29. janúar 2000 | Aðsent efni | 818 orð | 1 mynd

Tóbak

Ráðgjöf í reykbindindi - grænt númer

Ásgeir R. Helgason
Ásgeir R. Helgason
Bara það að fá að tala um hremmingarnar, segir Ásgeir R. Helgason, hjálpar mörgum.
NÝLEGA var opnað á Heilbrigðisstofnun Þingeyinga á Húsavík grænt númer fyrir reykingafólk sem hefur áhuga á því að hætta að reykja eða er hætt og þarf á stuðningi að halda. Starfsemin þjónar landinu öllu og er fjármögnuð af tóbaksvarnanefnd. Sérhæfðir hjúkrunarfræðingar svara í símann en einnig tengjast þjónustunni læknar, sálfræðingur, næringarfræðingur og aðrir sem sérþekkingu hafa á hinum ýmsu málum sem geta komið upp eftir að fólk hættir að reykja. Þjónustan er sniðin eftir bandarískri og sænskri fyrirmynd. "Ráðgjöf í reykbindindi - grænt númer" var opnuð í tilraunaskyni um áramótin.

Hverjir hringja?

Í Svíþjóð, þar sem slík þjónusta hefur verið í gangi í rúmt ár, hefur farið fram stöðugt mat á gæðum þjónustunnar og eins er vandlega fylgst með því hve margir og hverjir hringja. Niðurstöður sýna að það eru fyrst og fremst tveir hópar reykingafólks sem nota þessa þjónustu. Í fyrsta lagi þeir sem eru að hugsa um að hætta og falast eftir leiðbeiningum um það hvernig best er að bera sig að svo hremmingarnar verði sem minnstar.

Í öðru lagi eru svo þeir sem eru tiltölulega nýhættir og leita eftir stuðningi eða vilja fá ráðgjöf varðandi fráhvarfseinkenni eins og einbeitingarörðugleika, þunglyndi, svefntruflanir og ýmislegt annað sem hægt er að laga í flestum tilvikum ef menn fá rétt ráð og fylgja þeim.

Einnig er nokkuð um að til sænsku línunnar hringi fólk sem hefur verið reyklaust í meira en ár en hefur einhverra hluta vegna hafnað í erfiðum löngunarkveisum t.d. í tengslum við skilnað, ástvinamissi eða miklar óbeinar reykingar. Fámennasti hópurinn er þeir sem eru eiginlega ekki tilbúnir til að hætta að reykja en eru forvitnir og vilja vita meira um þjónustuna.

Hverjir ná árangri?

Reynslan sýnir að þeim sem hringja áður en þeir hætta að reykja og fylgja þeim undirbúningsráðum sem gefin eru í síma (og send út í bæklingum) líður mun betur eftir að þeir hætta alveg en hinum sem ekkert undirbúa sig. Þeir eru því líklegri til að ná árangri. Eins er mikilvægt að fólk sé ekki feimið við að hringja eins oft og þörf krefur.

Bara það að fá að tala um hremmingarnar hjálpar mörgum og eins er oftast hægt að leiðbeina fólki til að draga úr fráhvarfseinkennum og löngunarkveisum. Í Svíþjóð er þessi þjónusta mikið notuð af læknum sem ráðleggja sjúklingum sínum að hætta að reykja vegna ýmissa ástæðna og vísa þeim síðan á þennan stuðning. Þannig losnar læknirinn við tímafrek stuðningsviðtöl og sérhæfða ráðgjöf en hefur eftir sem áður það mikilvæga hlutverk að hvetja viðkomandi til dáða og fylgjast með hvernig gengur.

Að skraddarasníða stuðninginn

Engir tveir reykingamenn eru nákvæmlega eins og því er mikilvægt að sníða ráðgjöfina að þörfum hvers og eins. Einnig er mikilvægt að tryggja samfellu í meðferðinni. Reykingamaður sem hringir oftar en einu sinni í þjónustuna á ekki að þurfa að svara sömu spurningunum aftur og aftur. Í Svíþjóð er sú leið farin að tekin er sjúkraskýrsla af öllum sem hringja, eins og gert er í allri annarri starfsemi heilbrigðisþjónustunnar. Sú leið verður einnig farin hér. Þar eru skráðar upplýsingar um viðkomandi sem nauðsynlegar eru til að skipuleggja stuðninginn fyrir hvern og einn. Þegar viðkomandi hringir í annað eða þriðja sinn er sjúkraskýrslan tekin fram og hjúkrunarfræðingurinn sem svarar getur þá á tiltölulega einfaldan hátt tekið upp þráðinn þar sem frá var horfið síðast án þess að eyða löngum tíma í að setja sig inn í málið. Að sjálfsögðu eru þessar skýrslur trúnaðarmál eins og allar aðrar sjúkraskýrslur. Markmiðið er að allir sem hringja fái heimsenda bæklinga sem sniðnir eru að þörfum viðkomandi.

Í Svíþjóð er um að ræða sex ólík hefti. Ætlunin er að þýða þessa bæklinga með vorinu en fram að því verður notast við hefti sem er sérprentun á þrem greinum úr tímaritinu Nýju lífi sem birtust um áramótin undir nafninu "Nýtt líf án tóbaks".

Að ná sambandi

Á álagstímum getur verið erfitt að ná sambandi við þjónustuna. Því hefur verið gripið til þess ráðs að gefa fólki tækifæri á að skilja eftir nafn og símanúmer í sérstakri skilaboðaskjóðu. Best er að tilgreina einnig á hvaða tímum dagsins best er að ná í þig í þessu númeri. Starfsfólk þjónustunnar reynir síðan að ná í viðkomandi. Gerðar eru fjórar tilraunir. Ef þú skilur eftir skilaboð og ekki er hringt til baka getur það stafað af eftirfarandi: A) Þú svaraðir ekki þegar reynt var að ná í þig. B) Þú talaðir ekki nógu greinilega inn í skilaboðaskjóðuna svo starfsfólkið náði ekki númerinu. C) Tæknilegir örðugleikar, t.d. að skilaboðaskjóðan var biluð. Reynslan frá Svíþjóð sýnir þó að þetta kerfi gengur vel í langflestum tilfellum. Það tekur tíma að þróa þjónustu eins og þessa.

Ákveðið var að byrja nú um áramótin og ætlunin er að fínpússa og þróa þjónustuna fram á haustmánuði en þá ætti "Ráðgjöf í reykbindindi - grænt númer" að vera komin í fastan farveg. Númerið er 8006030. Ykkur er velkomið að hringja.

Höfundur er sálfræðingur og vinnur við þróun forvarnaverkefna og lífsgæðarannsóknir í Stokkhólmi.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.