[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
ATHYGLISVERÐAR niðurstöður rannsóknar um stöðu grunnvísinda á Íslandi voru kynntar á ráðstefnu Rannsóknarráðs Íslands (Rannís) skömmu fyrir áramót.

ATHYGLISVERÐAR niðurstöður rannsóknar um stöðu grunnvísinda á Íslandi voru kynntar á ráðstefnu Rannsóknarráðs Íslands (Rannís) skömmu fyrir áramót. Þórólfur Þórlindsson og Inga Dóra Sigfúsdóttir kynntu þá skýrslu sína um stöðu íslenskra grunnvísinda þar sem m.a. kom fram að ef litið er á birtingar íslenskra vísindamanna í ritrýndum erlendum tímaritum og hversu oft er vísað til íslenskra vísindamanna í öðrum greinum kemur í ljós að íslenskir vísindamenn standa nágrannaþjóðunum ekki að baki miðað við höfðatölu. Á sama tíma er íslenskt fjármagn til rannsókna mun minna en hjá nágrannaþjóðunum. Morgunblaðið greindi frá fundinum á sínum tíma og kom þar m.a. fram að þessi niðurstaða hefði virst koma ýmsum fundarmönnum á óvart og reynt hefði verið að leita skýringa á því hvers vegna íslenskir vísindamenn stæðu svo framarlega sem raun ber vitni.

Meira fjármagn í Vísindasjóð

Á fundinum kom m.a. fram að sá mælikvarði sem notaður hefði verið til að meta árangur vísindamanna væri að rannsaka fjölda og gæði birtra greina í ritrýndum tímaritum og eins tilvitnanir í vísindamenn. Við slíkt árangursmat hefði verið stuðst við gögn úr NSI (National Science Indicators Database) gagnagrunninum en þar kom fram að ef litið væri til birtingar greina eftir íslenska vísindamenn í ritrýndum tímaritum kæmi fram að íslenskir vísindamenn væru í tólfta sæti væri miðað við höfðatölu, næst á eftir Bandaríkjunum og Noregi. Þegar litið er til tilvitnana í íslenska vísindamenn er árangurinn enn betri.

Í skýrslunni eru einnig skoðuð afköst íslenskra vísindamanna í einstökum fræðigreinum og kemur þá í ljós að vísindagreinarnar standa með mismunandi hætti. Fjöldi birtra greina í erlendum fagtímaritum er mest í klínískri læknisfræði og jarðvísindum en engar í lögfræði svo dæmi sé tekið. Ástæða þess er meðal annars að fagleg umræða í lögfræði eins og mörgum hugvísindum fer frekar fram í íslenskum tímaritum en erlendum.

Þegar niðurstöður skýrsluhöfunda voru kynntar sagði Þórólfur Þórlindsson m.a. að forgangsatriði væri að veita meira fjármagn í Vísindasjóð, mótuð yrði stefna í grunnvísindum þar sem Háskólinn legði meiri áherslu á að vera rannsóknarháskóli og mikilvægi menntunar ungra vísindamanna og að þeim væri gefinn kostur á að hefja rannsóknir hér að námi loknu. Þá lagði Þórólfur áherslu á mikilvægi þess að stjórnmálamenn kæmu að stefnumörkun í þessum efnum án þess þó að skerða akademískt frelsi.

Skortir vísindalega þekkingu á gagnsemi úrræða

Viðmælendur Morgunblaðsins virðast flestir þeirrar skoðunar að rannsóknir í læknisfræði standi betur hér á landi en vænta mætti í ljósi skorts á aðstöðu og fjármagni.

"Sagan hefur kennt okkur að margt af því sem talin var góð og gild læknisfræði hér áður fyrr reyndist það alls ekki þegar betur var að gáð," segir Jóhann Ágúst Sigurðsson, prófessor og forseti læknadeildar Háskólans. Hann segir að í sumum tilvikum hafi meðferð sjúklinga alls ekki verið studd neinum vísindalegum rökum, svo sem blóðtaka við nær öllum sjúkdómum hér fyrr á öldum. Í öðrum tilvikum höfðu mönnum yfirsést hugsanlegar aukaverkanir lyfjameðferðar svo sem lyfsins thaledomid, sem notað var sem svefnlyf, en olli vanskapnaði á fóstrum ef þungaðar konur tóku lyfið snemma í meðgöngunni.

Jóhann segir að rannsóknir lækna hér á landi verði t.d. að reyna að finna orsakir þess að um 30% barna á aldrinum 1-4 ára eru með rör í eyrum. Það er miklu stærra hlutfall en erlendis. Þá er stórt hlutfall fullorðinna á þunglyndislyfjum. Orsaka við slíku verður að leita."

"Á síðustu áratugum hafa menn gert sér æ betur ljóst að það skortir vísindalega þekkingu á gagnsemi ýmissa úrræða sem beitt er í læknisfræði nútímans. Það hefur einnig komið í ljós að oft er beitt læknisaðferðum sem búið er að sanna með vísindalegum rannsóknum að geri ekkert gagn. Til eru fjölmörg dæmi af þessu tagi sem styðja nauðsyn þess að stunda rannsóknir í læknisfræði," segir Jóhann.

Framlag íslenskra lækna til fræðastarfa

Íslenskir læknar stíga sín fyrstu spor á vísindasviðinu á 4 ári í læknadeild. Flestir fara síðan erlendis til frekara sérnáms. Jóhann segir að þar haldi margir áfram fræðastörfum á virtum háskólastofnunum. Þeir afli sér mikilvægrar reynslu og tengsla við erlenda vísindamenn og margir þeirra haldi áfram fræðastörfum eftir að þeir koma aftur heim.

"Ég tel afköst íslenskra fræðamanna í læknisfærði í raun undraverð í alþjóðlegu samhengi og miðað við höfðatölu en þá tel ég með allt framlag þeirra til vísinda bæði innan lands og utan," segir hann.

Forseti læknadeildar segir að margir hafi velt því fyrir sér hvort það sé eitthvert vit í því að stunda grunnrannsóknir hér á landi, þar eð í mörgum tilvikum sé mun ódýrara að gera slíkar rannsóknir erlendis á stórum rannsóknarstofum, útbúnum nýjustu og bestu rannsóknartækjum sem völ er á. "Þessu er auðvelt að svara. Fyrir utan sjálfar niðurstöður rannsóknanna skapa umsvifin í kringum rannsóknarstarfsemina þekkingu og reynslu sem ekki er hægt að fá með öðrum hætti og nýtist einkum í því landi sem rannsóknirnar eru stundaðar. Nýjasta og gleggsta dæmið hér á landi er stofnun og starfræksla fyrirtækisins Íslensk erfðagreining (ÍE). Menn mega heldur ekki gleyma því að Ísland og Íslendingar eru ein allsherjar rannsóknarstofa út af fyrir sig, með aðstöðu sem á sér enga líka erlendis. Þetta á einkum við um faraldsfræðilegar rannsóknir, vel afmarkaða íbúakjarna, og gott þjóðfélagskerfi sem oft leyfir úrvinnslu á tölvutækum gögnum sem þegar eru fyrir hendi."

Jóhann bendir á að akademískum störfum sé að jafnaði skipt í fjóra aðal þætti, þ.e. rannsóknir, kennslu, stjórnun og þróun fræðasviðsins. "Þessi samsetning er ekki nein tilviljun, heldur byggist hún á reynslu. Það er því vart hægt að tala um fræðastörf innan læknadeildar án þess að minnast á mikilvægi hinna þáttanna. Það er mjög mikilvægt að fræðimenn hafi eða fái tækifæri til þess að koma niðurstöðum sínum á framfæri. Það geta þeir gert með kennslu eða fræðimennsku ýmiskonar og einnig með því að hafa ítök í stjórnum stofnana, bæði innan og utan háskólans. Þannig fara þessir þættir best saman eins og bland í poka," segir hann og leggur áherslu á nauðsyn þess að við höldum áfram á sömu braut og reynum að efla aðstöðu og afköst fræðimennsku í læknisfræði hér á landi með því að hlúa að þeim fræðimönnum sem fyrir eru og laða til okkar vísindamenn erlendis frá.

