[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Bestu og verstu borgir heims Fjórar borgir - Vancouver, Zurich, Vín og Bern - hafa upp á að bjóða mestu lífsgæði af öllum borgum heimsins samkvæmt niðurstöðum úr athugun sem birtar voru í London fyrir skömmu.

Bestu og verstu borgir heims

Fjórar borgir - Vancouver, Zurich, Vín og Bern - hafa upp á að bjóða mestu lífsgæði af öllum borgum heimsins samkvæmt niðurstöðum úr athugun sem birtar voru í London fyrir skömmu. Aðrar borgir sem eru meðal tíu efstu eru Sydney, Genf, Auckland, Kaupmannahöfn, Helsinki og Amsterdam. Athugunin náði til 218 borga og tekið var tillit til 39 þátta sem hafa áhrif á lífsgæði, svo sem umhverfisþætti, pólitík, efnahagsmál, öryggi íbúa, heilbrigðismál, menntun, samgöngur og fleira.

New York borg í Bandaríkjunum var notuð til viðmiðunar og var henni gefin einkunnin 100. Borgirnar fjórar sem deildu efsta sætinu fengu 106 í einkunn en hins vegar fengu borgirnar sem voru í fjórum neðstu sætunum einkunn á bilinu 23-33. Lökustu einkunnina fékk Brazzaville í Kongó en Bagdad var í þriðja neðsta sæti og tekið var fram að glæpatíðni, samgöngumál og menntamál væru þeir þættir sem gerðu gæfumuninn.

Grikkland Nýr sumar- dvalarstaður

Ferðaskrifstofan Úrval-Útsýn býður í ár nýjan sólarstað á eyjunni Krít í Miðjarðarhafi í beinu leiguflugi.

Boðið verður upp á gistingu á hótelum og í íbúðum í tveimur sólarstrandarbæjum á Krít, í Chania, sem er önnur stærsta borgin á Krít og fyrrverandi höfuðstaður eyjarinnar, með 52.000 íbúa. Hinn bærinn er Rethymnon, sem er miðja vegu milli Chania og Heraklion, höfuðborgar Krítar.

Ferðirnar verða í boði frá 17. apríl til 11. september.

Einnig verður hægt að kaupa eingöngu flugfarið en það mun kosta 39.900 kr. og verður í boði frá og með 22. maí og út september.

Belgía og Holland Evrópukeppnin í knattspyrnu

Ervrópukeppnin í knattspyrnu verður haldin í Belgíu og Hollandi næsta sumar. Ferðamálafrömuðir í löndunum vonast eftir því að mótið verði til þess að laða að ferðamenn og fá þá til að heimsækja staði sem ekki hafa reynst aðdráttarafl fyrir ferðafólk til þessa. Opnunarleikurinn verður í Brussel hinn 10. júní og þar verður einnig leikinn einn af undanúrslitaleikjunum. Úrslitaleikurinn verður leikinn í Rotterdam í Hollandi, 2. júlí en aðrir leikir verða leiknir í belgísku borgunum Charleroi og Liege og hollensku bæjunum Eindhoven og Arnhem.

Búist er við 600.000 fótboltaáhugamönnum til landanna í tilefni mótsins og vonast Belgar og Hollendingar eftir að hluti þeirra eigi eftir að heimsækja löndin aftur í komandi framtíð.

Í tilefni knattspyrnuveislunnar er jafnframt fyrirhugað að bjóða upp á fjölda uppákoma og skemmtiatriða, ferðamönnum og fótboltaáhugamönnum til frekari dægrastyttingar.

Frakkland Stærsta seglskip heims

Verið er að leggja lokahönd á smíði stærsta seglskips í heimi, Royal Clipper, sem notað verður til skemmtisiglinga á Miðjarðarhafinu í sumar og er gert út frá Cannes. Seglin verða reist í febrúar og upp úr því mun skipið sigla á milli ýmissa hafna í Evrópu áður en því verður beint til Cannes.

Næsta vetur mun skipið sigla um Karíbahafið og eiga heimahöfn í Barbados. Seglskipið er endurgerð fyrsta fimm mastra seglskips veraldar, Preussen, sem ríkti yfir heimshöfunum á árunum 1902-1010. Kostnaðurinn við smíði Royal Clipper nam 55 milljónum dala, eða um 4 milljörðum íslenskra króna. Skipið mun geta borið 228 farþega og eru káeturnar 96 talsins. Þar af eru fjórtán svítur og tvær lúxussvítur en kostnaðurinn við smíði lúxussvítanna var 36 milljónir króna hvor.

Bandaríkin Lestarferðir

RAIL America Tours bjóða skipulagðar lestarferðir um áhugaverða staði víðs vegar um Bandaríkin undir handleiðslu leiðsögumanna. Í boði er tólf daga ferð sem nefnd hefur verið "Miklugljúfur Norður-Ameríku" og er þá farið frá Chicago til Albuquerque. "Landshorna á milli" er fjórtán daga ferð þvert yfir Bandaríkin, og sex daga "Cajun"-ferð frá New Orleans til Baton Rouge.

Rail Travel Center býður einnig fjölda lestarferða og má finna nánari upplýsingar um þær á slóðinni www.railtvl.com. American Orient Express er sömuleiðis með ýmsar ferðir á boðstólum og er slóðin www.travelpower.com/aoe