ÉG vil koma á framfæri ánægju minni með Alfanámskeið sem ég tók þátt í á vegum Hafnarfjarðarkirkju á síðastliðnu hausti og ég verð að segja að mér fannst það frábært. Við hittumst á fimmtudögum í 10 vikur og ég vildi ekki missa af einu einasta skipti.
ÉG vil koma á framfæri ánægju minni með Alfanámskeið sem ég tók þátt í á vegum Hafnarfjarðarkirkju á síðastliðnu hausti og ég verð að segja að mér fannst það frábært. Við hittumst á fimmtudögum í 10 vikur og ég vildi ekki missa af einu einasta skipti. Ég hlakkaði til að hitta þessa ágætu leiðbeinendur og þátttakendur og til okkar sameiginlega borðhalds, þar sem við kynntumst á mjög jákvæðan hátt. Á eftir málsverði fór fræðslan fram. Ég verð að segja að ég hafði ekki mikið velt fyrir mér spurningum um kristna trú, þótt ég hafi átt mína barnatrú og mitt bænalíf, en Biblían fannst mér ekki aðgengileg að fletta upp í, en úr þessu vildi ég bæta og tók því þessu námskeiði fegins hendi. Það hvernig leiðbeinendur leiddu okkur hver af öðrum á sinn ljúfa og skemmtilega hátt í gegnum efni námskeiðsins og kenndu okkur að fletta upp í Biblíunni, og það hvernig hinum trúarlegu spurningum var svarað um námsefnið í umræðuhópnum og hvernig við skiptumst á trúarlegri reynslu hvers og eins og hvernig hvert kvöld var endað með bæn og fyrirbænum, þá fann ég að eftir því sem leið á námskeiðið hvernig trúarvissa mín jókst og að ég væri að eignast eitthvað dýrmætt, það er að segja lifandi trú á guð og það eflir vissulega innri styrk.

Ég vil líka minnast á helgina sem við áttum saman í Ölveri í Borgarfirði, samfélag okkar við guð í bæn var mjög áhrifaríkt, það má segja, að þessi helgi hafi verið ein allsherjar andleg og líkamleg næringarveisla.

Nú er að hefjast nýtt Alfanámskeið og vona ég að sem flestir beri gæfu til að taka þátt í því.

Kona í Hafnarfirði.

Til Ríkisútvarpsins

UNDANFARNA sunnudagsmorgna hafa verið á dagskrá Ríkisútvarpsins þættir sem nefnast Öldin sem leið. Efni þeirra virðist hið fróðlegasta, en vegna þess, hve lestur höfundarins er óáheyrilegur (hraður og rykkjóttur), fer efni hans því miður fyrir ofan garð og neðan hjá mér. Það eru tilmæli mín til útvarpsins að það vandi betur til upplesara og eins viðmælenda í samtalsþáttum. En hvað þá varðar, væri ekki ráð að þurrka út þetta eilífa hérna, sem sagt og sko, ófögnuð sem tröllríður flestum viðtölum. Er ekki hvort eð er allt það efni sent út af böndum? Um sjónvarpið ætla ég ekki að fjölyrða - það er sjálfu sér verst.

Siggi í Árborg.

Raddir Evrópu - stórkostlegur kór

ÉG var einn þeirra fjölmörgu sem lögðu leið sína í Hallgrímskirkju á nýársdag til að njóta tónlistar og bænastundar. Þar söng kórinn Raddir Evrópu sig inn í hug og hjörtu þeirra er á hlýddu og voru bænir um frið lesnar á milli laga á mörgum tungumálum. Kórinn samanstendur af 90 ungmennum frá öllum menningarborgum Evrópu, undir stjórn Þorgerðar Ingólfsdóttur og fleiri.

Það var kynngimagnaður kraftur í kirkjunni þetta síðdegi og áhrifamikið að hlusta á bænina "Faðir vor" lesna á níu tungumálum í lokin. Þessari stund fylgdi trú á framtíðina þar sem glæsileg ungmennin sameinuðust í stórkostlegum söng sem engan lét ósnortinn. Útvarpað var frá þessum atburði en ekki er ólíklegt að margir hafi misst af útsendingunni sökum hátíðarhalda. Það er því einlæg von mín að Ríkisútvarpið endurflytji þessa metnaðarfullu dagskrá. Hafi þeir, sem að undirbúningi stundarinnar stóðu, hjartans þökk fyrir.

Ánægður kirkjugestur.

Málvenja og málfar

MIKIL hörmung er að heyra hámenntaða menn í útvarpi og sjónvarpi tala um verðin á hinu og þessu. Það er eins og þeir átti sig ekki á því að orðið verð er aðeins til í eintölu líkt og orðið kaffi og fleiri orð. Ef til vill eigum við eftir að heyra þessa sömu menn tala um verðlögin í landinu eða að kaffin séu ódýrust í Nóatúnsbúðinni. Þá er mjög algengt að menn segi að jólatréin séu komin í staðinn fyrir að jólatrén séu komin og er það afar slæm málvenja. Tökum á og vöndum málfarið.

Skólastjóri.

Gullarmband týndist

GULLARMBAND týndist í Mosfellsbæ, Fossvogi, Seltjarnarnesi eða á Hallveigarstíg 1, laugardagskvöldið 8. janúar sl. Skilvís finnandi er vinsamlegast beðinn að hafa samband við Kristínu í síma 581-4339.

Mjótt gullarmband týndist

MJÓTT gullarmband týndist í síðustu viku. Líklega efst á Laugavegi, Rauðarárstíg eða við Tryggvagötu. Finnandi vinsamlegast hringi í síma 553-3365.

Barnabútasaumsteppi fannst

FYRIR u.þ.b. hálfum mánuði fannst barnabútasaumsteppi við Bústaðaveg. Upplýsingar veitir Linda í síma 568-4872.

Giftingarhringur í óskilum

KARLMANNS-giftingarhringur fannst í Laugarneshverfi. Upplýsingar í síma 568-5839.

Læða týndist í Breiðholti

BRÚN, svört og hvít læða, inniköttur, eyrnamerkt, týndist sl. sunnudagskvöld frá Maríubakka í Breiðholti. Þeir sem hafa orðið hennar varir vinsamlega hafi samband í síma 567-3914.