Mjög fá rannsóknarteymi

Þórður Harðarson, prófessor og sérfræðingur í lyflæknisfræði, segir rannsóknir í læknisfræði standa með allmiklum blóma í dag. "Á þingi Rannís var talið, að mest rannsóknarvirkni hér á landi væri á sviðum jarðvísinda og klíniskrar læknisfræði. Á þeirri hlið rannsókna, sem snýr að sjúklingum eða heilbrigðum einstaklingum eftir atvikum klíniskum rannsóknum, er góður skriður. Glögg dæmi um það eru rannsóknir tengdar Hjartavernd og Krabbameinsfélaginu. Báðar þessar stofnanir hafa komið sér upp gagnagrunnum, sem henta vel til faraldsfræðirannsókna og erfðarannsókna, og báðar hafa nýlega laðað til sín alþjóðlega rannsóknarstyrki frá virtum aðilum í stærri stíl en áður hefur þekkst."

Þórður bendir á að á sjúkrahúsunum í Reykjavík fari einnig fram klínískar rannsóknir í ríkum mæli. "Þær njóta óbeins stuðnings með vinnuframlagi ýmissa starfshópa og stuðningi stoðdeilda sjúkrahúsanna. Af þessu hlýst kostnaðarauki hjá sjúkrahúsunum, en slíkt hlýtur að teljast eðlilegt, og tíðkast alls staðar á háskólasjúkrahúsum nágrannalandanna. Þar er víða talið að kennslu- og vísindahlutverk háskólasjúkrahúss auki útgjöld þess um 15-25%. Flestir læknar sjúkrahúsanna leggja hluta af launum sínum í vísindasjóð gegn mótframlagi spítalanna, en slíka sjóði þyrfti að efla. Þá leggja fyrirtæki töluvert af mörkum.

Á sviði grunnrannsókna er annað upp á teningnum. Mjög fá rannsóknarteymi hérlendis hafa náð þeirri stærð og styrk að niðurstöður þeirra nái alþjóðamáli. Meðal undantekninga má nefna rannsóknarstarfsemi á Keldum, nokkrar rannsóknarstofur Landspítalans og örfáar aðrar stofnanir."

Að sögn Þórðar hafa styrkveitingar hins opinbera hins vegar dregist saman með hverju ári. "Aðgangur að erlendu styrkjafé er takmarkaður, þótt nokkuð hafi áunnist í Evrópusamstarfinu. Brýna nauðsyn ber til að efla grunnrannsóknir í læknisfræði og líffræði með stuðningsaðgerðum og styrkjum frá opinberum og einkaaðilum. Finnar hafa farið þá leið í úthlutun rannsóknarstyrkja að deila út fáum en stórum styrkjum til aðila, sem sýnt hafa mikla rannsóknarvirkni. Þetta hefur gefist vel og styrkt stöðu Finna á þessu sviði umfram önnur Norðurlönd.

Þriðji þáttur læknisfræðirannsóknanna tengist starfi einkafyrirtækja s.s. Íslenskrar erfðagreiningar, Flögu, Össurar o.fl. Glæsilegur árangur þessara fyrirtækja byggist á framleiðslu eða fyrirheitum um markaðsvöru og grundvallast á innlendu og erlendu áhættufé. Full ástæða er að búast við enn frekari landvinningum á þessu sviði.

Í framtíðinni blasir við aukið alþjóðlegt samstarf, einkum við Evrópulönd þar sem Íslendingar munu nýta sér sérstöðu sína í faraldsfræði og erfðavísindum auk þess sem þjóðin mun færa sér í nyt hátt menntastig, mikil kynni af alþjóðlegum aðstæðum, einsleitni þjóðarinnar og jákvæði gagnvart þátttöku í vísindarannsóknum."

Bein framlög ríkisins vonlaus

Jónas Hallgrímsson, prófessor og forstöðumaður Rannsóknarstofu Háskólans, segir að fyrst og fremst eigi rannsóknir í læknisfræði hér á landi að vera hliðstæðar því sem gerist í öðrum löndum. Vísindamenn leiti eftir styrkjum til rannsókna og sæki þá í samræmi við verðugleika viðkomandi verkefnis.

"Að ákveðnu leyti gengur þetta svona fyrir sig hér á landi og að einhverju leyti erum við enn að þróa aðferðir okkar. Vísindamenn sækja hér í Vísindasjóð og aðrir semja sjálfir við fyrirtæki um ákveðna þætti rannsókna, t.d. erfðatæknifyrirtækin. Þá er hægt að semja við önnur fyrirtæki, opinber eða einkarekin, um að stunda og þróa hagnýtar rannsóknir. Ég tel fullvíst að hægt sé að finna fyrirtæki sem sjá framtíð í því að styðja grunnrannsóknir," segir Jónas.

Bein framlög til rannsókna úr ríkissjóði segir hann hins vegar vonlaus. "Þar ræður alltaf sjónarmið neyslunnar. Við Íslendingar erum frábrugðnir mörgum öðrum þjóðum að þessu leyti. Í Þýskalandi, svo dæmi sé tekið, starfa margar frægar akademískar stofnanir og hafa gert við góðan orðstír í hundruð ára. Að fjármagna rekstur þeirra og rannsóknir þykir sjálfsagt og engum dettur í hug að skera þar niður. Það væri eins og að fækka skyndilega kirkjum eða sjúkrahúsum. Vilji til þess er einfaldlega enginn og slíkar vísindastofnanir þykja sjálfsagður hluti af lífi og sögu þjóðarinnar. Vissulega hefur þær sett niður á milli en svo hafa þær jafnan náð sér aftur á strik."

Rekstrartölur ekki nægilega gegnsæjar

Jónas bendir á að hér á landi fari meirihluti allra rannsókna í læknisfræði fram innan veggja sjúkrahúsanna. "Þar gildir að sumir standa sig vel og aðrir alls ekki. Við vitum ekki af hverju sá munur stafar, einfaldlega vegna þess að rekstrartölur sjúkrahúsanna eru ekki nægilega gegnsæjar. Það þyrfti að brjóta niður slíkar heildartölur og sjá hvað fer annars vegar til kennslu og rannsókna og hins vegar til lækninga og hjúkrunar. Þá sést hið raunverulega hlutfall og hægt er að greina orsakir þess að sumum gengur ekki sem skyldi; hvort viðkomandi þurfi hjálp, fjármagn, betra starfsfólk eða hvort hann sé hreinlega ekki starfi sínu vaxinn.

Þegar sundurgreindar tölur liggja fyrir er auðveldara að greina hinn raunverulega vanda og þá ætti metnaður menntamálaráðuneytisins að standa til þess að hlúa sem mest að háskólaþættinum og heilbrigðisráðuneytisins að gera lækningaþáttinn sem mestan."

Að mati Jónasar skortir talsvert á að hér á landi séu uppfylltir þeir þættir sem geri sjúkrahús að háskólasjúkrahúsi. "Í slíku sjúkrahúsi eiga tengslin við Háskólann ekki að vera einhver afgangsstærð. Fyrir sjúkrahúsið eiga tengslin við Háskólann að vera til framdráttar, ekki síst í þeirri akademísku tengingu sem óhjákvæmilega fylgir með í kaupunum. Við getum nefnt Landspítalann sem dæmi. Ég tel að breyta ætti honum í alvöru háskólasjúkrahús, t.d. með því að ganga beint til samninga við Háskólann um að í spítalanum fari fram kennsla og rannsóknir. Þetta hefur áður verið gert hér á landi, í tilfellum Landakots og Borgarspítalans, eins og rekstri þeirra var áður háttað. Ég er ekki viss um að þessir samningar hafi verið meira en nafnið eitt; en þeir gerðu það þó að verkum að þetta urðu háskólasjúkrahús. Þessa samningaleið fór Landspítalinn aldrei. Ef gera á hann að alvöru háskólasjúkrahúsi verður að leggja sérstaklega fjármagn í rannsóknir og kennslu og greina það frá hinni almennu lækningaþjónustu sjúkrahússins."

