. Starfsemi Barnahúss þykir til fyrirmyndar og hefur vakið athygli í nágrannalöndum okkar.

Með breytingu á lögum um meðferð opinberra mála í maí sl. er yfirheyrsla yfir börnum, sem grunur er á að hafi orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi, nú á ábyrgð dómara. Tilgangur þessarar lagabreytingar var að koma í veg fyrir að börn þyrftu að gefa skýrslur bæði á rannsóknarstigi og fyrir dómi. Hins vegar hefur hún orðið til þess að skýrslutakan hefur í auknum mæli farið fram í dómshúsum frekar en í Barnahúsi. Málum sem vísað er til Barnahúss hefur því farið mjög fækkandi og komið hefur til tals að leggja það niður.

Stjórn Félags íslenskra barnalækna harmar að sú sérfræðiþekking sem fyrir hendi er í Barnahúsi skuli ekki vera nýtt sem skyldi við skýrslutöku á börnum, sem grunað er að hafi orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi.

Mikilvægt er að þessar yfirheyrslur verði áfram í höndum eins þjálfaðs starfsfólks og kostur er. Til þess að sem mest reynsla fáist í meðferð þessara mála er æskilegt að hún sé á einum stað. Jafnframt er ótvíræður kostur fyrir barnið að yfirheyrsla, læknisskoðun og meðferð fari fram í sama umhverfi og helst á sama tíma. Hvetur stjórnin því dómara landsins til að nýta sér þá aðstöðu, sérfræðiþekkingu og reynslu sem fyrir hendi er í Barnahúsi og tryggja þannig áframhaldandi starfsgrundvöll þess."