FREMUR fámennt var í miðborg Reykjavíkur aðfaranótt laugardags, að sögn lögreglunnar í Reykjavík, eða um sjö hundruð manns þegar mest var.

FREMUR fámennt var í miðborg Reykjavíkur aðfaranótt laugardags, að sögn lögreglunnar í Reykjavík, eða um sjö hundruð manns þegar mest var. Annríki var þó í meðallagi og var einn ökumaður sviptur ökuréttindum til bráðabirgða vegna hraðaksturs en hann hafði mælst á 140 kílómetra hraða á Gullinbrú þar sem leyfilegur hámarkshraði er 50 km/klst.

Einn maður var fluttur á slysadeild eftir að hann varð fyrir líkamsárás á veitingastað við Hverfisgötu, og lék grunur á að hann væri kinnbeinsbrotinn. Ennfremur fundust fíkniefni á tveimur mönnum á veitingastað við Laugaveg og á sömu slóðum þurfti lögreglan að hafa afskipti af ölvuðum manni vegna háværra mótmæla hans yfir því að vatnsflaska hans hafði verið tekin af honum.

Um tvöleytið kviknaði í mannlausum bíl við Álafossverksmiðjuna í Mosfellsbæ en slökkviliðið kom á vettvang og slökkti eldinn. Stuttu áður hafði orðið árekstur á Brynjólfsgötu á mótum Suðurgötu. Voru báðir bílarnir fluttir af vettvangi með kranabíl og ætlaði farþegi annarrar bifreiðarinnar að leita sér aðstoðar á slysadeild. Þá var maður fluttur á slysadeild eftir að hann datt í tröppum fyrir utan veitingastað við Laugaveg.