NÝ vísitala stöðu umhverfismála og sjálfbærrar þróunar var kynnt á World Economic Forum-fundinum í Davos í Sviss í þessari viku. Þar lendir Ísland í öðru sæti á lista yfir þau lönd sem standa best í umhverfismálum og auðlindanýtingu.

NÝ vísitala stöðu umhverfismála og sjálfbærrar þróunar var kynnt á World Economic Forum-fundinum í Davos í Sviss í þessari viku. Þar lendir Ísland í öðru sæti á lista yfir þau lönd sem standa best í umhverfismálum og auðlindanýtingu.

Vísitalan er nefnd "Environmental Sustainability Index" og byggist á 64 mælikvörðum sem taka til umhverfisástands, álags á umhverfið, áhrifa umhverfisþátta á þjóðfélagið, stjórnkerfis umhverfismála og þátttöku á alþjóðavettvangi. Vísitalan er unnin í samvinnu þriggja aðila, Yale- og Columbia-háskóla í Bandaríkjunum og samtakanna Global Leaders for Tomorrow. Nokkuð hefur verið fjallað um vísitöluna í erlendum fjölmiðlum m.a. í vikublaðinu The Economist.

Vísitalan er á þróunarstigi og gagnasöfnun stendur enn yfir. Það vekur athygli að mikil samsvörun er milli umhverfisvísitölunnar og vísitölu sem þróuð hefur verið til að mæla samkeppnishæfni þjóða. Þær þjóðir sem teljast hæfastar í samkeppni koma einnig best út í umhverfismálum. Þetta undirstrikar það, að skynsamleg umhverfisstefna, stöðugleiki og jákvæð efnahagsþróun fara vel saman. Samkvæmt vísitölunni lendir Noregur í fyrsta sæti og Sviss í því þriðja. Þar á eftir koma Finnland, Svíþjóð, Nýja Sjáland og Kanada. Danmörk lendir í 11. sæti, Holland í 13. sæti, Þýskaland í 15. sæti og Bandaríkin í því 16. Þróunarríkin koma almennt verr út úr þessum samanburði.