SAS hyggst nú bjóða upp á sveigjanlegri fargjöld á löngum flugleiðum til að koma í veg fyrir að missa af viðskiptaferðum til annarra flugfélaga. Engar áætlanir eru enn sem komið er um hliðstæðar breytingar á flugleiðum innan Evrópu.
SAS hyggst nú bjóða upp á sveigjanlegri fargjöld á löngum flugleiðum til að koma í veg fyrir að missa af viðskiptaferðum til annarra flugfélaga. Engar áætlanir eru enn sem komið er um hliðstæðar breytingar á flugleiðum innan Evrópu. Flugvélakaup standa einnig fyrir dyrum hjá SAS til notkunar á skemmri og meðallöngum flugleiðum. Nýlega var sagt frá kaupum á tíu vélum til langferða frá Airbus.

"Þetta snýst um að hlusta á markaðinn. Við höfum skilið boðskapinn," segir Steen Wulff, markaðsstjóri SAS, á þriðjudag í viðtali við Berlingske Tidende. Hann segir ljóst að SAS megi ekki við því að missa fólk í viðskiptaerindum yfir til annarra fyrirtækja. Lausnin sé að bjóða fólki upp á sveigjanlegri möguleika á viðskiptafarrýmisfargjöldum.

Meginatriðið er að hægt verður að kaupa far á ferðamannafarrými án hefðbundinna takmarkana, til dæmis um að vera í burtu aðfaranótt sunnudags. Einnig er ætlunin að hægt verði að fljúga á viðskiptafarrými aðra leiðina en á ferðamannafarrými hina leiðina.

Með miða af þessu tagi situr fólk á ferðamannafarrými, þar sem yfirleitt er þrengra og minna lagt upp úr þjónustunni en á viðskiptafarrými, en losnar við venjulegar takmarkanir miða á ferðamannafarrými. Boðið verður upp á þessa miða á flugleiðum til Bandaríkjanna, Japan, Bangkok og Singapúr, en að fengnum nauðsynlegum leyfum verður Indlandi og Kína bætt við. Að sögn Wulff stendur ekki til að bjóða upp á þessa nýju kosti á flugleiðum í Evrópu, en allt geti þó gerst.

Sem dæmi má nefna að fullt verð fyrir far með SAS á viðskiptafarrými frá Kaupmannahöfn til Bangkok kostar 26.400 danskar krónur, tæpar 300.000 íslenskar krónur, og 18.400 á ferðamannafarrými. Nú verður boðið upp á far á ferðamannafarrými fyrir tólf þúsund krónur án venjulegra takmarkana um lágmarkslengd á dvöl eða hvenær í vikunni ferðast er.

Á milli Kaupmannahafnar og New York verður boðið upp á fargjald á ferðamannafarrými án takmarkana á 13.600 kr. í stað 20.900 kr. á viðskiptafarrými. Á þessari leið verður einnig hægt að spara fjögur þúsund danskar krónur af 20.900 kr. með því að vera á ferðamannafarrými aðra leiðina. Samkvæmt fréttum Aftenposten í Noregi eru flugvélakaup fyrir dyrum í SAS. Félagið hyggst kaupa 10-15 vélar til að bæta við á skemmri og meðallöngum flugleiðum. Félagið á í viðræðum bæði við Airbus og Boeing, en enn hefur ekki verið tekin ákvörðun um hvar vélarnar verða keyptar. Um er að ræða viðskipti upp á um 30-40 milljarða íslenskra króna.

Eins og er notast SAS við vélar er taka um 130 farþega á þessum leiðum, en áætlað er að nýju vélarnar taki um 180 farþega. Einkum er um að ræða flugleiðir innan Evrópu, til London, Parísar og Frankfurt og á milli höfuðborga á Norðurlöndum. Þar sem þessar leiðir eru þegar þétt setnar og lendingarleyfi liggja ekki á lausu fer SAS hér þá leið að nota stærri vélar í stað þess að fjölga flugferðum.

Fyrir um mánuði var kynntur samningur við Airbus um kaup á tíu stórum vélum til langferða. Vélarnar tíu kosta rúma 90 milljarða íslenskra króna og verða afhentar á næstu fjórum árum. Í samningnum er einnig möguleiki á að bæta sjö vélum af þessu tagi við á sama verði og hinar.