Jónas segir að í gegnum tíðina hafi háskólaþátturinn ekki mætt nægilegum skilningi í stjórn Landspítalans. "Ég segi ekki að menn hafi staðið í vegi fyrir þessu; slíkt væri ekki sanngjarnt. Skilningurinn hefur hins ekki verið nægur og þar af leiðandi ekki verið grundvöllur til útvíkkunar rannsóknarstarfseminnar. Naumt og áætlað rekstrarfé hefur verið látið duga."

Hann bætir því þó við að hann bindi miklar vonir við nýráðinn forstjóra Ríkisspítalanna, Magnús Pétursson. Þar fari maður sem hafi mikinn áhuga á rannsóknum. Það sé afar gleðilegt.

Breytinga að vænta

Tvennt nefnir Jónas að lokum sem ljóst er að muni fyrr eða síðar breyta núverandi fyrirkomulagi rannsókna innan sjúkrahúsanna. Annars vegar sé hinn mikli og eftirtektarverði kraftur í erfðatæknifyrirtækjum á borð við ÍE og Urði, Verðandi, Skuld (UVS). Hann hafi opnað augu stjórnmálamanna við Austurvöll fyrir þeim sóknarfærum sem felist í vísindum í framtíðinni og þá ekki síst þeim gríðarlegu hagsmunum sem séu í húfi. Hins vegar sé ljóst að ganga þurfi til samninga um nokkrar prófessorsstöður á næsta ári í kjölfar nýrra Háskólalaga og þá þurfi að semja á nýtt um vinnuaðstöðu háskólafólks innan sjúkrahúsanna.

"Þá kemur eflaust margt athyglisvert upp á yfirborðið. Margir hafa orðið til þess að skammast yfir mikilli eyðslu og þenslu í kostnaði við heilbrigðiskerfið. Minna hefur farið fyrir raunverulegu mati á verðmætum sem skapast í þjónustu, kennslu og rannsóknum. Ef það gerist yrði sú breyting einkar ánægjuleg," segir Jónas.

Sérfræðimenntun mest erlendis

Jónas Magnússon, prófessor og yfirlæknir skurðdeildar Landspítalans, segir að vegna mikilla breytinga á sjúkrahúskerfinu, m.a. í tengslum við Háskólann, sé ekki gott að segja til um besta fyrirkomulagið á rannsóknum í læknisfræði hér á landi. "Það sem einkennir kerfið er að sérfræðimenntun fer að mestu fram erlendis og þannig eru ungir læknar ekki á landinu þegar þeir eru hvað afkastamestir í rannsóknum," segir hann og bendir á að þótt hægt sé að auka doktorsnám við deildina sé ekki til fjárveiting fyrir rannsóknum tengdum því.

"Að mínu mati hefur gengið sér til húðar það kerfi að hafa hlutastöður kennara í læknadeild. Umræða fer nú fram um háskólaspítala og sérfræðingar hans yrðu eflaust kennarar við læknadeild og munu fá þá akademísku umbun sem þeir væru bærir til. Nota mætti það fé sem farið hefur til að greiða hlutastörfin í rannsóknarsjóði. Sérfræðingar geta þá fengið rannsóknarleyfi og haft tíma til að sinna rannsóknum án þess að vera með áhyggjur af klínísku starfi á meðan. Sambland klínískrar vinnu og vísindavinnu er afar mikilvægt við læknakennslu," segir hann.

Um styrki segir Jónas að sennilega sé farsælast að hafa þá fáa en veglega. Þannig sé unnt að skapa sterk rannsóknarteymi. Um leið sé ljóst að opna verði leiðir og mynda hefð og jákvæðan jarðveg fyrir einkafyrirtæki til að fjárfesta í grunnrannsóknum.

Vísindin tekin föstum tökum

Einar Stefánsson, prófessor og yfirlæknir augndeildar Landspítalans, segir að horfa verði annars vegar á framkvæmdina sem slíka og hins vegar fjármögnunina, þegar rætt sé um rannsóknir í læknavísindum. "Þótt þetta tengist oft er líka vel hægt að líta á þetta svo aðskilda þætti," segir hann.

Einar segir um framkvæmdina, að ljóst sé að grundvöllur allra rannsókna eigi að liggja í Háskólanum, stofnunum hans og þeim akademíska jarðvegi sem þar sé í kring. Upp úr slíkum jarðvegi eigi síðan að spretta öflug rannsóknarfyrirtæki sem tekið geti að sér einstök verkefni sem séu talin vænleg, þróað þau áfram, skapað markaðsáætlun kringum þau og að lokum búið til úr þeim verðmæti. "Þetta hafa Bandaríkjamenn gert í ríkum mæli og er ein ástæða þess hve gífurlegt forskot þeirra er í tölvu- og líftækni á heimsvísu," segir Einar.

Í þessu sambandi bendir Einar á að tvennt sé háskóli og háskóli. Á erlendum tungum séu til greiningarnar university og college, en háskóli sé orðið samheiti yfir margvíslegar menntastofnanir hér á landi. "Samt er aðeins einn alvöru háskóli hér á landi, alvöru rannsóknarháskóli," segir Einar og vísar til þess að erlendis geti aðeins þeir skólar kallað sig university sem standi fyrir öflugri rannsóknarstarfsemi samhliða hefðbundinni kennslu.

Þáttur rannsóknarfyrirtækjanna er geysimikilvægur, að mati Einars. Slík fyrirtæki hafi einmitt sprottið upp úr háskólaumhverfi og séu nú meðal stærstu og framsæknustu fyrirtækja hér á landi. Líklegt sé að slíkum fyrirtækjum muni enn fjölga á næstu árum, íslenskum vísindum til heilla.

"Það þarf að rækta grunninn betur. Í háskólaumhverfinu er ekki aðeins framleidd grunnþekkingin; fræin og sprotarnir sem rannsóknarfyrirtækin gera svo að blómum sem bera ávöxt, ekki síður er þar skapað hæft starfsfólk - vísindamennirnir sem er helsta auðlindin og grundvöllur alls."

Einar telur augljóst að helsti galli Háskólans sé að hann sé ekki nægilega öflug rannsóknar- og vísindastofnun. "Háskólinn hefur lengi búið við fjársvelti og samanburður við háskóla erlendis hefur verið miður hagstæður. Þróunin hefur verið til batnaðar, en enn er talsvert í land að viðunandi staða náist," segir Einar.

Fyrirtæki og félög vaxtarbroddar

Reynir T. Geirsson, prófessor og yfirlæknir kvennadeildar Landspítalans, segir að rannsóknir í læknisfræði fari að miklu leyti fram á stóru sjúkrahúsunum í Reykjavík og í minna mæli á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri. Um sé að ræða faraldsfræðilegar rannsóknir, rannsóknir á sviði gæðamála, lækningaaðferða og grunnrannsóknir, gerðar í samvinnu við innlenda aðila, svo sem læknadeild eða aðrar deildir háskólans eða með öðrum sterkum innlendum aðilum, eins og ÍE, Krabbameinsfélaginu eða Hjartavernd. Nokkuð sé einnig um rannsóknir í samvinnu við erlenda aðila, bæði einstök verkefni og fjölþjóðaverkefni.

"Innanlands eru þetta íslenskar sjálfseignarstofnanir , reknar að hluta af ríkinu, þar sem góð vinna er unnin í grunnrannsóknum og faraldsfræðirannsóknum. Svo koma nú til öflug fyrirtæki eins og Íslensk erfðagreining sem gjörbreytt hefur íslensku lífvísindasamfélagi og sem margir aðilar innan spítalanna eiga nú þegar mjög góða og frjóa samvinnu við," segir Reynir og nefnir einnig fyrirtæki eins og UVS og Flögu. Hann segir að þetta séu vaxtarbroddarnir í læknisfræðirannsóknum hér á landi.

"Í heilsugæslunni fara einnig fram talsverðar rannsóknir, margar mjög góðar. Á spítölunum er unnið við allt frá tiltölulega einföldum en mikilvægum verkefnum með læknanemum og öðrum heilbrigðisfræðanemum og upp í hágæða rannsóknir þar sem beitt er nýrri erfðatækni eða hendingarvalsformi, svo eitthvað sé nefnt.

