[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kristnihátíð einstakra kirkna hófst með miklum glæsibrag í Garðabæ um síðustu helgi.
Kristnihátíð einstakra kirkna hófst með miklum glæsibrag í Garðabæ um síðustu helgi. Þar var bæði messað á sunnudagsmorgun og síðar efnt til mikillar lista- og menningarhátíðar sem fjöldi fólks tók þátt í og varð Garðbæingum og Kjalarnesprófastsdæmi til mikils sóma.

Kristnihátíð var að vísu sett á síðastliðnu ári í Matthíasarkirkju á Akureyri.

Ómetanleg arfleifð er lítilli þjóð dýrmætt veganesti í því volki og þeim hraða sem einkennir samtímann og hollt að líta um stund um öxl og minnast þeirra stóru viðburða sem við teljum enn hvað mikilvægasta á leið okkar inn í ókunna framtíð. Kristin arfleifð er ekki einungis mikilvæg trúarinnar vegna, heldur - og ekki síður - vegna þeirrar menningarlegu reisnar sem hún hefur skilað okkur á óróatímum.

Það var rétt sem formaður menningarnefndar Garðbæinga, Lilja Hallgrímsdóttir, sagði í upphafi menningarveizlunnar, að kristnin hefði átt mikilvægan þátt í varðveizlu tungunnar, en hún er dýrmætasta eign okkar frá fornu fari. Það er á þessa tungu sem heimsbókmenntir hafa verið skrifaðar.

Engin tunga önnur getur varðveitt þennan fjársjóð, hversu vel sem að verki er staðið.

Það er þessi arfur sem hefur stækkað þjóðina öðru fremur og aukið henni virðingu, eflt hana til fullveldis og sjálfstæðis og veitt henni þegnrétt meðal siðaðra menningarþjóða. Við þennan arf hafa bætzt aðrir mikilvægir þættir listar og menningar og hefur kristin kirkja og kristin trú ekki átt minnstan þátt í því að þessi arfleifð varð til.

Íslendingar skrifuðu ávallt á eigin tungu, Biblían varð undirstöðurit lútherskrar menningarviðleitni og þýðing Odds á Nýja testamentinu kom þegar í kjölfar þeirra stórvirkja sem unnin voru í Þýzkalandi og nokkrum löndum öðrum eftir nýsköpunarstarf Lúthers sjálfs. Sálmakveðskapnum hrakaði að vísu mjög og var ekki með þeirri reisn sem sjá má í kaþólskum Sólarljóðum, Lilju og fleiri helgikvæðum, en það stóð fljótt til bóta og ekki leið á löngu þar til Hallgrímur Pétursson, sr. Ólafur á Söndum og aðrir slíkir komu til sögunnar. Jón Vídalín, byskup, var einn þeirra frumherja lútherskrar trúar sem mest kvað að og var þess sérstaklega minnzt í Vídalínskirkju - og var við hæfi. Lesnir voru kaflar úr postillu hans sem setti á sínum tíma mark sitt á nánast hvert íslenzkt heimili og þótti þar þá jafn sjálfsagður gestur og vinsælt dagblað nú á dögum.

Andlegur auður - og auðhyggja

Það var áreiðanlega margt sem réð úrslitum um það að við héldum tungunni, bókmenntastarf, prédikanir, einangrun og heilbrigður metnaður lítillar þjóðar sem barðist við veraldlega fátækt, með andlegan auð sem veganesti. Þess er ekki sízt vert að minnast nú þegar auðhyggja og peningafár eru talin mikilvægasta veganesti til valda og virðingar.

Norðmenn prédikuðu fljótlega á danska tungu og telja sumir að það hafi ráðið úrslitum um þróun norskunnar. Við prédikuðum aldrei á annarri tungu en okkar eigin og telja ýmsir einnig, að það hafi ráðið úrslitum. Það sýndi a.m.k. manndóm og andlegt þrek og hlýtur að vera einn mikilvægasti vegvísir okkar inn í þá óvissu framtíð sem við blasir.

