STARFSMÖNNUM Íslenskra verðbréfa og Verðbréfastofunnar voru á síðasta ári veittar undanþágur frá ákvæðum verklagsreglna fyrirtækjanna, til að eiga viðskipti með bréf í DeCode, að sögn framkvæmdastjóra fyrirtækjanna.
STARFSMÖNNUM Íslenskra verðbréfa og Verðbréfastofunnar voru á síðasta ári veittar undanþágur frá ákvæðum verklagsreglna fyrirtækjanna, til að eiga viðskipti með bréf í DeCode, að sögn framkvæmdastjóra fyrirtækjanna.

Sævar Helgason, framkvæmdastjóri Íslenskra verðbréfa á Akureyri, segir ástæðuna fyrir því að starfsmönnum fyrirtækisins var þetta heimilað, vera þá að þegar viðskiptin fóru fram hafi forsvarsmenn DeCode verið búnir að lýsa því yfir að félagið myndi sækja um skráningu á markaði.

"Starfsmenn Verðbréfastofunnar geta samkvæmt verklagsreglum fyrirtækisins sótt um undanþágur frá banni við viðskiptum með óskráð bréf," segir Jafet Ólafsson, framkvæmdastjóri fyrirtækisins. Hann segir stjórn fyrirtækisins hafa í nokkur skipti veitt undanþágur af þessu tagi, m.a. vegna viðskipta starfsmanna með bréf DeCode.

Að sögn Sævars Helgasonar eru verklagsreglur í gildi innanhúss hjá Íslenskum verðbréfum sem m.a. mæla fyrir um að starfsmönnum sé óheimilt að eiga viðskipti með óskráð bréf fyrir eigin reikning. "Við settum það skilyrði fyrir kaupunum, að starfsmennirnir fjárfestu í þessum bréfum til lengri tíma," segir Sævar og bætir því við að fjárhæðir þær sem starfsmennirnir skiptu fyrir hafi verið lágar.

Jafet Ólafsson segir að þrátt fyrir þessar undanþágur sé sú regla í heiðri höfð innan Verðbréfastofunnar að starfsmenn standi sjálfir ekki mikið í verðbréfaviðskiptum. "Við höfum þó ekki viljað binda hendur starfsfólks, kjósi það að eiga viðskipti með óskráð bréf," segir Jafet.

Engar reglur um viðskipti starfsmanna með óskráð bréf

Jónas Reynisson, sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Hafnarfjarðar, segir að starfsfólki þar sé heimilt að eiga viðskipti með óskráð bréf. "Þegar verklagsreglur voru settar innan Sparisjóðsins var ákveðið að hafa ekki inni ákvæði sem takmörkuðu þessi viðskipti starfsmanna. Þrátt fyrir að þetta sé heimilt, eru þó þröngar skorður settar við þessum viðskiptum. Er það gert til þess að við getum uppfyllt ákvæði verðbréfaviðskiptalaga um viðskipti fyrirtækja í verðbréfaþjónustu með eigin bréf," segir Jónas.

Aðspurður hvort starfsmenn Sparisjóðsins þyrftu að leita samþykkis yfirmanns síns vegna eigin viðskipta, sagði Jónas að í sumum tilfellum væri þess krafist.

Verklagsreglur eru ekki í gildi hjá Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis, að sögn Guðmundar Haukssonar sparisjóðsstjóra. "Mér er kunnugt um að starfsmenn hafa stundað viðskipti fyrir eigin reikning með óskráð bréf. Sparisjóðurinn hefur ekki haft sérstakt eftirlit með þessum viðskiptum. Aftur á móti er nú unnið að setningu slíkra reglna hjá SPRON og er í þeirri vinnu horft til þeirrar fyrirmyndar að verklagsreglum sem samtök fyrirtækja í verðbréfaþjónustu eru að setja," segir hann. Guðmundur gegnir einnig stöðu stjórnarformanns Kaupþings og segir að hjá því fyrirtæki gildi stífar verklagsreglur sem stjórnendur fyrirtækisins kappkosti að fylgja. Sér sé ekki kunnugt um að neinar undanþágur hafi þar verið veittar frá banni reglnanna við viðskiptum starfsmanna með óskráð bréf.

Reglurnar veita engar heimildir til undanþágna

Brynhildur Sverrisdóttir, framkvæmdastjóri Fjárvangs, segir engar undanþágur hafa verið veittar frá ákvæðum verklagsreglna fyrirtækisins um bann við viðskiptum starfsmanna með óskráð bréf fyrir eigin reikning.

"Við gerðum þó ekki athugasemdir við það að starfsmenn keyptu hluti í útboði knattspyrnufélaganna á síðasta ári enda var þar í öllum tilfellum um mjög lágar fjárhæðir að ræða. Verklagsreglur eru samþykktar af stjórnum verðbréfafyrirtækjanna og Fjármálaeftirlitinu. Í þeim er ekki neinar undanþágur að finna. Ég skil því ekki hvernig yfirmenn verðbréfafyrirtækja, hvort sem þeir eru framkvæmdastjórar, forstjórar eða bankastjórar, geta litið svo á að þeir hafi heimild til að veita undanþágur frá reglunum.

Brynhildur segist vera þeirrar skoðunar að verklagsreglur eigi ekki eingöngu að takmarkast við starfsmenn verðbréfafyrirtækja. Æskilegt sé að reglur gildi einnig um viðskipti annarra aðila á markaði sem áhrif geti haft á verð bréfa.