SÁTT náðist á milli lögmanns Verzlunarmannafélags Reykjavíkur og starfsmannastjóra 10-11-verslunar við Laugalæk í Reykjavík í máli starfsmanns, sem kærður var til lögreglunnar á dögunum og rekinn á staðnum eftir að eftirlitsmaður á vegum...
SÁTT náðist á milli lögmanns Verzlunarmannafélags Reykjavíkur og starfsmannastjóra 10-11-verslunar við Laugalæk í Reykjavík í máli starfsmanns, sem kærður var til lögreglunnar á dögunum og rekinn á staðnum eftir að eftirlitsmaður á vegum verslunarkeðjunnar taldi starfsmanninn hafa orðið uppvísan að því að hafa ætlað sér að stela pepsíflösku er hann tók sér kaffihlé í vinnunni.

Að sögn Péturs A. Maack, varaformanns VR, verður piltinum því greiddur viku uppsagnarfrestur samkvæmt kjarasamningi því sekt hafi ekki sannast á piltinn.

Pétur sagði það afar gott að í málinu hefði lögregla verið kölluð til enþað þýddi að tekin hefði verið skýrsla og bæði starfsmaður og vinnuveitandi þannig haft tök á að skýra sitt mál á vettvangi.

Að sögn Péturs er þetta ekki í fyrsta sinn sem VR hefur afskipti af ágreiningsmálum á vinnustað og meintum ásökunum. Yfirleitt væri um afar viðkvæm mál að ræða, mál sem ekki alltaf ættu erindi í fjölmiðla.

Pétur vildi ekki tjá sig um þetta tiltekna mál að svo stöddu en sagði að almennt væri reglan vitaskuld sú að ef menn brytu af sér í starfi þá væri hægt að segja þeim upp fyrirvaralaust. Þá þyrfti sekt hins vegar að vera sönnuð.