Rannsóknir verða að halda áfram á öllum þessum sviðum. Innan spítalans þarf að stuðla að því að fá læknislærða starfsmenn til að stunda meiri vísindavinnu, m.a. með því að greiða þeim hærri laun sem eru virkir á þeim sviðum og veita þeim betri aðstöðu. Standi þeir sig ekki í rannsóknunum eða hætti þeim, minnki launin og aðstaðan aftur," segir Reynir.

Samvinna við aðila um spítala

Hann telur að rannsóknir verði í auknum mæli gerðar í samvinnu við aðila utan spítalans sem hafa fjármagn og aðstöðu að bjóða hér á landi og í samvinnu við erlend og jafnvel íslensk fyrirtæki, s.s. í lyfjaiðnaði og líftækniðnaði. Sumar rannsóknir hafi byggst á íslenskum styrkjum, þ.e. frá Vísindasjóði, Rannsóknasjóði HÍ og fleiri sjóðum, þ.m.t. mikilvægum vísindasjóðum spítalanna. Einstökum deildum þurfi að gera kleift að hafa eigin rannsóknarsjóði að auki, þangað sem afrakstur ýmissa sérverkefna fer.

Reynir telur að samningaferli við aðila utan spítalans hafi nú verið markað betur með góðum rammasamningum, sem síðan hafi verið útfærðir fyrir einstök verkefni. "Rannsóknarsjóðina stóru þarf að efla, en aðhald um styrkina er orðið gott. Ég tel að stjórnvöld þurfi að vinna að því að viðhalda vissu frelsi til að vinna að rannsóknum á Íslandi án íþyngjandi reglna eða gjaldtöku. Einnig er ljóst að efla verður líftækniiðnað og læknisfræðirannsóknir utan spítalanna. Sama gildir um verkefni sem eru kostuð úr innlendum rannsóknasjóðum," segir hann og bætir við að einstaklingar með góð verkefni og hugmyndir þurfa að geta komið þeim áfram, sótt sjálfir fé og fengið umbun í góðri aðstöðu og jákvæðu andrúmslofti spítala, heilsugæslustöðva og sjálfseignarstofnana á heilbrigðissviði.

"Mjög mikilvægt skref í þessa átt væri formleg stofnun háskólasjúkrahúss þar sem sameinuð yrði starfsemi háskóla og spítala og lagður saman skerfur beggja til rannsókna. Þannig mætti efla þær og skapa á hverju fræðasviði góða aðstöðu til grunnrannsókna og klínískra rannsókna," segir Reynir.

Sameiginleg vísindastofnun

Að hans mati gæti þetta gerst með eins konar sameiginlegri vísindastofnun á hinu nýja sameinaða sjúkrahúsi þar sem spítalinn, læknadeildin og hjúkrunarnámsbrautin rækju saman rannsóknaraðstöðu og fjármögnun rannsókna. Heilbrigðisráðuneytið viðurkenndi mikilvægi þess að efla rannsóknir og kennslu til að tryggja framsækið og leitandi viðhorf innan spítalanna og tryggði sér um leið mestu gæði í þjónustu. Sá skerfur sem spítalinn legði til, húsnæði, kostnaður við rannsóknarþjónustu, ritarastörf og fleira yrði færður til stofnunarinnar og háskóladeildirnar leggðu mikið til einstakra fræðigreina í sömu stofnun. Menntamálaráðuneytið kemur á þann hátt á móts við framlag Heilbrigðisráðuneytisins. Þessari vísindastofnun yrði stjórnað af Háskóla og spítala í sameiningu, enda myndi spítalinn ávallt tryggja fé til stofnunarinnar á móti Háskólanum.

"Þetta myndi einnig þýða að Háskólinn tæki beinan þátt í stjórnun spítalans, allt inn í æðstu stjórn. Forstöðumannakerfi einstakra fræðasviða á spítalanum þarf að tengja akademískum stöðum í Háskólanum og tryggja að forstöðumennirnir, bæði karlar og konur, hafi mikil áhrif á það hvernig spítalinn er rekinn í því skyni að sjá til þess að starf spítalans snúist líka um rannsóknir og kennslu, þjónustuhlutverkinu til hagsbóta."

Forstöðumaður slíkrar stofnunar, ætti að mati Reynis, að vera sá sem hefur besta háskólaferilinn og hans hlutverk fælist í stefnumörkun við eflingu þjónustu, klínískra- og grunnrannsókna og kennslu, en í stjórn hins klíníska sviðs yrðu líka færir aðilar sem bæru sína ábyrgð á rannsóknum og kennslu. "Í slíkum háskólaspítala hefðu allir háskólamenntaðir menn kennslu- og rannsóknarskyldu sem forsendu ráðningar, en sumir í ábyrgðarmeiri stöðum, þ.e. prófessorar, dósentar, lektorar og aðjúnktar, fengju tækifæri til að sinna kennslu og rannsóknum sem stærri hluta af sinni vinnu. Launin yrðu ein, en menn þæðu þau að hluta til frá Háskóla. Að viðbættu starfi á spítalanum yrðu þeir betur settir en þeir sem ekki hafa slíka ábyrgð," segir Reynir ennfremur, en hann vill aukinheldur að hugað verði að breytingum á ráðningarformi manna svo að tryggt sé að störf dreifist á fleiri hendur um leið og mönnum séu tryggð góð laun. "Menn mega ekki sinna háskólahlutverkinu sem aukabitlingi, eins og oft hefur verið til þessa. Hætt er við að það verði ef menn eru ráðnir í 137-150% störf eða svo. Eitthvað verður þá undan að láta og það hefur háð rannsóknum hér talsvert að mínu mati," segir Reynir.

Víðtæk og alþjóðleg menntun styrkleiki

Guðmundur Þorgeirsson, prófessor og yfirlæknir á Landspítalanum, hefur talsvert velt fyrir sér stöðu rannsókna í læknisfræði hér á landi. Hann stýrði vinnuhópi um heilbrigðisvísindi á þingi Rannís nýverið og segir umræðu þar hafa verið fjörlega og líflega. Reyndi hópurinn að meta styrk, veikleika, tækifæri og ógnanir þær sem steðja að þessu sviði hérlendis.

"Helsti styrkleiki okkar hér á landi er hin víðtæka og alþjóðlega menntun starfsfólks í heilbrigðiskerfinu, sérstaklega vísindamanna," segir hann. "Læknar og aðrir þeir sem tengjast heilbrigðisvísindum hafa oft náin tengsl við erlendar stofnanir, ekki síst þær sem þeir sjálfir námu við á sínum yngri árum. Slík tengsl endast oft lengi og þetta er greinilegur styrkur. Frændur vorir Danir hafa t.d. lengi öfundað okkur af því hversu sigldir læknar eru hér á landi.

Í öðru lagi má nefna sérstöðu okkar á ýmsum sviðum sem gefur í sjálfu sér mjög verðug rannsóknarefni. Ekki þarf að fjölyrða um erfðafræðina, en fleira mætti nefna, t.d. rannsóknir í faraldsfræði. Á því sviði eru ýmis tækifæri vegna þess að með tiltölulega auðveldum hætti er unnt að ná til þorra þjóðarinnar og án þess að velja úr einhverja sérstaka hópa er unnt að rannsaka útbreiðslu og gang sjúkdóma í þjóðfélaginu eins og það leggur sig, leita að orsakavöldum og meta árangur meðferðar.

Síðan mætta telja hinn almenna áhuga og vilja almennings til þátttöku í ýmiskonar rannsóknum. Þetta hefur verið talsvert nýtt, t.a.m. við prófanir á nýjum lyfjum og þar hefur verið eftir því tekið hversu tiltölulega auðvelt hefur reynst að fá Íslendinga til þátttöku. Greinilegt er að áhugi er fyrir heilbrigðisvísindum og að fólk er tilbúið að leggja sitt af mörkum."

