FRIÐARVIÐLEITNI Ísraela og Sýrlendinga beið hnekki í gær er báðir aðilar tilkynntu að þeir hygðust ekki senda séfræðinga til samningaviðræðna í Washington í næstu viku eins og ráð var fyrir gert.
FRIÐARVIÐLEITNI Ísraela og Sýrlendinga beið hnekki í gær er báðir aðilar tilkynntu að þeir hygðust ekki senda séfræðinga til samningaviðræðna í Washington í næstu viku eins og ráð var fyrir gert. Á sama tíma sagði Ehud Barak á fréttamannafundi í Stokkhólmi, þar sem hann var staddur á alþjóðlegri ráðstefnu um helförina, að hann væri bjartsýnn á að viðræður mundu hefjast á næstu vikum.

Sýrlendingar krefjast þess enn að Ísraelar fallist á að skila þeim aftur Gólanhæðum óskiptum, sem Ísraelar náðu á sitt vald árið 1967. Stjórnvöld í Sýrlandi neita að ræða aðra þætti í hugsanlegu friðarsamkomulagi ríkjanna fyrr en Ísraelar fallast á þetta. Ehud Barak, forsætisráðherra Ísraels, hefur sagt að hann sé reiðubúinn að afhenda Sýrlendingum mestan hluta hæðanna en einungis eftir að samið hafi verið um öryggis- og varnarmál. Stefnt var að því að sérfræðingar ríkjanna færu til Washington í næstu viku til að ræða vinnuplagg sem bandarísk stjórnvöld tóku saman í upphafi mánaðarins þegar vikulöngum friðarviðræðum ríkjanna lauk án teljandi árangurs. Vonast hafði verið til þess að vinnuplaggið gæti orðið grundvöllur frekari viðræðna.

Ehud Barak sagðist í gær vera þess fullviss að friðarviðræður gætu hafist að nýju innan nokkurra vikna. "Ég held að viðræður muni hefjast á næstu vikum. Ég veit ekki hvenær, e.t.v. eftir þrjár eða fjórar vikur," sagði Barak. "Ég er enn fullviss um að Assad er sterkur og áreiðanlegur leiðtogi," bætti hann við og átti þar við Hafez al-Assad Sýrlandsforseta.

Friðarviðræður ríkjanna hófust að nýju eftir fjögurra ára hlé í desember á síðasta ári. Ríkin hafa formlega verið í stríði allt frá stofnun Ísraelsríkis árið 1948.

Krefst þess að Sýrlendingar stöðvi árásir í Líbanon

Aðstoðarvarnarmálaráðherra Ísraels, Ephraim Sneh, krafðist þess í gær að Sýrlendingar beittu áhrifum sínum til þess að stöðva árásir Hezbollah-skæruliða á stöðvar ísraelska hersins í Líbanon. Ísraelar halda því fram að Sýrlendingar geti í krafti stöðu sinnar í Líbanon knúið skæruliða til að hætta árásum. "Ef Sýrlendingum er alvara með friðarviðræðunum, er ekki nema eðlilegt að við ætlumst til þess að þeir stöðvi árásirnar," sagði Sneh í samtali við útvarpsstöð ísraelska hersins.

Einn ísrelskur hermaður lést í átökum við Hezbollah í Líbanon á þriðjudag.

Palestínumenn sagðir leggja fram tillögur

Fjölmiðlar í Ísrael skýrðu frá því að aðalsamningamenn Ísraela og Palestínumanna hefðu komið saman í Jerúsalem í gær.

Áður hafði ísraelskt dagblað sagt að Palestínumenn hefðu lagt fram tillögur um endanlegt friðarsamkomulag við Ísraela sem gengju út það að Ísrael fengi þau svæði á vesturbakka Jórdanár þar sem gyðingar hafa tekið sér búsetu. Blaðið Haaretz sagði að tillögurnar hefðu verið kynntar á fundi leiðtoga Palestínumanna, Yassers Arafats, og Bills Clintons Bandaríkjaforseta í Washington í síðustu viku.

Náinn aðstoðarmaður Arafats neitaði því í gær að nokkuð væri hæft í fréttinni, en bandarískir embættismenn, sem ekki vildu láta nafna sinna getið, sögðu fréttina að hluta til sanna.

Samkvæmt frétt blaðsins vilja Palestínumenn að Ísraelar fallist formlega á að þúsundum palestínskra flóttamanna, sem búa í nágrannaríkjum Ísraels, verði leyft að snúa aftur heim. Einnig segir blaðið að tillögurnar geri ráð fyrir að Jerúsalem verði skipt og að Palestínumenn fái yfirráð yfir austurhlutanum, þar sem þeir eru í meirihluta.

Samkvæmt áætlun sem samþykkt var síðastliðið haust áttu drög að endanlegu friðarsamkomulagi þjóðanna að vera tilbúin 13. febrúar á þessu ári. Undanfarna daga hafa þó margir dregið í efa að það markmið muni nást.