Segja má að þessi litfagri kvöldroði um þorrakomuna vitni um þá góðu tíð sem í vændum er skv. veðurspá manna á Austurlandi. Kvöldroðanum var ávallt talið fylgja úrkomulaust veður eins og eftirfarandi spakmæli ber vitni um: "Kvöldroðinn bætir og
Segja má að þessi litfagri kvöldroði um þorrakomuna vitni um þá góðu tíð sem í vændum er skv. veðurspá manna á Austurlandi. Kvöldroðanum var ávallt talið fylgja úrkomulaust veður eins og eftirfarandi spakmæli ber vitni um: "Kvöldroðinn bætir og
Vaðbrekku, Jökuldal- Veðurspámenn á Austurlandi virðast vera sammála um að veturinn í vetur verði góður. Haft var samband við nokkra þeirra og þeir spurðir álits á þeim hluta vetrarins sem eftir er.
Vaðbrekku, Jökuldal- Veðurspámenn á Austurlandi virðast vera sammála um að veturinn í vetur verði góður. Haft var samband við nokkra þeirra og þeir spurðir álits á þeim hluta vetrarins sem eftir er. En allir höfðu þeir orð á því að það sem af væri hefði ekki komið þeim á óvart.

Björn Andrésson í Fellabæ segir að snjólítið eða snjólaust verði í allan vetur. Björn, sem er fyrrverandi bóndi í Njarðvík við Borgarfjörð eystra, segir að sig dreymi venjulega í hlöðu heima í Njarðvík um veturnætur og geti af því dregið hvernig veturinn verði. Svo var þó ekki í þetta skipti en veturinn leggst vel í Björn engu að síður og segir hann að ekki verði verulegar skoddur í vetur. Hann vildi ekki spá í vorið að svo stöddu.

Sigurjón Guðmundsson á Eiríksstöðum segir að veturinn verði góður að mestu, þó komi verri kaflar inn sem ekki verði þó svo slæmir þegar öllu er á botninn hvolft.

Sigurjón segir að þorrinn verði góður, hann var einnig búinn að segja fyrir um hláku um þorrakomuna, og telur að vorið geti orðið gott.

Eldri kona sem ekki vill láta nafns síns getið segir að sig hafi dreymt mikið af dökku fé sem þýði að veturinn verði góður, sérstaklega þrjár fyrstu vikur þorra, en þó komi þrisvar él á þeim tíma og það sem eftir lifir vetrar verði frekar gott og nær auð jörð.

Bræðurnir Aðalsteinn og Hákon Aðalsteinssynir frá Vaðbrekku eru sammála í sínum spám enda aldir upp saman og má ætla að þeir leggi sama grunn að sínum spám.

Þeir spá góðum vetri og að það verði mikil suðvestanátt í vetur. Þó veðurstofan sé að spá norðanskoti um næstu helgi segir Hákon að sú spá muni gufa upp. Þeir segja að Þorrinn verði góður en þó megi búast við hreti síðast á Þorranum. Mars verður umhleypingasamur með lítilsháttar éljagangi, þó engin harðindi verði þá. Apríl verður góður með ríkjandi sunnanáttum en gæti orðið hvasst með köflum. Fyrripartur mai verður kaldur en það verði glimrandi bati síðast í mai. Júní verður hlýr og góður og góð heiskapartíð í júlí.

Aðalbjörn Kjerúlf á Arnheiðarstöðum spáir góðri tíð fram í mars, og hann sagði til um kuldana fyrr í vetur og hlákuna um Þorrakomuna.

Þorgrímsstaðabræður í Breiðdal Gunnar og Hlífar Erlingssynir spá léttum vetri, Gunnar segir að hann hafi sagt strax í haust að það yrði léttur vetur þar til sól færi að hækka á lofti. Þeir bræður spá mest mánuð í senn en fundu þó á sér að þessi vetur yrði góður. "Þorrinn verður góður ef þessi vika endar vel veðurfarslega," segir Gunnar. Síðan verður gott áfram í vetur. Aðspurðir um vorið segja þeir að vorið verði kalt og gróður komi seint. Sumarpáskar viti ekki á gott reynslan sýni að oft fylgi þeim slæm tíð.