Konurnar tvær sem sitja á myndinni deila með sér sama manninum. Þær eiga hvor sitt húsið og sjást þau í bakgrunninum. Bak við annað húsið er smáhús sem eiginmaðurinn hefur fyrir sig kjósi hann að vera út af fyrir sig. Hann giftist konunum með nokkurr
Konurnar tvær sem sitja á myndinni deila með sér sama manninum. Þær eiga hvor sitt húsið og sjást þau í bakgrunninum. Bak við annað húsið er smáhús sem eiginmaðurinn hefur fyrir sig kjósi hann að vera út af fyrir sig. Hann giftist konunum með nokkurr
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Á TUTTUGUSTU öld hefur reynt mikið á þjóðskipunina í Austur-Afríku. Í upphafi aldarinnar urðu þjóðirnar þar leiksoppar í nýlendukapphlaupi Evrópuríkja.

Á TUTTUGUSTU öld hefur reynt mikið á þjóðskipunina í Austur-Afríku. Í upphafi aldarinnar urðu þjóðirnar þar leiksoppar í nýlendukapphlaupi Evrópuríkja. En þrátt fyrir nýlendutímabilið, og innanlandsóeirðir er fylgdu í kjölfarið, þar sem ættbálkar kepptust innbyrðist um yfirráðin, hafði það lítil áhrif á undirstöðueiningu þjóðfélagsins, þ.e. fjölskylduna og ættbálkaskipan. Nýlendutímabilinu lauk upp úr 1960, en það var ekki fyrr en í lok aldarinnar sem þjóðir Austur-Afríku virtust vera að ná tökum á ástandinu.

Um það leyti sem Afríka var að rétta úr kútnum reið yfir sú plága sem virðist eiga eftir að hafa afgerandi og ef til vill langvinn áhrif á þjóðir Afríku, alnæmi. Ólíkt því sem gerst hefur í hinum vestræna heimi, þá á alnæmi eftir að gerbreyta grunneiningu þjóðfélagsins víða í Afríku, þ.e. fjölskyldunni og hlutverki hennar í þjóðfélaginu. Þetta hefur verið að gerast undanfarinn áratug.

Fornar hefðir

Til að varpa ljósi á hvernig þessar breytingar eru að gerast er hér á eftir brugðið upp dæmum af háttum og ástandi akuryrkjuþjóða af bantu-ættbálkinum í Austur-Afríku, og fjallað um hvernig alnæmi hefur áhrif á ævaforna hætti þeirra. Dæmigerð fjölskylda á ekki stórt land, oftast innan við tveggja hektara garð eða shamba, og er hver skiki innan hans ræktaður. Mest af uppskerunni fer til eigin þarfa, maís, nýrnabaunir, bananar og fleira. Hluti uppskerunnar er seldur á markaði, og peningarnir sem þannig fást eru notaðir til að kaupa föt, borga skólagjöld og annað sem þarf til fjölskyldunnar. Yfirleitt er lítið eftir af peningum til munaðar. Hver fjölskylda býr á sinni landareign, og standa húsin í þyrpingu í rjóðri í miðjum shambanum. Stutt er til næstu nágranna, því landið er þéttbýlt.

Fjölkvæni er víða tíðkað í Austur-Afríku, og geta þeir sem eru vel efnaðir átt fjölda kvenna. Hver kona hefur sitt hús og land til að afla sér matar. Fyrsta konan hefur alltaf meiri rétt en þær sem á eftir koma. Landið tilheyrir manninum og gengur í erfðir í karllegg, konur geta ekki erft land. Félagslega kerfið byggist upp á því að ef eiginmaður fellur frá þá eiga ættingjar mannsins að sjá konunni og börnum hennar farborða. Samkvæmt gömlum siðum á ekkja að verða eiginkona eins af bræðrum hins látna eiginmanns, að minnsta kosti að nafninu til. Hún getur komist undan þeirri kvöð með því að fara í burtu en þarf þá að skilja börnin sín eftir þar sem þau tilheyra fjölskyldu föðurins.