Sem styrkleika nefnir Guðmundur einnig til sögunnar almenna tölvuvæðingu hér á landi. Hún hafi rofið einangrun íslensks vísindasamfélags. "Fyrir fimmtán árum hefðu hin litlu og vanmáttugu bókasöfn hér á landi verið talin alvarleg hindrun. Í dag held ég að áhyggjur af slíku séu óþarfi. Tölvutengsl við gagnabanka og erlend bókasöfn leysa þetta mál og í raun má fullyrða að öll landamæri séu úr sögunni."

Að síðustu nefnir Guðmundur til sögunnar lífsviðhorf Íslendinga sem lýsi sér í viðkvæðinu "Þetta reddast". Þetta lífsviðhorf hefur e.t.v. stuðlað að árangri í íslenskum rannsóknum þrátt fyrir litla fjármuni og takmarkaða aðstöðu."

Smæð samfélagsins

Helstu veikleika í íslenskum heilbrigðisvísindum taldi hópurinn vera smæð samfélagsins, smæð stofnana, rannsóknarhópa og sjóða. Mjög oft standi peninga- og aðstöðuleysi nauðsynlegum framförum fyrir þrifum.

"Hér á landi vantar dýrmæta hlekki í rannsóknarhópana. Stór hluti af unga fólkinu, doktorsefni og unglæknar í framhaldsnámi, dvelja árum saman erlendis við nám og störf. Þetta er það verð sem við greiðum fyrir hina alþjóðlegu menntun og alþjóðlegu tengsl. Því eru tvær hliðar á því máli og í raun einnig í viðhorfinu "Þetta reddast", það getur bæði verið veikleiki og styrkleiki."

Sóknarfæri fyrir heilbrigðisvísindi voru nefnd til sögunnar, ekki síst þar sem við Íslendingar værum rík þjóð og gætum aukið talsvert framlög til rannsókna án þess að herða sultarólina. Næðist almenn viðurkenning á því að fjárveitingar til rannsókna væru góð fjárfesting og líklegar til að skila samfélaginu ríkulegum arði væri unnt að styrkja að mun mikilvægustu vísindasjóðina.

"Sú gríðarlega tækni- og iðnþróun sem er að verða í kringum heilbrigðisþjónustuna er jarðvegur arðbærrar nútímalegrar atvinnusköpunar. Þetta sjáum við á nokkrum þeim fyrirtækjum sem eru í örustum vexti og mest spennandi fyrir fjárfesta í dag, t.d. Íslenska erfðagreiningu, Urði, Verðandi og Skuld, Flögu og Össur," segir Guðmundur. Vinnuhópurinn ræddi einnig hugsanlegar skipulagsbreytingar innan heilbrigðiskerfisins sem fælu í sér ný tækifæri með stærri og öflugri stofnunum, eflingu Háskólans og tengdra stofnana. Loks er ljóst að þverfaglegar rannsóknir bjóða upp á ríkuleg tækifæri í heilbrigðisvísindum því mjög frjór jarðvegur er á landamærum heilbrigðisvísinda og annarra vísinda. Þar mætti nefna sem dæmi læknisfræði og verkfræði, sem t.d. fyrirtækið Flaga væri sprottið upp úr og eins samstarf erfðafræði og lyfjafræði, sem erfðafræðifyrirtækin byggðu grunn sinn á.

Hnignun vísindaþekkingar

Andstætt þeirri trú sem almennt er talið að fólk hafi á framþróun vísindanna, segir Guðmundur að athygli veki hversu erfitt sé að fá kennara til kennslu í stærðfræði og öðrum vísindagreinum og sárafáir séu að búa sig undir kennslustörf í þessum greinum. Þetta eigi við nánast á öllum skólastigum. "Vissulega má kenna góðu atvinnuástandi hér um að einhverju leyti, en þessi vandi einskorðast alls ekki við Ísland. Hér er því líklega einnig um að kenna þeim miklu kröfum sem gerðar eru í vísindanámi og því miður gangi ekki öllum nægilega vel að standast þær. Nauðsynlegt er að styrkja þennan grunn því hann er jarðvegur allrar vísindastarfsemi."

Guðmundur bætir því við að kostnaður stofnana og fyrirtækja við að vera samkeppnisfær aukist sífellt. Kröfurnar séu að aukast og samkeppni eftir vinnuafli sé meiri nú en nokkru sinni. "Þetta kemur ungu fólki vel sem er að snúa heim frá námi í útlöndum. Hins vegar er ástæða til að bæta enn frekar aðstöðu þeirra sem vilja snúa heim og iðka vísindi sín hér," sagði Guðmundur.

Of mikil vinnubyrði

Brynjólfur Árni Mogensen, dósent og forstöðulæknir á slysa- og bráðasviði Sjúkrahúss Reykjavíkur, segir nauðsynlegt að styrkja bæði grunn- og klínískar rannsóknir. Brýnt sé einnig að sjá til þess að þeir sem áhuga og getu hafi til rannsókna fái að stunda þær. Slíku sé ekki að heilsa í dag þar sem of mikil vinnubyrði margra lækna á öðrum sviðum hamli nauðsynlegri framþróun. "Það er áberandi hvað menn vinna mikinn hluta sinna rannsókna af vilja og áhuga í frítíma sínum. Þessu þyrfti að breyta svo enn meiri alvara færðist í rannsóknir," segir Brynjólfur.

Hann segir einkar athyglisvert hve mikið af athyglisverðum rannsóknum hafi í raun komið frá læknadeild með hliðsjón af því hve fámenn deildin og raunar þjóðin sé. Þetta sýni hve framsæknin sé mikil. "Við höfum alls ekki úr sama fjármagni að spila og aðrar þjóðir en engu að síður hefur svo vel tekist til. Fjármögnun verkefna er þó enn stærsti höfuðverkur íslenskra vísindamanna, þótt það hafi sem betur fer breyst nokkuð til batnaðar hin síðari ár. Rannís hefur styrkst nokkuð og nú er einnig svo komið að góð verk geta fengið fé úr sjóðum Evrópusambandsins ef um fjölþjóða rannsóknir er að ræða. Einnig virðast einhverjir gluggar vera að opnast til Bandaríkjanna í þessum efnum," segir hann og telur framtíðina að nokkru leyti bjarta vegna þessa.

"Við sem vinnum við slys og forvarnir þeirra höfum mjög mikinn áhuga á að koma upp góðum gagnabanka um slys sem nýtta mætti til að auka þekkingu á slysum og orsökum þeirra. Slík vinna er einn angi grunnrannsókna sem afar brýnt er að verði hafðar til vegs og virðingar hér á landi. Séu niðurstöður slíkra rannsókna þróaðar áfram yfir í hagnýt gögn má fara að reikna ágóða af þeim í háum tölum. Heildarkostnaður vegna slysa hér á landi á ári er milli 20 og 30 milljarðar króna. Það er því auðvelt að sjá nytsemdina í rannsóknum til forvarna í þeim málaflokki," segir Brynjólfur.

Frumkvæðið áfram í höndum íslenskra lækna

Gunnar Sigurðsson, prófessor og yfirlæknir lyflækningadeildar Sjúkrahúss Reykjavíkur, segir að þrátt fyrir aukna erlenda samvinnu, sem sé oft æskileg og nauðsynleg, hljóti frumkvæði að læknisfræðilegum rannsóknum áfram að verða í höndum íslenskra lækna og vísindamanna.

"Læknadeild Háskóla Íslands ætti að vera kjarninn í slíku rannsóknarumhverfi ásamt sjúkrahúsunum í Reykjavík og FSA. Sjálfstæðar rannsóknarstofnanir gegna auðvitað afar mikilvægu hlutverki í þessu sambandi á afmörkuðum sviðum, t.d. Rannsóknarstöð Hjartaverndar og Rannsóknastofa Krabbameinsfélagsins. Sjálfstæð fyrirtæki koma væntanlega í vaxandi mæli inn á þetta svið eins og við höfum séð með góðum árangri, t.d. hjá ÍE, Flögu, UVS og fleirum. Þessi fyrirtæki hafa einmitt undirstrikað að hingað til hafa rannsóknareiningarnar verið of litlar og vanmáttugar," segir hann og nefnir aukinheldur að íslenskur lyfjaiðnaður gæti orðið mikilvægur þátttakandi í slíku samstarfi.

