Kristófer Dignus Pétursson, handritshöfundur Úr öskunni í eldinn, ásamt leikstjóranum Óskari Jónassyni.
Kristófer Dignus Pétursson, handritshöfundur Úr öskunni í eldinn, ásamt leikstjóranum Óskari Jónassyni.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
"ÞETTA er rómantísk spennumynd með gráglettnu ívafi," segir Kristófer Dignus er hann er beðinn um að lýsa því hvernig mynd þetta er. "Sagan segir frá götusópara sem finnur unga stúlku meðvitundarlausa í ruslinu.

"ÞETTA er rómantísk spennumynd með gráglettnu ívafi," segir Kristófer Dignus er hann er beðinn um að lýsa því hvernig mynd þetta er.

"Sagan segir frá götusópara sem finnur unga stúlku meðvitundarlausa í ruslinu. Götusóparagreyið gengur ekki alveg heilt til skógar, hefur stórt hjarta en er ekki eins og fólk er flest. Hann fer með hana heim til sín og hjúkrar henni en kemst fljótt að því að óprúttnir menn eru á hælum hennar, þar á meðal fyrrverandi kærasti hennar sem starfar hjá útfararþjónustu sem stundar myrkraverk í skjóli nætur."

Fólk er flóknara en það sýnist

Leikstjóri myndarinnar er Óskar Jónasson og með helstu hlutverk fara Ólafur Darri Ólafsson í hlutverki götusóparans, Nanna Kristín Magnúsdóttir sem hin ógæfusama unga stúlka og Þorsteinn Bachmann leikur óprúttinn kærasta hennar. Síðast en ekki síst bregður fyrir útvarpsfréttamanninum kunna Gissuri Sigurðssyni í hlutverki Hauks Morthens, átrúnaðargoðs götusóparans.

Handrit Kristófers Dignusar hafði verið valið af Sjónvarpinu til þátttöku í handritasamkeppni evrópskra sjónvarpsstöðva en síðan gerðist lítið í framhaldi af því. Að lokum gekk hann sjálfur á eftir því við stjórnendur í Sjónvarpinu að slagur væri látinn standa og gerð úr handritinu veigamikil sjónvarpsmynd, sem að lokum varð raunin.

Kristófer Dignus segist hafa fengið hugmyndina að sögunni einn sumarmorgun á leið heim úr gleðskap næturinnar: "Sá ég þá götusópara að störfum, stóran og mikinn mann inni í litlum appelsínugulum götusóp. Það fékk mig til þess að velta vöngum yfir því hvað myndi gerast ef hann fyndi forkunnarfagra stúlku í ruslinu, kæmi henni til bjargar og hefði upp úr mikil vandræði, færi sem sagt "úr öskunni í eldinni"."

Aðspurður út í boðskap sögunnur segir hann að hún eigi að geta kennt okkur að fólk sé flóknara en það sýnist í fyrstu. Að allir geti átt sér líf hlaðið hasar og spennu.

Við götusóparinn erum aðdáendur Hauks

"Tilvist Hauks Morthens er tilkomin vegna áralangrar aðdáunar minnar á honum. Mér var meira að segja strítt í grunnskóla á því, þegar maður átti að vera að hlusta á ABBA eins og allir hinir," segir Kristófer Dignus er hann er inntur eftir því hvernig söngstjarnan liðna kemur inn í myndina. "Haukur er verndarengill götusóparans, stoð hans og stytta á raunastundum."

Það má í raun segja sem svo að andi Hauks svífi yfir vötnum í þessari mynd. "Ég heimfæri aðdáun mína á Hauki yfir á götusóparann. Hann á landsins stærsta minjasafn um goð sitt og tónlistin kemur mikið við sögu. Ég held að í heildina séu um tíu lög með Hauki í myndinni."

Ekkjan hafði gaman af sögunni

Aðspurður segir Kristófer Dignus að útlitið fyrir að finna einhvern sem brugðið gæti sér í gervi Hauks hafi ekki verið mjög bjart í fyrstu. "Ég hafði bara einhvern veginn alltaf á tilfinningunni að það leyndist einhver þarna úti sem líktist honum. Mig óraði hinsvegar aldrei fyrir því að hann yrði svo nauðalíkur honum eins og Gissur reyndist eftir að hann var kominn í gervið."

Vegna þessara tilvísana í Hauk afréð Kristófer Dignus að réttast væri að bera handritið undir ekkju hans. "Hún las það og þótti bara hin mesta skemmtun. Svo hún lagði formlega blessun sína yfir þennan virðingarvott við minningu mannsins síns sem okkur aðstandendum myndarinnar þótti afar vænt um."

"Ég verð að viðurkenna að ég er nokkuð spenntur að sjá verkið í Sjónvarpinu," segir Kristófer Dignus að lokum. "Það er orðið svo langt um liðið síðan ég skildi við það að mér mun eflaust bara líða eins og einum af áhorfendunum."