FYRIR stuttu var fjallað í þessum pistli nokkuð um fs.-lið með til, en hann virðist mjög algengur bæði í rituðu máli og talmáli. Um það voru sýnd nokkur dæmi.

FYRIR stuttu var fjallað í þessum pistli nokkuð um fs.-lið með til, en hann virðist mjög algengur bæði í rituðu máli og talmáli. Um það voru sýnd nokkur dæmi. Hér verða nú rakin fáein dæmi til viðbótar og um leið til áréttingar því, að þetta orðalag er notað um of, enda má finna annað og betra orðfæri. Heyrzt hefur orðalag sem þetta: að skrifa bréf til kúnnanna.

Hér er ýmislegt athugavert. Í fyrsta lagi er þarflaust að tala um kúnna, þó að því verði ekki neitað, að það heyrist alloft í mæltu máli. Hér er auðvitað hrátt tökuorð á ferðinni úr dönsku og öðrum skandinavískum málum.

Viðskiptavinur er vissulega íslenzkulegra orð og fer auðvitað betur og er auk þess öllum auðskilið. Þá fer í þessu sambandi ólíkt betur að tala um að skrifa viðskiptavinunum bréf, enda tekur so. að skrifa með sér þgf. og þf., að skrifa e-m e-ð. Eitt enn úr máli verzlunarmanna. Talað hefur verið um að veita afslætti (ft.) til neytenda tækjanna. Hér er ýmislegt athugunarvert. Í fyrsta lagi fer betur að tala um notendur í þessu sambandi en neytendur og þá að veita notendum tækjanna afslátt.

Máltilfinning mín segir mér, að so. að neyta eigi fyrst og fremst við eitthvað, sem við látum ofan í okkur, og þá að tala um neyzlu og neytendur í því sambandi. J.A.J.