Til að efla klínískar rannsóknir telur Gunnar nauðsynlegt að tvinna saman starfsemi sjúkrahúsanna við læknadeild Háskóla Íslands mun meir en verið hefur. Með því fengi rannsóknarvinna meira vægi í daglegt starf sjúkrahúsanna og betur yrði gert ráð fyrir slíkri vinnu í skipulagningu og áætlunum þeirra en hingað til.

"Framhaldsnám íslenskra lækna hefur farið að mestu fram erlendis og mun gera það áfram vegna takmarkaðs sjúklingafjölda hérlendis. Hins vegar væri æskilegt að seinni hluti slíks framhaldsnáms sem oft er hluti af doktorsnámi flyttist hingað svo að þessi rannsóknarvinna íslenskra lækna og vísindamanna nýttist hér á landi og styddist við íslenskan efnivið. Til þess að svo verði þyrfti að stofna ákveðinn fjölda af rannsóknarstöðugildum, t.d. 10 stöður til 2-3 ára, sem ætlaðar væru til afmarkaðra rannsóknarverkefna. Þessar stöður gætu verið kostaðar að hluta af einkafyrirtækjum eða vísindasjóðum. Um þessar stöður gætu sótt einstaklingar, stofnanir eða deildir og þær yrðu veittar af læknadeild eftir gæðum rannsóknarverkefnanna. Slíkar stöður myndu án efa fylla talsvert upp í áberandi skarð í læknisfræðilegum rannsóknum á Íslandi í dag."

Gunnar bendir á að vissulega þyrfti þar fyrir utan að efla Rannís svo unnt yrði að veita rannsóknarstyrki á sviði læknisfræði til nokkurra ára í senn. Slíkt gerði kleift að vinna markvissara en hingað til að áhugaverðum íslenskum verkefnum.

Forsendur framfara

Ásgeir Haraldsson, prófessor og yfirlæknir Barnaspítala Hringsins, segir að aldrei verði mikilvægi rannsókna í læknisfræði ofmetið. Grunnrannsóknir og klínískra rannsóknir eru einfaldlega forsendur framfara í greininni, að hans mati, og varða því mannkyn allt.

"Það er ekki svo langt síðan menn deildu um lögun jarðar, uppruna tegundanna og tilvist himintunglanna. Það er líka skammt síðan menn áttuðu sig á að líf kviknar ekki af sjálfu sér, fundu bakteríur og áttuðu sig síðan á möguleikum á markvissri meðferð, t.d. með sýklalyfjum. Þetta tökum við sem eðlilegan sannleika í dag. Stöðugt vakna þó nýjar spurningar og ögrandi verkefni sem leita þarf lausna á," segir hann.

Ásgeir segir að færa megi þrenns konar rök fyrir því að rannsóknarstarfsemi á háskólasjúkrahúsi verði að vera öflug. "Fyrst verður að telja öflun þekkingar. Grunn- og klínískar rannsóknir skapa grunninn að nýrri þekkingu sem bætir meðferð sjúkdóma. Á Íslandi má nefna rannsóknarstofnanir eins og Keldur, ÍE, sjúkrahúsin og læknadeild. Okkur er nauðsyn að þekkja íslenskar aðstæður svo bregðast megi við á réttan hátt. Þannig verða menn t.d. að þekkja hvaða sjúkdómar eru algengir á Íslandi og hverjar eru orsakir þeirra. Slíkar rannsóknir verða ekki beint yfirfærðar frá erlendum stofnunum þar sem aðstæður eru aðrar. Sem dæmi má nefna að okkur er nauðsynlegt að vita hverjar eru algengustu bakteríutegundir sem valda sýkingum hjá börnum og hvaða meðferð virkar best. Fjölmörg dæmi af svipuðum toga mætti nefna. Grunnrannsóknir um tilurð sjúkdóma eða viðhald heilsu eru einnig mikilvægar. Okkur ber auk þess skylda til að stuðla að aukinni þekkingu í læknisfræði í heiminum þar sem því verður við komið,"

Í öðru lagi nefnir Ásgeir til sögunnar mat á árangri og stöðu. "Rannsóknir í læknisfræði eru örugg aðferð til að meta árangur starfsins, stöðu læknisfræði og þjónustu við sjúklinga á Íslandi. Á þann hátt má bera árangur hér á landi saman við önnur lönd og grípa til viðeigandi ráðstafana þegar nauðsyn ber til."

Þriðja og síðasta atriðið er svo kennsla og þjálfun. Ásgeir segir að ekki megi vanmeta þá þætti í læknisfræði og heilbrigðisvísindum. Rannsóknir séu mikilvægur þáttur kennslunnar enda þjálfist viðkomandi í öguðum og markvissum vinnubrögðum og verði betur í stakk búinn til að meta rannsóknarniðurstöður annarra. "Á þann hátt má segja að rannsóknir séu einnig nauðsynlegar rannsóknanna vegna."

Ásgeir segir að þótt færa megi rök fyrir því að rannsóknir í læknisfræði séu nokkuð góðar á Íslandi sé metnaður okkar þó miklu meiri og nauðsynlegt að nýta betur þau tækifæri sem hér eru fyrir hendi. "Fjárskortur hefur þó verið alvarlegur dragbítur á framgang rannsókna á Íslandi. Augu manna hafa nú opnast fyrir því að rannsóknir geta einnig skilað miklum hagnaði, bæði í aurum talið sem og í bættum árangri lækninga," segir hann.

Kostnaður vaxið en framlög staðið í stað

Eiríkur Steingrímsson, rannsóknarprófessor í lífefna- og sameindalíffræði, segir að mjög margt gott sé gert í rannsóknum í læknavísindum hér á landi og vísar m.a. í skýrslu Rannís máli sínu til stuðnings.

"Það er því ljóst að á Íslandi starfa hæfileikaríkir og metnaðarfullir vísindamenn með menntun á við það sem best gerist. Þessi könnun gerði að vísu ekki grein fyrir því hvernig rannsóknirnar voru fjármagnaðar. Hins vegar er alveg ljóst að umfang þessara rannsókna er langt umfram það sem styrkir frá hinu opinbera vísindastyrkjakerfi, t.d. Vísindasjóði, leyfa," segir Eiríkur og bendir á að kostnaður við rannsóknir hafi farið vaxandi að undanförnu á meðan framlög til Vísindasjóðs hafi staðið í stað.

"Það er hins vegar ýmislegt sem má betur fara í umhverfi íslenskra vísinda til að efla megi rannsóknir í læknisfræði enn frekar. Það þarf að bæta til muna það umhverfi sem íslenskir vísindamenn búa við til að skapa því möguleika á að ná árangri á heimsmælikvarða."

Margfalda verður fjárframlög

Eiríkur segir að að sínu viti þurfi einkum að laga fernt. "Í fyrsta lagi þarf að margfalda fjárframlög til Vísindasjóðs. Öll nágrannaríki okkar eru að margfalda framlög hins opinbera til frjálsra vísindarannsókna. Einnig er margföldun í einkageiranum. Menn eru að gera sér grein fyrir því að þær efnahagslegu framfarir sem orðið hafa undanfarin ár eiga upptök sín í þekkingariðnaði og því ber að styrkja hann með öllum ráðum. Sem dæmi má nefna að Bandaríkjastjórn hefur ákveðið að tvöfalda fjárframlög til Heilbrigðisstofnunar sinnar, National Institutes of Health, á fimm árum. Þeir hafa aukið framlögin um 15% nú í tvö ár í röð og það er engin smáaukning. Það kerfi sem Rannsóknarráð vinnur eftir við að útdeila styrkjum - jafningjamatið - virkar, og er besta leiðin til að tryggja gæði og eftirlit. Samkeppni um styrkina tryggir gæði rannsóknanna. En vegna þess hve Vísindasjóður hefur lítið fé milli handanna hefur verið valin sú leið að láta marga hafa litla styrki. Þetta er ekki rétta leiðin. Betra er að láta bestu verkefnin hafa fullan kostnað í lengri tíma og spyrja svo að leikslokum. Það er afar mikilvægt að vísindamönnum sé gert kleift að vinna að rannsóknum þar sem mestar líkur eru á að þeir nái árangri og leyfa þeim sjálfum að ráða hvers konar rannsóknir þeir stunda. Það hefur margoft sýnt sig að það boðar ekki gott að stýra rannsóknunum að ofan.

