Hlutabréf fjarskiptafyrirtækja hækkuðu í verði í gær og olli það hækkunum á hlutabréfavísitölum. Miklar væntingar eru gerðar til þessara fyrirtækja. Hlutabréf Vodafone hækkuðu um 4,9% í gær en tengsl Vodafone og Mannesmann eru enn óljós.
Hlutabréf fjarskiptafyrirtækja hækkuðu í verði í gær og olli það hækkunum á hlutabréfavísitölum. Miklar væntingar eru gerðar til þessara fyrirtækja. Hlutabréf Vodafone hækkuðu um 4,9% í gær en tengsl Vodafone og Mannesmann eru enn óljós. Hlutabréf í Deutsche Telekom og France Telecom hækkuðu í gær, hið fyrrnefnda um 5,2% og hið síðarnefnda um 4,2%. Spáð hefur verið aukinni notkun farsíma og Netsins í Þýskalandi á þessu ári. Franska smásölufyrirtækið Carrefour hækkaði um 4,5% í gær en sameining þess og Promodes er fyrirhuguð og verður þá til annað stærsta smásölufyrirtæki heims.

FTSE 100-vísitalan í Bretlandi hækkaði um 101,5 stig eða 1,6% og endaði í 6.375,6 stigum. Xetra DAX-vísitalan í Þýskalandi hækkaði um 2,3%. Þá hækkaði CAC 40-vísitalan í Frakklandi um 0,9%. Nasdaq hlutabréfavísitalan í Bandaríkjunum lækkaði verulega í gær en mikið framboð var af hlutabréfum tæknifyrirtækja í gær og þrýsti það verðinu niður. Nasdaq féll um 97,97 stig í 4.070,34 stig. Ástæða lækkunar var m.a. talin afkomuviðvörun tæknifyrirtækisins Qualcomm sem birt var í gær. Aftur á móti birti netuppboðsfyrirtækið eBay tölur umfram væntingar fyrir síðasta fjórðung rekstrarársins.

Dow Jones hlutabréfavísitalan hækkaði í gær en eftirspurn eftir hlutabréfum framleiðslu- og fjármálafyrirtækja jókst í gær. American Express og J.P. Morgan voru á meðal þeirra fyrirtækja sem hækkuðu. Dow Jones hækkaði um 5,89 stig í 11.034,54 stig.