PÁLL Skúlason, rektor Háskóla Íslands, gerði gildi þekkingar í framtíðinni að umtalsefni í ræðu sinni á Háskólahátíð í gær.

PÁLL Skúlason, rektor Háskóla Íslands, gerði gildi þekkingar í framtíðinni að umtalsefni í ræðu sinni á Háskólahátíð í gær. Hvatti hann kandídata til að láta aldrei stundargaman eða stundarþægindi byrgja sér sýn til framtíðar, heldur leggja sig fram um að gera drauminn um íslenskt þekkingarþjóðfélag að veruleika.

Rektor sagði eltingarleik Íslendinga við stundargaman og stundarþægindi síst hafa minnkað á undanförnum árum. Þegar menn hugsuðu aðeins um að njóta stundarinnar ríkti framkvæmda- og neyslugleði en alla fyrirhyggju skorti. Mikilvægt væri hins vegar að velta fyrir sér þjóðfélagi framtíðarinnar.

Páll sagði að framtíð okkar sjálfra yrði að hugsa í tengslum við þau skilyrði sem öllu öðru lífi væru búin á jörðinni. Framtíð lífsins á jörðinni gæti vel verið undir því komin öðru fremur að við temdum okkur að hugsa um heiminn og hag lífveranna sem byggja hann með okkur.

Páll benti á að við hefðum hins vegar áhrif á það hvernig framtíðin mótast, ekki aðeins okkar eigin framtíð heldur framtíð alls lífs á jörðinni. "Að margra dómi gæti hið síbreikkandi bil milli ríkra þjóða og fátækra skapað fyrr eða síðar illleysanleg vandamál," sagði hann. "Þess vegna sé fátt ef nokkuð brýnna en að hefja skipulega viðleitni í þá veru að skipta gæðum heimsins á réttlátari hátt meðal þjóða heimsins. En til að svo megi verða þurfa hinar ríku þjóðir að temja sér annan hugsunarhátt en þann sem ríkt hefur til þessa í samskiptum við fátækari þjóðir."

Ánægjuleg þróun í atvinnulífinu

Páll sagði möguleika okkar á því að hafa áhrif á gang mála í heiminum einkum felast í þekkingu á lögmálum náttúrunnar, á þjóðfélaginu sem við sjálf mótum og þekkingu á sjálfum okkur, getu okkar og takmörkunum. Sagði hann að í sínum huga léki ekki minnsti vafi á að allur þorri almennings og þjóðfélagið í heild myndi í framtíðinni leitast æ meira við að afla sér fræðilegrar þekkingar og nýta hana í lífi og starfi. Hin fræðilega menning, háskólamenningin, hefði þegar sett svip sinn á samfélag allt og mjög ánægjulegt væri að fylgjast með þróuninni í atvinnulífinu þar sem öflug þekkingarfyrirtæki, fyrirtæki sem settu sér það markmið að skapa nýja þekkingu með aðferðum vísindanna, hefðu verið að hasla sér völl.

"Vonandi verða til æ fleiri fyrirtæki af slíkum toga og vafalaust munu líka fyrirtæki í hefðbundnari framleiðslu og rekstri færa sér í nyt vísindalegar aðferðir og taka virkari þátt í þekkingarleitinni en þau hafa gert til þessa. Þá er ljóst að stjórnvöld hljóta að leitast sífellt meira við að gera áætlanir og taka ákvarðanir byggðar á skilningi og fræðilegu mati á þeim kostum sem fyrir hendi eru. Sjálft lýðræðið kallar einnig eftir fræðilegri og gagnrýninni hugsun og rökræðu um alla hagsmuni sem í húfi eru á vettvangi stjórnmálanna," sagði Páll Skúlason háskólarektor.