Friðsamleg sambúð

Margar kenningar hafa verið viðraðar um ástæður þess að Íslendingar tóku kristna trú á Alþingi árið 1000, án blóðsúthellinga. Í nýlegri trúarsögu erlendri er því haldið fram að ástæðan hafi verið sú, að Íslendingar hafi með því móti reynt að forðast ásókn Ólafs konungs Tryggvasonar en ýmsir höfðu af því miklar áhyggjur að slík afskipti væru yfirvofandi. Hinu er þá ekki heldur að neita að afskipti konungs af þessari þróun voru mikil og sást hann ekki alltaf fyrir í þeim efnum. Bent hefur verið á að hann hafði fjóra höfðingjasyni í gíslingu um þessar mundir, einn úr hverjum fjórðungi, og hafi það haft sín áhrif, enda nokkuð augljóst.

Um þetta hafa gömul rit fjallað af sagnfræðilegri ástríðu og miklu listfengi og ekki ástæða til annars en taka þau alvarlega, bæði Kristni sögu Sturlu Þórðarsonar og önnur þau rit sem um þessi mál fjölluðu. Þau eru skrifuð harla nálægt þáttaskilum kristni og heiðni og miklar líkur til að unnt sé í grófum dráttum að byggja á heimildagildi þeirra. Þess má þá einnig geta að hér á landi var margt fólk kristið og augljóst að ásatrúarmenn sýndu því mikið umburðarlyndi og létu það í friði fara svo fremi sem vígamenn sýndu goðum þeirra og hörgum þá siðlegu nærgætni sem menntuðu fólki ætti að vera eiginleg. Þó voru undantekningar á þessu, en ekki að ástæðulausu, eins og sagan um Stefni og refsingar hans bera vott um.

En það hefur áreiðanlega ráðið miklu um þróunina hvað margt kristið fólk var hér á landi og þá ekki síður hvað margir létu prímsignast eins og Egill en með því móti gátu heiðnir menn átt eðlileg samskipti við kristið fólk. Var það að sjálfsögðu mikilvægt fyrir Íslendinga, svo mikla verzlun sem þeir höfðu við móðurlandið í austri, Noreg.

Auk þess er náttúrulega ástæða til að að gæta þess, sem miklu skipti um úrslit málsins á sínum tíma, þ.e. að ásatrúarmenn voru fjölgyðistrúar og sem slíkum þótti þeim ekki verra að bæta Hvíta-Kristi inní trúarkerfi sitt og styrkja það þannig með jafnsterkum boðbera guðlegrar forsjónar og raun bar vitni. Hefur það áreiðanlega átt sinn þátt í því að sættir tókust á Alþingi um málatilbúnað Þorgeirs goða frá Ljósavatni.

Landnámsmaður

nýrrar trúar

Sumir hafa bent á að nú sé ekki hægt að halda uppá afmæli siðaskipta, en nútíminn sé framhald þeirra fremur en kaþólskrar turnunar uppúr þúsund. Því er þá til að svara að þróunin hefur verið með þeim hætti að lítill munur er á kaþólskri trú og siðbótinni, a.m.k. enginn eðlismunur þótt blæbrigði séu þar nokkur. Við erum ekki að halda uppá afmæli Lúthers eða siðbótarmanna, ekki heldur hinnar almennu kaþólsku kirkju, heldur þeirra þáttaskila þegar Kristur sjálfur nam land á þessum fjarlægu slóðum; við erum í raun að minnast þess landnámsmanns sem mest áhrif hefur haft á sögulega þróun og arfleifð okkar allra. Af þeim sökum eru þessi tímamót mikilvæg minning alls kristins fólks, hvar í flokki sem það stendur - og fer vel á því.