Í annan stað verður að afnema virðisaukaskatt af rannsóknarvörum og tækjum sem notuð eru til rannsókna á rannsóknarstofnunum á borð við Háskólann, Keldur, Hjartavernd og fleiri stofnunum sem ekki eru reknar í hagnaðarskyni, sem á ensku er nefnt non-profit. Það þekkist hvergi þar sem ég þekki til að stofnanir sem þessar greiði virðisaukaskatt. Samkeppnisstaða okkar er erfið fyrir enda þurfum við að greiða flutningsgjöld og tolla af allri vöru."

Fjárhagslegur ávinningur uppgötvana

Þriðji þátturinn sem Eiríkur nefnir eru bókasafnsmálin. Ólíkt því sem vinnuhópur um heilbrigðisvísindi undir stjórn Guðmundar Þorgeirssonar hélt fram á þingi Rannís telur Eiríkur að úr málefnum bókasafna verði að bæta hið bráðasta. "Með tilkomu Netsins hafa flest tímarit farið út í að birta allt á vefnum jafnóðum. Allir erlendir rannsóknarháskólar og stofnanir hafa áskriftir að vefsíðum flestra þeirra tímarita sem skipta máli og geta þá starfsmenn náð í greinar beint á tölvuna sína. Það er ótrúlegur tími og fé sem sparast við þetta. Því miður hafa bókasöfnin hér ekki bolmagn til að kaupa slíkar áskriftir. Við hér heima verðum því að fylla út millisafnaláns-eyðublöð og bíða eftir því að greinarnar finnist og séu sendar milli safna eða landa. Oft eru þær faxaðar og þá tapast upplýsingar úr myndum og öðru fylgiefni. Hér sýnist mér vera verkefni fyrir menntamálaráðuneytið að bæta úr hið fyrsta með myndarlegu átaki.

Í fjórða og síðasta lagi þyrfti að útbúa kerfi sem tryggði stofnunum og starfsmönnum þeirra fjárhagslegan ávinning uppgötvana. Þetta er besta leiðin til að tryggja að menn sæki um einkaleyfi og er einmitt sú aðferð sem Bandaríkjamenn völdu þegar þeir samþykktu Bayh-Dole lögin fyrir um 15-20 árum. Aðferð þessi hefur gefist afar vel þar."

Eiríkur segir að þegar þessi fjögur atriði hafa verið lagfærð sjái hann ekki betur en samkeppnisaðstaða rannsókna í læknisfræði hér á landi verði fyllilega samkeppnisfær við það sem gerist annars staðar.

Of þröngur skilningur

Elías Ólafsson, prófessor og yfirlæknir taugalækningadeildar Landspítalans, segir að vísindarannsóknir við Læknadeild hafi það hlutverk fyrst og fremst að tryggja góða þjálfun læknanema og símenntun lækna. Í vísindarannsóknum sé fólgin þjálfun í þekkingaröflun sem er nauðsynleg til að túlka rannsóknir annarra, en á því byggist framfarir í læknisfræði. Sá skilningur sumra að vísindin eigi alltaf að skila hagnýtum niðurstöðum, sem helst verði strax ábátasöm söluvara, sé of þröngur.

"Velgengni stórra erlendra háskóla felst m.a. í miklum mannafla með fjölbreytilegan rannsóknaáhuga og margvíslega sérþekkingu auk greiðari aðgangs að fjármagni, en hér gerist. Þrátt fyrir fámenni og fjárskort er stunduð við Læknadeild vísindavinna sem hefur vakið mikla athygli, en betur má ef duga skal. Mikilvægt er að efla samvinnu við einkafyrirtæki um ákveðin verkefni, en ekki er hægt að ætlast til að þau fjármagni allar nauðsynlegar rannsóknir, frekar en að hægt er að treysta eingöngu á einkafyrirtæki við fjármögnun menntakerfisins," segir Elías og telur nauðsynlegt að ríkið tryggi nægilegt fjármagn til vísindarannsókna á hverjum tíma.

"Læknadeild Háskólans verður ekki rekin án öflugra vísindarannsókna. Miklar framfarir hafa orðið í rannsóknum við deildina á síðustu áratugum og nauðsynlegt er að þær haldi áfram. Flestar rannsóknir fara fram á tiltölulega þröngu fræðasviði og fáir fást við hvert vandamál um sig hér á landi. Því er mikil og virk samvinna við erlenda vísindamenn nauðsynleg við frekari uppbyggingu rannsókna," segir Elías.

Rannsóknir mjög margvíslegar

Hannes Petersen, dósent og yfirlæknir á háls-, nef og eyrnadeild SR, leggur áherslu á hversu rannsóknir í læknisfræði geti verið margvíslegar, miklu skipti hverjir eigi í hlut hverju sinni. Mikilvægt sé þó að hafa í huga að læknar hafa ekki einkaleyfi á rannsóknum í læknisfræði og að sjúklingar séu ekki eini efniviðurinn.

"Ótal margir geta tekið þátt í rannsóknum í læknisfræði, t.d. sérfræðingar, unglæknar eða læknanemar auk annarra, svo sem líffræðinga, lyfjafræðinga og margra annarra. Viðfangsefnin eru einnig afar margvísleg, t.d. sjúkt fólk eða fullfrískt og algengur miksskilningur er að rannsóknir í læknisfræði fari aðeins fram á sjúku fólki. Það er alls ekki rétt og raunar held ég megi fullyrða að stærri hluti rannsókna fari fram á heilbrigðu fólki, frumum eða bakteríum en beinlínis sjúklingum á heilbrigðisstofnunum," segir hann og nefnir að auki til aðrar tegundir rannsókna, t.d. mat lækna á gæðum eigin vinnu og tilraunir á nýjum tegundum lyfja í samstarfi við lyfjafyrirtæki séu fyrirferðarmiklar.

Hannes bendir á að allar rannsóknir séu í eðli sínu hagnýtar, þótt notagildi þeirra komi misfljótt í ljós. Hann segir þess vegna ágætt að annars vegar sé hægt að sækja styrki í sjóði sem ekki gera kröfu um beinan hagnað og hins vegar til fyrirtækja um samstarf við rannsóknir sem þá oftar en ekki gera kröfur um hagnað. Slíkar mismunandi fjáröflunarleiðir myndu tryggja að bæði yrði unnt að vinna að s.k. hagnýtum rannsóknum og grunnrannsóknum.

"Við verðum að leggja mun meiri áherslu á grunnrannsóknir en gert hefur verið. Vissulega hafa margar þeirra ekki augljóst notagildi meðan á þeim stendur, en þegar niðurstöður þeirra og margra annarra eru teknar saman má segja að grundvöllur að öllum öðrum rannsóknum sé markaður. Mjög mikilvægt er að stjórnvöld geri sér grein fyrir þessu. Ekki síst þar sem gróðinn verði mjög áþreifanlegur til lengri tíma litið þótt hann verði ekki skjótfenginn."

Hannes bendir á hlutverk Háskólans í þessum efnum. Hann sé eins og kónguló í netinu; óháður með það markmið að standa vörð um aðferðafræðina, hin vísindalegu vinnubrögð og akademíska kennslu. Í tilfelli Læknadeildar Háskólans sé starfandi Rannsóknarnámsnefnd sem hafi með rannsóknatengt framhaldsnám að gera, standi fyrir námskeiðum um aðferðafræðina, tölfræði og vísindasiðfræði, svo eitthvað sé nefnt.

Nám upp á gamla móðinn

"Hvað varðar akademíska námið í Læknadeild þá hefur það verið svolítið upp á gamla móðinn, byggt upp á mata stúdenta af staðreyndum. Hins vegar er þróunin sú að tengja námið við úrlausnir vandamála. Algeng vandamál lækna í dag hafa þekktar úrlausnir og því er mikilvægt að kenna læknanemum hvar má nálgast þær. Séu úrlausnirnar ekki þekktar, þarf að kenna hvernig setja megi upp rannsókn er veitir svör við vandamálinu. Þannig eigum við eftir að sjá enn meiri aukningu í rannsóknum í læknisfræði í framtíðinni," segir Hannes Petersen.

