Bobby Gillespie er fremstur meðal jafningja í Primal Scream, en hann var trymbill hjá The Jesus and the Mary Chain áður en hann ákvað að verða rokkstjarna á eigin forsendum. Framan af skar sveitin sig lítt úr því sem helst var á seyði í Bretlandi, glamrandi gítarpopp með lágstemmdum söng, en vendipunktur í sögu Primal Scream var þegar sveitin bað kunningja sinn, Andy Weatherall, um að koma lagi í danshæfan búning.
Niðurstaðan vakti geysiathygli og hratt af stað nýrri tónlistarstefnu. Fyrir samstarfið við Weatherall meðal annars er þriðja breiðskífa hljómsveitarinnar, Screamdelica, sem kom út fyrir níu árum, talin með helstu og áhrifamestu dansplötum áratugarins.
Þeir Primal Scream-félagar kunnu velgengninni vel, svo vel reyndar að um tíma höfðu liðsmenn hennar ekki tíma til að hugsa um tónlist, hvað þá að standa í því að semja og taka upp. Þremur árum síðar kom þó loks út plata og flestum í opna skjöldu, því dansrokksveitin almagnaða hafi breyst í gamaldags blúsrokksveit, einna líkasta Rolling Stones á meðan sú hafði eitthvað til málanna að leggja.
Stefnubreytingin féll fáum í geð, þótt platan, Give Out But Don't Give Up, hafi verið bráðvel heppnuð. Næstu verk Gillespies og félaga voru líkari fyrri verkum því enn var danstaktur kominn í spilið en minnti nú frekar á dimma Underworld-keyrslu en glaðvært Madchester-popp. Næsta plata, Vanishing Point, sem kom út fyrir tveimur árum, var þyngri og veigameiri en áðurnefnd rokkskífa, og ekki spillti að stuttu síðar kom út plata, Echo Deck, þar sem Weatherall hafði farið höndum um lög af henni. Það beið því margur eftir næsta innleggi í sögu Primal Scream sem kom svo út í vikunni, platan Exterminator.
Breskir gagnrýnendur hafa tekið Exterminator einkar vel og varla nema von því hún er með mögnuðustu verkum Primal Scream, þung rafgítarkeyrsla gegnsýrð vélrænni danstónlist krydduð frjálsum djassi. Inntak plötunnar, sem hefst á laginu Kill All Hippies, er heldur neikvætt í garð engilsaxneskrar menningar, enda segir Gillespie hana byggjast á hægrisinnuðum bleiknefjafasisma; eini munurinn á Bandaríkjunum og Bretlandi sé að síðarnefnda landið sé peð hins.
Að sögn Gillespies ræður mestu um það hve platan nýja er vel heppnuð að andrúmsloftið innan sveitarinnar sé betra en nokkru sinni, en ekki spillir að þeir Adrian Sheerwood, David Holmes og Chemical-bræður koma við sögu og höfuðupptökumeistari er Brendan Lynch.