Hjónabandið

Í Austur-Afríku eru til ferns konar giftingar. Fyrst er að telja hefðbundin, afrísk hjónabönd sem eru enn mjög algeng þrátt fyrir að nýir siðir hafi verið boðaðir alla 20. öldina. Þá eru það trúarleg hjónabönd, bæði að kristnum og múslímskum sið, og að síðustu borgaraleg hjónabönd að vestrænum sið.

Kristnir og borgaralegir hjónabandssáttmálar eru að mestu þeir sömu og við þekkjum frá Vesturlöndum. Það fylgir meðal annars að karlmaður má ekki ganga að eiga nema eina konu í einu, en sá sem játar múhameðstrú getur átt fjórar konur. Samkvæmt fornum, afrískum siðum getur karlmaður átt eins margar konur og hann telur sig geta séð farborða. Hefðbundin afrísk hjónabönd eru venjulega ekki skjalfest. Þar af leiðandi er erfitt að staðfesta hvort maðurinn er lagalega giftur konu/konum samkvæmt fornum, afrískum lögum áður en þeir ganga í trúarlegt eða borgaralegt hjónaband. Það er því ekki óalgengt að karlmaður geti verið giftur einni konu samkvæmt kristnum eða borgaralegum sið, en átt aðrar konur samkvæmt hefðbundnum afrískum giftingalögum. Þegar að erfðamálum kemur er ekki óalgengt að sú konan sem gafst manninum eftir kristnum eða borgaralegum venjum og/eða afkomendur hennar sé rétthærri heldur en hinar eiginkonurnar þegar að skiptingu eigna kemur þar sem aðeins það hjónaband er skráð í bók. Það er því nokkuð skondið að í lögum um hefðbundnar afrískar giftingar er tekið fram að karlmaðurinn má ekki vera giftur konum samkvæmt kristilegum hjónabandslögum.

Talið er að um 33% kvenna búi í viðurkenndu fjölkvænishjónabandi og eru slík hjónabönd mun algengari til sveita en í þéttbýli. Fylgni er á milli menntunar og hjúskaparhátta, þar sem menntaðar konur taka síður þátt í fjölkvænishjónaböndum en ómenntaðar. Rannsóknir sýna að 80% kvenna í Afríku gera ráð fyrir að þær deili mönnum sínum með öðrum konum.

Erfðir

Samkvæmt afrískum siðum erfa konur ekki eiginmenn sína nema gerð hafi verið erfðaskrá, sem er ekki algengt. Meginástæða fyrir því liggur í þjóðarsálinni, en það er staðföst trú margra að ef gerðar eru einhverjar ráðstafanir fyrirfram þá muni það flýta fyrir dauða manna, það jafngildir því að segja "í þínar hendur fel ég minn anda".

Samkvæmt fornum siðum hjá bantu-fólki er algengast að ef eiginmaður fellur frá þá eiga bræður hans og bræðrasynir allan erfðarétt, og uppeldi og umsjá barna hins látna er á ábyrgð föðurfólks þeirra. Einnig er framfærsla ekkjunnar á framfæri fjölskyldu bónda hennar. Tilgangurinn með þessu ráðslagi er tvíþættur, annars vegar að tryggja viðhald ættboga hins látna en hins vegar er þetta almannatryggingakerfi þar sem stórfjölskyldan ber ábyrgð á velferð og aðbúnaði ekkjunnar og barna hennar. Þannig er afkoma hennar tryggð þó svo að hún standi eftir eignalaus við fráfall eiginmannsins.

Á sama hátt og konur geta ekki erft land erfa menn ekki veraldlegan auð konu sinnar nema þeir giftist löglegum erfingja konu sinnar, eins og eftirfarandi saga lýsir:

