Hrannar Pétursson
Hrannar Pétursson
Stóriðjuskólinn er ungur og enn í mótun, segir Hrannar Pétursson. Það sama á við um námsgögnin og á kostnaðurinn við þau enn eftir að aukast.
BLEKIÐ er nú þornað á prófskírteinum fyrstu útskriftarnemanna úr Stóriðjuskólanum. Almennt virðast menn vera þeirrar skoðunar að vel hafi tekist til og skólinn sé gott dæmi um það sem getur áunnist með samvinnu fyrirtækja og verkalýðsfélaga.

En ekki eru allir jafn ánægðir. Á bls. 42 í Morgunblaðinu sl. þriðjudag er látið að því liggja að Íslenska álfélagið reki "ríkisstyrktan starfsþjálfunarskóla". Þar er vísað til styrks sem Starfsmenntasjóður félagsmálaráðuneytisins veitti Íslenska álfélaginu, Íslenska járnblendifélaginu og trúnaðarráðum hlutaðeigandi verkalýðsfélaga. Af þessu tilefni er mér sönn ánægja að skýra frá því til hvers styrkurinn var ætlaður og hvernig var farið með hann.

Iðntæknistofnun sótti um styrk úr Starfsmenntasjóði félagsmálaráðuneytisins fyrir hönd umræddra aðila. Úr sjóðnum voru veittar samtals 6,5 milljónir króna til námsefnisgerðar og var ein meginforsendan sú, að aðrir hefðu aðgang að námsefninu. Iðntæknistofnun tók við fénu og sá um gerð námsefnisins.

Samtals kostaði námsgagnagerðin tæpar 10 milljónir króna. Styrkurinn nam 6,5 milljónum og féll viðbótarkostnaðurinn á ISAL og Járnblendifélagið.

ISAL hefur greitt allan kostnað vegna skólans, t.d. fyrir kennslu í Straumsvík, kennsluaðstöðu, sérhæft námsefni fyrir fyrirtækið, ferðakostnað, tæki o.s.frv.

Stóriðjuskólinn er ungur og enn í mótun. Það sama á við um námsgögnin og á kostnaðurinn við þau enn eftir að aukast. Þau standa hins vegar öðrum fyrirtækjum, verkalýðsfélögum og skólum til boða og munu án efa nýtast vel í framtíðinni.

Höfundur er upplýsingafulltrúi Íslenska álfélagsins hf.