Hæfileikaríkt og metnaðarfullt fólk festist ekki í blaðamannastétt.
Eftir að hafa verið búsettur í mörg ár í Englandi sakna ég sárt enskra fjölmiðla. Hvergi í heiminum er að finna jafngott úrval góðra dagblaða og tímarita - og breska ríkisútvarpið BBC hefur löngum þótt bera af öðrum ljósvakamiðlum. Á hverjum sunnudegi var veisla því sunnudagsútgáfur blaðanna eru sérlega vandaðar, uppfullar af fjölbreyttu og skemmtilegu lesefni. Í Englandi vandist maður á að lesa dagblöðin af því að þau voru skemmtileg og vel skrifuð. Hér á landi flettir maður blöðunum hálfpartinn hugsunarlaust því maður á ekki von á að rekast á vel skrifaða grein sem mann þyrstir í að lesa. Margt skilur auðvitað á milli fjölmiðlunar í stóru engilsaxnesku löndunum og á Íslandi, svo sem eðlilegt er í ljósi stærðarmunar, en stundum finnst manni meginmunurinn einmitt vera vald fjölmiðlamanna á tungu sinni. Í Bretlandi eru blaðamenn orðsins menn, þeir skrifa í blöðin vegna þess að þeir njóta þess að tjá sig í rituðu máli. Í Bandaríkjunum fyrir þrjátíu árum var því jafnvel slegið föstu að góðir blaðamenn væru almennt orðnir betri pennar en flestir skáldsagnahöfundar: mannlífslýsingar bandarísku stórblaðanna væru fyllri og myndrænni en þær mannlífslýsingar sem finna mætti í skáldsögum úr samtímanum. Í ofanálag keppast blöð í þessum löndum við að laða til sín fræga rithöfunda til að skrifa greinar. Blöðin vilja vera spegill samtíðarinnar og til að svo geti verið þurfa þau auðvitað að hafa snjalla penna á sínum snærum. Í Bretlandi eru t.d. skáldsagnahöfundarnir Martin Amis og Julian Barnes öðrum þræði blaðamenn í lausamennsku. Þeim er borgað hátt verð fyrir greinar þeirra vegna þess að þeir skrifa vel og hafa aðra og skarpari sýn á veruleikann en fastir starfsmenn blaðanna. Á Íslandi hefur á hinn bóginn tíðkast að greiða rithöfundum sem vilja birta efni í dagblöðum eftir lengd greina þeirra en ekki eftir gæðum!

Íslensk dagblöð eru full af mikilsverðum upplýsingum og fróðleik, en blaðamenn þeirra temja sér almennt ekki sjálfstæð vinnubrögð sem reynir á ritfærni þeirra. Sárasjaldan sér maður t.d. í íslensku blaði frásögn blaðamanns af fréttaviðburði þar sem reynt er að setja atburðarásina í rétt samhengi með því að styðjast við marga heimildarmenn og lýsa andrúmslofti með hæfilega myndrænum hætti. Yfirleitt er gangurinn sá að viðtöl við sjónarvotta eru birt, hvert ofan í annað, og þannig er atburði kannski lýst á heilli opnu sem blaðamaðurinn gæti, með því að leggja dálítið á sig, sagt frá skilmerkilegar í sjálfstæðri frásögn á hálfri síðu. Blöðin endurspegla ekki samtíð sína eins og best verður á kosið ef blaðamennirnir sjálfir reyna ekki að lýsa mannlífinu.

Einn meginvandi íslenskrar blaðamennsku er að hæfileikaríkt og metnaðarfullt fólk festist ekki í stéttinni. Undanfarna 2-3 áratugi hafa fjölmargir hæfileikamenn fengist við blaðamennsku en stoppað stutt við. Þeir virðast ekki hafa fengið metnaði sínum svalað og því leitað á önnur mið. Vafalaust eiga launakjörin hér nokkra sök, en meginástæðan er skortur á samkeppni á blaðamarkaði. Blöðin finna ekki hjá sér knýjandi þörf til að halda í öflugt fólk því þau eiga það ekki á hættu að þeir fari til keppinauta. Þannig hverfur hæft fólk úr blaðamannastétt nánast á ári hverju. Eftir sitja vissulega nokkrir sem eru blaðamenn að náttúru, en líka margir sem hafa minni metnað og minni hæfileika en þeir sem fóru - ásamt ungu fólki sem finnst gaman að takast á við blaðamennsku stuttan tíma áður en það finnur sér framtíðarstarfsvettvang. Afleiðingin er m.a. sú að blöðin eru almennt ekki nógu vel mönnuð, sem sýnir sig t.d. í því að víða er sláandi munur á getu og hæfileikum ritstjóra blaðanna og annarra blaðamanna. Það hefur síðan í för með sér föðurlega stjórnun sem öðrum þræði er dragbítur á sjálfstæð vinnubrögð.

Ekki er líklegt að samkeppni aukist á íslenskum blaðamarkaði á næstu áratugum. Fjölmiðlamarkaðurinn er í nokkuð föstum skorðum, þ.e. sá hluti markaðarins sem byggist á að selja neytendum áskrift. Útgjöld vegna fjölmiðlanotkunar eru fyrir flesta u.þ.b. 10.000 kr. á mánuði - sem gerir það að verkum að fólk getur ekki bætt við sig nýjum fjölmiðli. Nýir fjölmiðlar sem vilja hasla sér völl bjóða því upp á ókeypis notkun, svo sem Skjár 1, ýmsar útvarpsstöðvar og vefsíður á Netinu. Ef nýtt alvöru dagblað liti dagsins ljós þyrfti það að höggva stórt skarð í lesendahópa Morgunblaðsins og DV til að eiga sér tilverugrundvöll; það gæti m.ö.o. ekki þrifist við hliðina á Morgunblaðinu og DV jafnöflugum og þau eru nú.

En þrátt fyrir viðvarandi samkeppnisskort er það engu að síður trú mín að íslensk blöð muni í framtíðinni líkjast meir engilsaxneskum blöðum og leggja aukna áherslu á góðan texta og skarpar greiningar. Netið mun ýta undir þessa þróun. Smám saman mun mikið af upplýsingaflóðinu sem blöðin eru uppfull af núna fara beina leið á Netið og blöðin verða þá í auknum mæli að útskýra og túlka það sem gerist. Það aðsenda efni sem blöðin birta nú mun líka í framtíðinni að miklu leyti fara á Netið og aðeins það besta verður prentað í fullri lengd. Barátta umhverfisverndarsinna mun leggja lóð á vogarskálina, aðeins verulega góður texti mun réttlæta allt það skógarhögg sem þarf í pappír blaðanna. Þróun í þessa átt er afar brýn fyrir framtíð íslenskrar tungu. Fái ungt fólk ekki svalað þörf sinni fyrir hágæða lesefni og skarpar greiningar á þjóðfélagsmálum og nútíma mannlífi í íslenskum dagblöðum mun það í enn meiri mæli en orðið er leita á vit enskunnar.

Að svo mæltu slæ ég botn í þessa Viðhorfspistla mína og þakka lesendum góðar viðtökur.

Jakob F. Ásgeirsson