Grunnrannsóknir afskiptar

Magnús Jóhannsson, prófessor og forstöðumaður Rannsóknastofu lyfja- og eiturefnafræða, telur að þrátt fyrir fjárskort og aðstöðuleysi séu rannsóknir í læknisfræði á ýmsan hátt öflugar hér á landi, þótt ljóst sé að grunnrannsóknir séu afskiptar. Miklu bjargi að nóg sé af vel menntuðu og færu fólki sem sinni rannsóknarvinnu af brennandi áhuga og fórnfýsi.

"Það sem gerir stöðuna hins vegar svo erfiða er léleg aðstaða, lág laun og magrir rannsóknarsjóðir," segir hann og bendir á að rannsóknarstofnanir séu dreifðar um borgina, skortur sé á grunnaðstöðu og grunnfjárveitingum til kennara. Þeir hafi lág laun, mun lægri en gerist meðal háskólamanna í nágrannalöndunum og það geri það að verkum að mikill tími fari í brauðstrit.

"Háskóli Íslands fær litlar sem engar fjárveitingar til rannsókna og Rannsóknasjóður Háskólans hefur allt of litla fjármuni til ráðstöfunar, Vísindasjóður Rannís hefur árlega til úthlutunar um 150 milljónir kr. en þessi upphæð þyrfti að vera a.m.k. 400 milljónir ef eitthvert gagn ætti að vera að þessum sjóði. Sumir vísindamenn hafa nefnilega ekki í aðra sjóði að venda," segir Magnús og bætir því við að aðrir innlendir sjóðir séu mjög litlir. Þá sé erfitt að sækja um styrki úr sjóðum Evrópusambandsins, einkum til grunnrannsókna.

Byggingarmál Háskólans í hnút

Að sögn Magnúsar eru byggingarmál Háskólans í hnút og hafa verið lengi. Máli sínu til stuðnings bendir hann á Læknagarð, sem hafi verið í byggingu í meira en tuttugu ár og talsvert skorti enn á að húsið allt hafi verið klárað og tekið í notkun vegna fjárskorts. Þá sé bygging nýs Náttúrufræðihúss þegar komið langt aftur úr áætlun.

"Á meðan eru margar stofnanir í leiguhúsnæði hér og þar í borginni og af því skapast mikið óhagræði," segir Magnús og telur brýnt að úr þessu verði bætt sem fyrst. Um leið þurfi laun kennara og annars starfsfólks að hækka og hverri kennarastöðu þurfi að fylgja fjárveiting til rannsókna. Síðast en ekki síst þurfi að efla verulega opinbera sjóði og veita þannig meira fé til rannsókna, ekki síst grunnrannsókna.

Grunnrannsóknum ekki nægilega sinnt

Ástæður þess að grunnrannsóknum; grundvelli framfara í vísindum, er ekki nægilega sinnt hér á landi eru lítið fjármagn, bágborin aðstaða og aukin samkeppni um vinnuafl. Þetta segir Karl G. Kristinsson, dósent og yfirlæknir á sýklafræðideild Landspítalans.

Karl segir að skipta megi því upp í tvo þætti hvernig efla megi rannsóknir í læknisfræði hér á landi. Annars vegar verði að bæta starfsskilyrði vísindamanna og hins vegar að auðvelda fjármögnun rannsókna, með auknum styrkjum eða á annan hátt.

"Prófessorum við Háskólann þarf að skapa viðunandi starfsskilyrði svo þeir þurfi ekki að sinna of mörgum verkefnum samtímis. Á þetta hefur skort innan læknadeildar. Prófessorar þurfa oft að verja of stórum hluta sinnar vinnu við ýmis þjónustuhlutverk á kostnað rannsókna, stjórnunar og kennslu," segir Karl og bendir á að þetta stafi annars vegar af miklum sparnaði í heilbrigðiskerfinu á umliðnum árum og hins vegar af mannfæð hér á landi. Þá þurfi laun prófessora að vera samkeppnisfær við það sem gerist í einkageiranum.

"Sú rannsóknaraðstaða sem er fyrir hendi er ekki fullnægjandi. Í læknadeild er hún aðallega staðsett á sjúkrahúsum eða í húsum þeim tengdum og þar glíma menn við eilíft plássleysi og baráttu um fermetra. Nú þegar skortir rými fyrir ýmsar deildir og í slíkum tilvikum er aðstaða til grunnrannsókna neðarlega í forgangsröðinni," segir Karl.

Nauðsyn nýrra hugmynda

Að sögn Karls hefur skort nokkuð á skilning ráðamanna á mikilvægi grunnrannsókna. Þær séu grundvöllur framfara, því sé ekki nóg að sinna hagnýtum rannsóknum eingöngu - sífelld nauðsyn sé á nýjum hugmyndum sem þróa megi til fullnustu. Aðeins þannig geti Íslendingar t.d. vænst þess að fá einkaleyfi á mikilsverðum tækninýjungum sem lagt geti grundvöll að enn frekari verðmætasköpun.

"Auðvitað háir peningaleysið okkur mjög. Vísindamenn í grunnrannsóknum hafa ekki í dag í marga sjóði að sækja styrki. Rannís er stærsti aðilinn en auk má nefna Rannsóknasjóð Háskólans og Vísindasjóð Landspítalans. Þar fyrir utan má nefna nokkra minni sjóði tengda einstökum sjúkdómum, en svo eru alls engir til á öðrum sviðum. Gallinn við þessa sjóði er smæð þeirra, þeir veita tiltölulega litlar upphæðir og því þarf gjarnan að sækjast eftir fé í þá alla og dugir þó ekki til. Að auki er hægt að sækja fé til rannsóknarsjóða Evrópusambandsins, en slíkt útheimtir gríðarlega undirbúningsvinnu. Styrkir úr þeirri átt eru bundnir skilyrðum um samstarf við önnur lönd og slíkt eykur skiljanlega enn á umfangið. Fyrir aðstandendur tiltölulega lítilla verkefna, sem þar að auki eru önnum kafnir við hefðbundin þjónustuverkefni á sjúkrahúsum, er meira en að segja það að sækjast eftir fé úr þeirri átt," útskýrir Karl.

Sem dæmi nefnir hann að Rannís varði í fyrra aðeins 11,7 milljónum króna til nýrra verkefna innan heilbrigðis- og lífvísinda. "Þetta eru því allt of litlar upphæðir sem nægja ekki einu sinni til að styrkja allra bestu verkefnin. Á meðan þetta breytist ekki er ekki von á góðu."

Breytinga að vænta?

Karl segist vænta breytinga á þessu, enda sé slíkt nauðsynlegt og beinlínis grafalvarlegt að halda í horfinu í þessum efnum. "Ég hef séð hugmyndir á blaði um samkomulag menntamálaráðuneytisins við Háskólann um fjárveitingu sem beintengja á við rannsóknir eins og gert er við kennslu. Þetta veit á gott og er í raun alveg bráðnauðsynlegt til að veita forstöðumönnum fræðasviða svigrúm til að halda grunnrannsóknum gangandi."

Að auki nefnir hann að samkeppni um vinnuafl hafi aukist mjög með tilkomu sterkra rannsóknarfyrirtækja á borið við ÍE og UVS. Um leið skekkist mjög rannsóknarvirkni hér á landi.

"Tilkoma þessa fyrirtækja er gríðarleg lyftistöng fyrir íslenskt samfélag. Hins vegar eru dekkri hliðar einnig á málinu og staðan nú er þannig að ungt fólk sækist fremur eftir störfum í þessum fyrirtækjum en til annarra rannsókna. Þessi fyrirtæki eru auðvitað gríðarlega sterk fjárhagslega og þeir sem háðir eru smástyrkjum héðan og þaðan eiga erfitt með keppni um vinnuafl. Þess vegna eru rannsóknir á öðrum sviðum en erfðafræði ekki samkeppnisfærar og geta dregist aftur úr," segir Karl.