Það hlýtur að vekja nokkra athygli og vera talsvert uppörvunarefni, hvernig höfundur mestu Íslendinga sögunnar, Njálu, fléttar kristnitökuna inn í það listaverk, sem mest er allra rita bókmennta okkar, að Biblíunni sjálfri undanskilinni að sjálfsögðu, en hún er ekki afrek þessarar þjóðar, heldur annarrar þjóðar sem við höfum ævinlega átt góð samskipti við, gyðingaþjóðarinnar. Um Biblíuna hefur verið sagt, að höfundur hennar sé guð sjálfur. Svo merka rithöfunda höfum við að vísu ekki átt, en um þetta sagði Ben-Gurion á Þingvöllum, þegar hann hitti Ólaf Thors þar um slóðir í heimsókn sinni fyrir margt löngu, að Ísraelar væru þjóð bókarinnar en Íslendingar þjóð bókanna.

Hitt er svo annað mál að Guðbrandsbiblía og þýðing Odds eru með mestu afrekum íslenzkrar tungu og arfleifð þeirra meiri og mikilvægari en svo, að henni verði gerð nokkur endanleg skil. Biblían á rætur í sögu gyðinga en Njála í sögu Íslendinga.

Það getur varla verið tilviljun að hinn kristni þáttur var fléttaður inn í Njáls sögu og þá augljóst að höfundur hefur haft Kristni sögu Sturlu við höndina, þegar hann samdi hið mikla rit sitt. Sturla var sem sagt ekki langt undan, þegar Njála var samin, hvað sem öðru líður. Hann var á næstu grösum - og líklegast að hann hafi verið á eigin túni; að hann hafi verið í túninu heima.

Hjarta hvers manns - þingstaður

Fyrr er nefnt að hátíð einstakra kirkna hafi hafizt í Garðabæ með guðsþjónustu, að sjálfsögðu. Þar flutti Davíð Oddsson, forsætisráðherra, ávarp og komst m.a. svo að orði:

"Nú er ekki svo að skilja að þeir sem hafna trúnni á Guð séu að amast við trúarþörf og trúariðkun hinna. Þeir virðast fremur líta á trú og guðsdýrkun sem sérvisku sem sjálfsagt sé að umbera enda er það aðalsmerki hins íslenska nútímamanns að umbera flest og hneykslast á fáu. En það kemur þó oft fram að sumum þykir það ótvírætt merki gáfna, þroska og þekkingar, þegar því marki er náð, að maður hafi loks reiknað Guð eða rökstutt hann út úr lífi sínu. Og vissulega er það rétt að gáfur eða menntun eru ekki skilyrði þess að maður fái trúað. Sælir eru fátækir í anda, segir þar og Kristur sjálfur bendir á að opinn barnshugur sé frjósamasti akurinn fyrir frækorn himnanna en margt sé á hinn bóginn hulið spekingum og hyggindamönnum. En það gefur þó ekki tilefni til að álykta að gáfur, þekking og vísindi skapi endilega ófrjótt arfabeð, þar sem trú fái alls ekki þrifist. Öðru nær. Þau dæmin eru mörg og yfirgnæfa hin um að þeir sem lengst hafa komist í þekkingarleitinni á hverri tíð standi á ný jafnfætis barninu og séu opnastir fyrir því að tilveran verði ekki skýrð nema að Guð hafi þar sitt rúm, sé upphafið og endirinn. Þeir komast með öðrum orðum að því, að sú mikla þekking sem mannheimur býr yfir, og hefur aldrei verið meiri en nú og aldrei jafn aðgengileg og aldrei eins létt að safna í einn punkt, nái þó enn ótrúlega skammt. Trúin taki við þar sem þekkingunni sleppir enda hafi það ekki síst verið trúarþörfin í bland við efann sem knúði menn áfram í þekkingarleitinni. Trúarþörfin virðist öllum eðlisbundin, þó víkja megi henni til hliðar um stund og jafnvel breiða þykkt lag efans yfir hana lengi vel og stundum um allt það skamma skeið sem hverjum og einum okkar er skammtað. Og með sama hætti og sannfæring trúaðra er svo vel umborin af þeim samferðamönnum sem efast eða telja sig jafnvel hafa reiknað trúna út af borðinu eða að minnsta kosti út úr tölvunni sinni, þá ber að umbera þá hina sömu - og reyndar vona að þeir haldi áfram að reikna og fjalla um það sem þeir kalla rökleysur trúarinnar því það er allt þáttur í leit, mikilli leit. Og skrifað stendur að sá sem leitar muni að lokum finna og verður þá kannski glaðastur þegar hann finnur að endingu allt annað en hann hélt að hann væri að leita að.