Móðursystir Önnu dó fyrir nokkrum árum, hún var barnlaus og Anna var næsti erfingi hennar. Það var ekki nóg með að Anna fengi allt það sem móðursystirin hafði átt heldur gat ekkillinn farið fram á það við foreldra Önnu að hún kæmi og tæki alfarið við stöðu látinnar konu sinnar. Anna sem var aðeins 14 ára flutti því til mannsins og þjónaði honum til borðs og sængur. Áður en hann lést höfðu þau eignast tvö börn. Orðin tvítug ekkja með tvö börn þurfti hún að skipuleggja framtíð sína og ákvað að fara í skoðun hjá upplýsinga- og rannsóknastöð í Kampala. Þetta er nýleg heilsugæslustöð, eingöngu fyrir þá sem vilja láta athuga hvort þeir eru HIV/alnæmissmitaðir. Ef svo reynist þá er unnt að fá þar áfallahjálp. Þar kom í ljós að hún var HIV-jákvæð og er hún hafði sagt frá veikindum móðursystur sinnar og eiginmanns lá ljóst fyrir að þau mundu hafa verið með alnæmi. Það kom einnig í ljós við skoðun á börnunum að yngra barnið var einnig HIV-jákvætt. Fyrstu vikurnar á eftir fékk Anna áfallahjálp hjá upplýsingastöðinni, þar sem reynt er eftir megni að aðstoða fólk í gegnum fyrstu vikurnar eftir að það hefur greinst HIV-jákvætt. Að því loknu bauðst Önnu vinna við að aðstoða fólk í gegnum fyrstu viðbrögð þess við að vera HIV-jákvætt. Hún sinnti þessu starfi í tvö ár, þar til hún dó í mars 1999.

Alnæmi

En víkjum nú að því hvernig alnæmi hefur áhrif á þjófélagsskipanina, og veldur röskun á því almannatryggingakerfi sem byggst hefur upp í aldanna rás. Útbreiðsla alnæmis hefur verið langtum hraðari í Afríku en annars staðar. Ólíkt því sem þekkist á Vesturlöndum er algengt að innan sömu fjölskyldunnar deyi allir á barneignaraldri. Eftir lifa eru þeir sem ekki eru orðnir kynþroska eða eru ekki mjög virkir kynferðislega, þ.e. börn og gamalmenni. Það kemur því í hlut afa og ömmu að sjá um barnabörn sín. Þetta gamla fólk getur verið með allt að 10 börn á framfæri sínu, sem segir sig sjálft að erfitt er að sinna sem skyldi þó svo að vilji sé fyrir hendi

Í nokkrum þorpum í Úganda er ekkert eftir af fólki á þeim aldri sem í reynd ætti að sjá heimilunum farborða og reka þjóðfélagið. Á mörgum heimilum er húsráðandi aðeins 13-15 ára gamall unglingur sem sér um nokkur systkini sín og frændsystkini. Börnin alast upp án þeirrar leiðsagnar fullorðinna sem unglingar og börn þurfa til að ná fullum þroska. Þessir unglingar ná í raun ekki að fara í gegnum það aldursskeið að vera unglingar, þau eru stálpuð börn og áður en varir líta þau út eins og gamalmenni, þreytt á sál og líkama. Flest þeirra eiga ekki tök á skólagöngu því þó svo að það eigi að heita að skólaganga sé ókeypis þá fylgir henni ýmis kostnaður sem er fátækum ofviða. Dagur þeirra fer í að reyna að afla sér og sínum viðurværis, hvort heldur það er með því að reyna að rækta ofan í sig, harka út vinnu dag og dag eða betla. Mörg gefast upp á endanum og eyða lengstum hluta dagsins sitjandi undir tré þar sem þau eru í skugga frá heitri sólinni. Þau verða sinnulaus, enda ekki margt sem bíður þeirra, og um 30% þeirra geta gert ráð fyrir að vera HIV-jákvæð.

Nýja neyðin

Ekkert þjóðfélag getur til lengdar staðist þá raun sem margar þjóðir Afríku upplifa án þess að veruleg röskun verði á þjóðfélagsþáttum. Hinn mikli fjöldi ekkna og munaðarlausra barna hefur sligað það kerfi sem átti að tryggja afkomu þeirra, stórfjölskyldurnar hafa firrt sig ábyrgð vegna þess að vandinn er þeim um megn.

Mun algengara er að verða að ekkjur hrekist í burtu frá heimilum sínum. Fjölskylda eiginmannsins hefur ekki bolmagn til að taka við framfærslu munaðarleysingjanna þar sem flest fólk á vinnualdri er fallið frá. Konurnar flytja því aftur heim til föðurhúsanna, oftast með börnin með sér. Þar hafa þær takmarkaðan rétt því í reynd tilheyra þær ekki lengur sinni gömlu fjölskyldu og eiga ekki erfðarétt né tilkall til afnota af landi til þess að sjá sér farborða. Með því að flytja syni burt af föðurfleið sinni er hætta á að þeir missi af erfðarétti sínum. Þessi vandi hefur allur magnast nú þegar svo margir deyja úr alnæmi. Það hefur skapast glundroði sem verður til þess að eignarréttur riðlast og gamla tryggingakerfi fjölskyldunnar stendur ekki undir sér lengur.

