FLUGMAÐUR EgyptAir hefur óskað eftir hæli í Bretlandi sem pólitískur flóttamaður og kveðst hafa upplýsingar um hvers vegna þota flugfélagsins hrapaði í Atlantshafið undan austurströnd Bandaríkjanna 31. október með þeim afleiðingum að 217 manns fórust.

FLUGMAÐUR EgyptAir hefur óskað eftir hæli í Bretlandi sem pólitískur flóttamaður og kveðst hafa upplýsingar um hvers vegna þota flugfélagsins hrapaði í Atlantshafið undan austurströnd Bandaríkjanna 31. október með þeim afleiðingum að 217 manns fórust.

Stjórnarformaður EgyptAir, Mohammed Fahim Rayyan, skýrði frá því að flugmaðurinn hefði óskað eftir hæli í Bretlandi á föstudag en fullyrti að hann tengdist á engan hátt flugslysinu og hefði enga vitneskju um orsakir þess.

Talsmaður breska innanríkisráðuneytisins staðfesti að Egypti hefði óskað eftir hæli í Bretlandi á Heathrow-flugvelli en greindi ekki frá ástæðu beiðninnar. "Innflytjendayfirvöld hafa tekið beiðnina fyrir," bætti hann við.

Kvartaði yfir því að viðhaldi vélanna væri ábótavant

Flugmaðurinn heitir Hamdi Hanafi Taha, er 49 ára og hefur flogið Airbus þotum. Hann var í áhöfn þotu sem kom til Heathrow á föstudagsmorgun og hafði samband við flugumferðarstjóra þegar hann var einn í flugstjórnarklefanum til að óska eftir því að lögreglumenn tækju á móti honum á flugvellinum þar sem hann hefði upplýsingar um hvers vegna þotan hrapaði í Atlantshafið.

Egypska ríkisfréttastofan MENA sagði að flugmaðurinn hefði átt í deilu við EgyptAir og lagt fram "ákveðnar kröfur um peninga og starf". Eiginkona flugmannsins sagði að hann hefði hegðað sér undarlega og verið taugaóstyrkur síðustu daga. Ennfremur var haft eftir henni að hann hefði kvartað yfir því að viðhaldi flugvéla EgyptAir væri ábótavant.

Bandarískir og egypskir rannsóknarmenn hafa ekki komist að niðurstöðu um hvað olli því að þota EgyptAir hrapaði í sjóinn á leið frá New York til Kaíró. Bandaríkjamenn hafa rannsakað þá tilgátu að flugmaðurinn hefði stýrt þotunni niður til að svipta sig lífi en Egyptar segja að enginn fótur sé fyrir henni.