Rover 75 sem kom á markað á síðasta ári.
Rover 75 sem kom á markað á síðasta ári.
LÍTIL sala á Rover-bílum hefur valdið BMW miklum höfuðverk og kalla gárungarnir vandamálið Enska sjúklinginn eftir samnefndri kvikmynd.

LÍTIL sala á Rover-bílum hefur valdið BMW miklum höfuðverk og kalla gárungarnir vandamálið Enska sjúklinginn eftir samnefndri kvikmynd. BMW skýrði frá því í vikubyrjun að sala á Rover hefði dregist saman um 32% á síðasta ári og seldust þá 228 þúsund bílar. Hins vegar jókst sala á BMW um 7,4%, fór í tæplega 752 þúsund bíla, þar af 155 þúsund í Bandaríkjunum. Sala á bifreiðum BMW-samstæðunnar jókst samtals um 6,6% á síðasta ári, nam 33,7 milljörðum dollara, sem var í samræmi við væntingar sérfræðinga.

BMW keypti Rover árið 1994 og hefur fjárfest fyrir marga milljarða dollara til að rétta hið þekkta gamalgróna bílmerki við. BMW hét því að Rover yrði rekið hallalaust árið 2002 en nú þykir ólíklegt að það takmark náist þar sem sterlingspundið hefur hækkað að undanförnu. BMW er engu að síður staðráðið í að rétta Rover við með öllum tiltækum ráðum en hækkandi gengi pundsins ýtir enn undir orðróm um að BMW muni selja Rover. Ef það gerðist yrði BMW á ný einvörðungu lúxusbílaframleiðandi, en það er trú sérfræðinga að til þess að njóta velgengni þurfi bílaframleiðendur jafnt að framleiða lúxusbíla sem ódýrari gerðir.