Því miður eru þeir alltof margir sem búið hafa við ástleysi alla sína tíð og enn fleiri sem lifa þurfa sínu lífi án listar. Og drýgstur hluti mannkyns lifir enn án þess að kynnast peningum í neinum þeim mæli sem jafnvel þeir Íslendingar, sem minnst hafa á milli handanna, hafa nú. En allir eiga þeir sína sögu og trúarþörf af einhverju tagi. Saga íslenskrar þjóðar og saga kristni hafa verið samtvinnaðar alla tíð í þessu landi, ekki aðeins eftir hina formlega kristnitöku. Hér voru fyrir kristnir menn, írskir munkar, þegar heiðnir landnemar komu. Og landnemar höfðu með sér þræla og ambáttir sem trúðu á Krist hinn krossfesta og ríghéldu með sjálfum sér í það veganesti, þótt hljótt færi, sem eina hjálpræðið í þeim ógnum sem yfir þau hafði dunið.

Þess vegna má færa fyrir því rök að á Íslandi hafi ætíð fundist kristnir menn frá því að maðurinn sté fyrst fæti þar á land. Veit ég ekki um nokkurt annað land í víðri veröld sem þá sögu hefur að segja. Íslendingar ákváðu með formlegum hætti á Alþingi við Öxará að taka upp kristinn sið. Það var mikil og heilladrjúg ákvörðun, sem enn hefur ríkulegt gildi. En með henni var þó ekki ákveðið að sérhver Íslendingur skyldi vera kristinn í þeim skilningi að hann öðlaðist frá og með þeirri samþykkt trú á Guð í sínu hjarta. Það gerist ekki þannig. Slík ákvörðun verður ekki tekin nema af einstaklingnum sjálfum. Handaupprétting á Þingvöllum árið þúsund eða við Austurvöll þúsund árum síðar getur skapað umgjörð og skilyrði fyrir kristinn sið í landi með allri þeirri blessun sem honum fylgdi og fylgir. En hjarta hvers manns er sá þingstaður þar sem hann einn og með sjálfum sér greiðir atkvæði með eða á móti því að ganga persónulega í samfélag með Kristi. Það er leynilegasta kosning sem þekkist enda hefur niðurstaða hennar úrslitaþýðingu."

Að lokum er ástæða til að vitna í fornar frásagnir af kristnitökunni og aðdraganda hennar. Er þá ekki úr vegi að velja sinn hvorn kaflann úr þeim ritum sem nefnd hafa verið hér að framan, Kristni sögu Sturlu Þórðarsonar og Njálu. Þar er sagt frá svipuðum atburðum og eftirminnilegum og ekki úr vegi að staldra við þá, þegar þess er minnzt að hjörturinn mikli fór himinskautum til Íslands, en þá tóku horn til himins, eins og segir í Sólarljóðum.

Í Kristni sögu segir m.a. svo:

"Hallur lét flytja þá til Álftafjarðar hins syðra í Leiruvog og setti upp skip þeirra þar, er nú heitir Þangbrandshróf, en Hallur færði skipfarminn heim á túnvöll sinn og gerði þar tjald, það er þeir Þangbrandur voru í. Þar söng Þangbrandur messu.

Hinn næsta dag fyrir Mikjálsmessu þá létu þeir Þangbrandur heilagt að nóni.

Þá var Hallur þar í tjaldinu. Hann spurði: "Hví léttið þér nú verki?"

Þangbrandur segir: "Á morgun er hátíð Mikjáls höfuðengils."