Forvarnir og aðstoð

Í Úganda hefur ástandið í alnæmismálum verið tekið mjög föstum tökum. Margvísleg knýjandi verkefni eru í gangi, bæði á vegum hins opinbera sem og einkaaðila. Frá 1985 hafa starfshópar, t.d. á vegum The AIDS Support Organisation (TASO), unnið við að aðstoða HIV-jákvæða að komast í gegnum fyrstu skref þess að lifa jákvæðu lífi með alnæmi, og í framhaldi af því komið á legg mjög skeleggu forvarnarstarfi. Er greinarhöfundur vann við rannsóknir á aðstöðu munaðarlausra barna vegna alnæmis árið 1999 í þorpinu Kitetika í Úganda bar almenningi þar saman um að TASO ynni árangursríkt, menntandi og gott starf við uppfræðslu og aðstoð við almenning.

Á Nsambya-sjúkrahúsinu í Kampala er hópur sem veitir alnæmissjúklingum aðstoð á heimilum sínum. Í þessu hópstarfi, sem hefur gefist mjög vel, taka þátt heilsugæslufólk, félags- og sálfræðingar auk þess sem lögfræðiaðstoð er veitt. Þessi aðstoð hefur dregið mjög úr ásókn alnæmissmitaðra á sjúkrahúsin og hægt hefur verið að upplýsa alla í fjölskyldunni um sjúkdóminn, og draga þannig úr því álagi sem leggst á alla fjölskylduna, bæði fjárhaldslega og félagslega. Þegar að lokastundinni kemur eru sjúklingar aðstoðaðir við að mæta dauða sínum með virðingu.

Sett hefur verið á fót sérstök deild fyrir börn, bæði þau sem eru með alnæmi og þau sem eiga alnæmissmitaða foreldra. Börn og unglingar hafa auk áðurnefndrar aðstoðar fengið kennslu í næringarfræði og annarri heilsuvernd svo þau geti á sem bestan hátt séð um sig sjálf þegar þar að kemur. Nýjasta verkefni Nsambya-sjúkrahússins í Kampala er það sem þeir kalla "memory project" eða minningavarsla. Verkefnið felst í því að vinna með alnæmissmituðum mæðrum við að hjálpa börnum sínum við að kynnast sögum fjölskyldunnar og ættar sinnar þar sem þær gera ekki ráð fyrir að lifa svo lengi að þessi þekking flytjist eðlilega áfram.

Nýjum tilfellum fækkar

Í dag fækkar nýjum HIV-tilfellum en þrátt fyrir það er ennþá stór hópur HIV/alnæmissmitaðs fólks sem þarf á aðstoð að halda og mun deyja á næstu árum og skilja eftir fjölda munaðarlausra barna. Vegna aukinnar uppfræðslu og þekkingar á alnæmi fjölgar þeim sem láta athuga hvort þeir eru sýktir, sem leiðir til þess að auðveldara er að meðhöndla og aðstoða fólkið á fyrstu stigum sjúkdómsins. Þessi vakning gerir það að verkum að nú er vitað um fleiri sýkt börn en áður var og því er hægara að sjá til þess þau fái alla hugsanlega uppfræðslu. Þó svo að gott verk sé unnið á þeim fjölmörgu stofnunum sem sinna börnunum, þá geta þær ekki aðstoðað nema um 30% þeirra sem á aðstoð þyrftu að halda, aðallega vegna fjárskorts.

