Nawaz Sharif fluttur í brynvagni úr dómhúsi í Karachi.
Nawaz Sharif fluttur í brynvagni úr dómhúsi í Karachi.
MIKILVÆGASTA vitni ákæruvaldsins í máli Nawaz Sharifs, fyrrverandi forsætisráðherra Pakistans, vitnaði gegn honum í gær þegar réttarhöldin yfir honum hófust.
MIKILVÆGASTA vitni ákæruvaldsins í máli Nawaz Sharifs, fyrrverandi forsætisráðherra Pakistans, vitnaði gegn honum í gær þegar réttarhöldin yfir honum hófust. Nokkrum klukkustundum áður hafði herforingjastjórnin, sem steypti Sharif af stóli í október, rekið forseta hæstaréttar og fimm aðra dómara réttarins vegna þess að þeir neituðu að sverja henni hollustueið.

Sharif er sakaður um mannrán, morðtilraun, flugrán og hermdarverk og var leiddur fyrir dómstól sem fjallar um mál meintra hryðjuverkamanna. Bróðir hans og fimm aðrir háttsettir embættismenn hafa einnig verið ákærðir. Þeir segjast allir vera saklausir af sakargiftunum.

Mikill öryggisviðbúnaður var við dómhúsið þegar hinir ákærðu voru fluttir þangað í brynvögnum.

Sharif er sakaður um að hafa reynt að hindra að flugvél með Pervez Musharraf yfirhershöfðingja og tæplega 200 aðra farþega fengi að lenda á alþjóðaflugvellinum í Karachi nokkrum klukkustundum fyrir valdarán hersins. Flugvélin kom frá Sri Lanka og gat ekki lent á flugvellinum fyrr en herinn hafði lagt hann undir sig. Musharraf tók völdin í sínar hendur nokkrum klukkustundum síðar og lét handtaka Sharif.

Sharif á yfir höfði sér dauðadóm verði hann fundinn sekur.

Sagður hafa látið loka flugvellinum

Gamall samstarfsmaður Sharifs, Aminullah Chaudhary, fyrrverandi yfirmaður flugmálastjórnar Pakistans, var fyrsta vitni ákæruvaldsins og sagði að Sharif hefði skipað sér að hindra að flugvélin lenti í Pakistan. Chaudary var í fyrstu ákærður fyrir aðild að málinu en féllst á að bera vitni gegn Sharif til að fá sakaruppgjöf og er nú mikilvægasta vitni ákæruvaldsins.

Chaudhary sagði að Sharif hefði sagt sér að loka flugvellinum í Karachi og skipa flugmanni vélarinnar að fljúga henni til Miðausturlanda.

Chaudhary kvaðst hafa reynt að hringja í Sharif þegar ljóst var að flugvélin myndi hrapa innan nokkurra mínútna vegna eldsneytisskorts ef hún fengi ekki lendingarleyfi í Karachi. Honum hefði þá verið sagt að Sharif væri upptekinn. Chaudhary talaði þá við hermálafulltrúa Sharifs, sem sagði honum að leyfa flugvélinni að lenda, láta brynvagna umkringja hana, heimila henni að taka eldsneyti og skipa flugmanninum að fljúga henni til Sameinuðu arabísku furstadæmanna.

Áður en réttarhöldin hófust hafði herforingjastjórnin fyrirskipað öllum dómurum æðstu dómstóla landsins að sverja henni hollustueið til að treysta tök sín á dómsvaldinu. Forseti hæstaréttar og fimm aðrir dómarar réttarins neituðu að sverja eiðinn og voru því reknir í gær og nýir dómarar skipaðir.