169 manns fórust og tíu komust lífs af þegar farþegaþota af gerðinni Airbus 310 hrapaði í Atlantshafið úti fyrir Fílabeinsströndinni á sunnudagskvöld.

169 manns fórust og tíu komust lífs af þegar farþegaþota af gerðinni Airbus 310 hrapaði í Atlantshafið úti fyrir Fílabeinsströndinni á sunnudagskvöld. Kafarar fundu "svörtu kassana" svokölluðu, hljóðrita og flugrita þotunnar, á 50 m dýpi um 1,5 km frá flugvellinum í Abidjan á föstudag. 86 lík hafa fundist en 83 er enn saknað. Þotan var í eigu Kenya Airways og talsmenn flugfélagsins sögðu að ekkert væri vitað um orsakir slyssins og ekki væri vitað til þess að bilun hefði orðið í þotunni.

Rúmum sólarhring síðar steyptist þota Alaska Airlines af gerðinni MD-83 í sjóinn um 32 km frá alþjóðaflugvellinum í Los Angeles. 88 manns voru í þotunni og voru allir taldir af.

Flugriti þotunnar fannst á 210 m dýpi á hafsbotninum á fimmtudagskvöld og dvergkafbátur hafði áður fundið hljóðritann.

Nokkrum mínútum áður en þotan hrapaði hafði flugmaður hennar óskað eftir heimild til að nauðlenda henni vegna bilunar í hæðarstýriskambi, hreyfanlegu vængildi í stéli þotunnar sem hjálpar flugmönnum að halda henni stöðugri og hækka eða lækka flugið.

Umdeild stjórn í Austurríki

THOMAS Klestil, forseti Austurríkis, staðfesti á föstudag myndun nýrrar ríkisstjórnar Þjóðarflokks austurrískra íhaldsmanna og hins umdeilda Frelsisflokks þrátt fyrir hávær andmæli víða um heim og viðvaranir Evrópusambandsins, sem hótaði Austurríki pólitískri einangrun ef Frelsisflokkurinn kæmist til valda. Jörg Haider, leiðtogi Frelsisflokksins, hefur verið sakaður um að hafa gert lítið úr glæpum nasista.