Kunningi Víkverja kom að máli við hann um daginn og sagði farir sínar ekki sléttar. Vegna vinnu sinnar hafði hann verið í sambandi við mörg þeirra fyrirtækja, sem eru í fararbroddi nýjunga í fjarskiptum og netvæðingu hér á landi.
Kunningi Víkverja kom að máli við hann um daginn og sagði farir sínar ekki sléttar. Vegna vinnu sinnar hafði hann verið í sambandi við mörg þeirra fyrirtækja, sem eru í fararbroddi nýjunga í fjarskiptum og netvæðingu hér á landi. Kunninginn staðhæfði hins vegar að um leið og þessi ungu fyrirtæki sköruðu fram úr öðrum í nýjustu tækni virtist sem mörg þeirra vanræktu þá gamaldags þjónustu að svara í síma. Kunninginn nefndi tvö dæmi. Hann hafði í þrjá daga reynt að ná sambandi við stjórnanda hjá fyrirtæki sem selur neytendum tölvur, hugbúnað og fleira. Yfirleitt hringdi sími fyrirtækisins út en þá sjaldan svarað var tók ekki betra við. Kunninginn spurði um manninn og var gefið samband en síðan hringdi og hringdi svo lengi sem kunninginn nennti að bíða, án þess að símsvarinn hefði nokkur frekari afskipti af því hvort samband hefði komist á. Eftir að hafa reynt af og til í þrjá daga gekk þó loks saman og samband komst á við stjórnandann.

Kunninginn þurfti svo að ná í starfsmann annars fyrirtækis hjá fyrirtæki í fararbroddi í tölvutækni og hugbúnaðargerð og þar hringdi síminn ekki út heldur var símtalinu eftir nokkrar hringingar beint til fyrirtækis úti á landi sem miðlar fjölþættri þjónustu í gegnum síma. Kunninginn hugði gott til glóðarinnar, spurði um sinn mann en þá kom símsvarinn af fjöllum og hafði ekki tiltækar upplýsingar um hvort maðurinn yfirleitt ynni hjá fyrirtækinu, hvað þá að þarna úti á landi vissu menn hvert væri innanhússnúmerið hans. Ævintýrið fékk þó farsælan endi því eftir tíu hringingar og tvo daga náðu þeir saman í gegnum síma kunningi Víkverja og þessi starfsmaður eins tæknivæddasta fyrirtækis landsins.

"Þetta sýnir mér að það er ekki allt fengið með tækninni," sagði kunninginn og Víkverji er ekki frá því að þar hafi hann rétt fyrir sér.

Víkverji rakst nýverið á klausu í blaði sem hafði að geyma stutta kynningu á efni næsta blaðs. Þar sagði m.a. um efni blaðsins: "Leikkonan Jóhanna Vigdís léttir á sér og öryggismyndavélar borgarinnar eru til umfjöllunar." Víkverji gerir sér grein fyrir að umfjöllunarefni dagblaða er sífellt að verða fjölbreyttara og blaðamenn sífellt að færa sig lengra í skrifum um efni sem hingað til hefur ekki verið fjallað um í blöðum. Víkverji var því í fyrstu ekki alveg viss um hvað það væri sem leikkonan ætlaði að gera í blaðinu. Hann óttaðist að blaðið hefði fengið leikkonuna til að "létta á sér" fyrir framan "öryggismyndavélar borgarinnar". Það var því með nokkrum kvíða sem Víkverji opnaði blaðið daginn eftir, en þá kom í ljós að um var að ræða hefðbundið viðtal við unga og efnilega leikkonu sem sagði stuttlega frá því sem hún er að sinna þessa dagana í leiklistinni. Sem betur fer var hún ekki sýnd vera að "létta á sér". Blaðamaðurinn reyndist bara ekki kunna að nota orðatiltækið. Þeir sem telja að "létta á sér" þýði það sama og að létta á hjarta sínu, þ.e. segja frá, ættu að fletta upp í orðabók.

Í nýútkomnu tímariti Nýrrar sögu, sem Sögufélagið gefur út, er fróðleg grein eftir Sverri Jakobsson sagnfræðing um Harald hárfagra. Haraldur er sagður hafa verið Noregskonungur á þeim árum sem Ísland var að byggjast og gegnir lykilhlutverki í þeirri söguskoðun sem um áratugaskeið hefur verið haldið að nemendum sem læra Íslandssögu. Hin hefðbundna söguskoðun er sú að Ísland hafi farið að byggjast vegna þess að forfeður okkar hafi ekki þolað yfirgang Haraldar hárfagra, sem gekk fram af mikilli hörku við að sameina Noreg undir einni stjórn. Haraldur á að hafa heitið því að skerða hvorki hár sitt né skegg fyrr en þessu markmiði væri náð.

Í grein Sverris eru skoðaðar þær heimildir sem til eru um Harald og sýnir Sverrir fram á að afar lítið er til af samtímaheimildum um konung þennan. Í konungatali frá þessum tíma er hans ekki getið. Konungs, sem kallaður er Lúffa, er hins vegar getið í dróttkvæðum, sem Sverrir telur ekki sjálfsagt að túlka með þeim hætti sem gert hefur verið, að átt sé við Harald hárfagra. Niðurstaða Sverris er að það sé það margt óljóst um Harald að ekki sé hægt að slá því föstu að hann hafi nokkru sinni verið til. Sumum kann að finnast ótrúlegt að þessi lykilpersóna í landnámi Íslands sé aðeins þjóðsaga, en hvað um það; óhætt er að mæla með grein Sverris í Nýrri sögu. Þar eru settar fram ögrandi spurningar.