Hallur spurði: "Hversu er hann háttaður?"

Þangbrandur svarar: "Hann er settur til þess að fara mót sálum kristinna manna."

Síðan sagði Þangbrandur margt frá dýrð guðs engla.

Hallur mælti: "Voldugur mun sá, er þessir englar þjóna."

Þangbrandur segir: "Guð gefur þér þessa skilning."

Hallur sagði um kveldið hjónum sínum: "Á morgun halda þeir Þangbrandur heilagt guði sínum, og nú vil ég, að þér njótið þess, og skuluð þér ekki vinna á morgun, og skulum vér nú ganga að sjá athæfi kristinna manna."

Um morguninn veitti Þangbrandur tíðir í tjaldi sínu, en Hallur gekk og hjón hans að sjá athæfi þeirra og heyrðu klukknahljóð og kenndu ilm af reykelsi og sáu menn skrýdda guðvef og purpura.

Hallur spurði hjón sín, hversu þeim þóknaðist athæfi kristinna manna, en þau létu vel yfir. Hallur var skírður laugardaginn fyrir páska og hjón hans öll þar í ánni. Hún er síðan kölluð Þvottá."

Í Njáls sögu er þessum þætti um aðdraganda íslenzkrar kristni lýst með þessum hætti:

"Þetta spurði Hallur af Síðu; hann bjó að Þvottá í Álftafirði. Hann reið til skips við þrjá tugi manna; hann fer þegar á fund Þangbrands og mælti til hans: "Ganga ekki mjög kaupin við menn?" Hann sagði, að svo var. "Nú vil ég segja þér mitt erindi," segir Hallur, "að ég vil bjóða yður öllum heim til mín og hætta á, hvort ég geti kaup fyrir yður." Þangbrandur þakkaði honum og fór þangað.

Um haustið var það, að Þangbrandur var úti snemma um morgun og lét skjóta tjaldi og söng messu í tjaldinu og hafði mikið við, því að hátíð var mikil. Hallur mælti til Þangbrands: "Í hverja minning heldur þú þennan dag?" "Michaels engils," segir hann. "Hver rök fylgja engli þeim?" segir Hallur. "Mörg," segir Þangbrandur; "Hann skal meta allt það, sem þú gerir, bæði gott og illt, og er svo miskunnsamur, að hann metur allt það meira, sem vel er gjört." Hallur mælti: "Eiga vildi ég hann mér að vin." "Það munt þú mega," segir Þangbrandur; "Og gefst þú honum þá í dag með guði." "Það vil ég þá til skilja," segir Hallur, "að þú heitir því fyrir hann, að hann sé þá fylgjuengill minn." "Því mun ég heita," segir Þangbrandur. Tók Hallur þá skírn og öll hjú hans."

(Úr kristni þætti Njálu)

Frá kristnitöku árið 1000 er sagt í Íslendingabók Ara fróða, sem flestar heimildir yngri styðjast við, beint eða óbeint, þ.á m. Ólafs saga Tryggvasonar eftir Odd munk Snorrason, Ólafs saga Tryggvasonar eftir Gunnlaug munk Leifsson (ísl. þýðing varðveitt í brotum), Kristni saga Sturlu og þannig einnig kristni þáttur Njáls sögu.

Frásögnin af Þorgeiri goða frá Ljósavatni og kristnitökunni sjálfri er mjög svipuð í Kristni sögu og Njálu og ber ekki í milli í neinu því er máli skiptir.

En þess ber að gæta að Kristni saga er sagnfræðirit, en Njála söguleg skáldsaga - þó líklega einnig dæmisaga um illvirki Sturlungaaldarmanna á 13. öld, skrifuð um það leyti sem Sturla Þórðarson dvaldist í Fagurey á Breiðafirði og stjórnaði þar ritverkstæði sínu, en þar bjó hann seinustu ár ævinnar. Þá höfðu aðrir þekktir höfundar aldarinnar safnazt til feðra sinna.