Samhjálpin

Það að vera munaðarlaus var þar til fyrir um 10-15 árum óþekkt fyrirbæri fyrir barn í Afríku. Stórfjölskyldan sá um sína, svo það var alltaf pláss fyrir aukabarn. Nú er fjöldi þeirra foreldra sem deyja frá ungum börnum svo mikill að þetta félagskerfi hefur fallið um sjálft sig. Stofnanir á vegum hins opinbera hafa ekki reynst vel til að mæta þessum mikla vanda. Sú lausn sem hefur gefið hvað besta raun er að aðstoða þær fjölskyldur sem taka að sér munaðarlaus börn. Í hverju þorpi eða sveitarfélagi er komið á samhjálp þar sem borgararnir aðstoða þessi heimili, en það mun vera munaðarlaust barn á þriðja hverju heimili í Úganda.

Kitetika

Í þorpinu Kitetika rétt utan við Kampala, höfuðborg Úganda, er rekið heimili fyrir HIV-jákvæðar ekkjur. Þar eru í dag 6 konur með 32 börn. Upphaflega var hugmyndin að koma upp stað fyrir ekkjur af völdum alnæmis sem hvergi áttu samastað eftir að ættingjar eiginmannanna höfðu hrakið þær frá heimilum sínum, stað þar sem þær fengju aðstoð við að koma undir sig fótunum að nýju. Það hefur hins vegar reynst erfitt að senda konurnar í burtu aftur, flestar eru þær HIV-jákvæðar og eiga hver um sig 2-4 börn og eru sum hver einnig HIV-jákvæð. Rekstri heimilisins hefur því verið breytt í það form að konurnar sjá nú um munaðarlaus börn sem á einn eða annan hátt hafa komið á heimilið. Hver kona hefur fengið tvö herbergi fyrir sig og þau börn sem hún sér um, og á þann hátt getað haldið uppi eðlilegu heimilislífi fyrir sig og sín börn auk fósturbarnanna.

Skólinn

Í Kitetika er rekinn 800 barna skóli, og taka ekkjurnar í Kitetika þátt í rekstri skólans, bæði kennslu og öðru því sem skólareksturinn krefst. Börnin í skólanum fá tvær máltíðir á dag, og er fæðunnar aflað með samvinnu kvennanna í þorpinu. Þær leggja til alla vinnu við að rækta mat fyrir börnin í skólanum. Auk þess fá ömmur með mörg börn á framfæri sínu reglulega mataraðstoð frá samvinnu kvennanna.

Heilsugæsla

Í tengslum við skólann er rekin lítil sjúkrastofa, þar sem börnin og starfsfólkið fá hjúkrun og lyf. Auk þess geta aðrir þorpsbúar komið þar gegn greiðslu. Börnin eru hvött til að koma þangað með minnstu skrámur, en mörg þeirra eru HIV-jákvæð og þarf því að hugsa sérstaklega vel um heilsu þeirra, en því betri umönnun sem þau fá því auðveldara er að halda þeim heilbrigðum. Þau börn sem þurfa að vera á lyfjum í einhvern tíma eru látin koma á sjúkrastofuna til að taka lyfin. Er það gert vegna þess að aðstandendur þeirra kunna oft ekki að lesa, og vita því ekki hvernig börnin eiga að taka lyfin, og eins verða mörg börn veik í maga við lyfjatökuna, þar sem þau fá ekki næga fæðu til að takast á við lyfjagjöfina og hætta þá að taka lyfin.

Styrktaraðilar

Flest börnin í skólanum eru munaðarlaus en til þess að geta stunda nám í skólanum þurfa þau að hafa stuðningsaðila sem greiða um 1.000 krónur á mánuði. Auk kennslunnar dugar þessi fjárhæð til að fá öll skólagögn og skólaföt, heilsugæslu og mat tvisvar á dag. Í dag greiða 800 Íslendingar með börnum í Úganda, í gegnum ABC-hjálparstarf.

Þetta form þar sem grasrótin og þróunaraðstoðin taka höndum saman á vaxandi fylgi að fagna í Austur-Afríku. Rannsóknir sýna að umsjónarmenn barna, sem aðallega eru konur, telja ekki eftir sér að sjá um börnin ef þær fá fjárhagslega aðstoð til að mennta þau og koma þeim til manns. Áhersla er lögð á að börnin alist upp á heimaslóðum í því menningarlega umhverfi sem þau eru sprottin úr.

Höfundur er mannfræðingur og bjó í 10 ár í Kenýa og Úganda.