STRÍÐ og friður, eitt þekktasta verk rússneskrar bókmenntasögu, er nú fáanlegt í nýrri og styttri útgáfu sem er ekki nema um 800 síður að lengd.

STRÍÐ og friður, eitt þekktasta verk rússneskrar bókmenntasögu, er nú fáanlegt í nýrri og styttri útgáfu sem er ekki nema um 800 síður að lengd.

Dagblaðið Moscow Times sagði útgáfuna vera fyrstu drög Leo Tolstoys að Stríði og friði, sem hann síðar lengdi og endurskrifaði áður en hún var gefin út. Bókin hefur lengi verið misvinsæl skyldulesning rússneskra skólabarna sem hafa þurft að stauta sig í gegnum 1.600 síðna skáldverk, gjarnan sem hluta af lokaprófi. En Stríð og friður veitir yfirgripsmikla mynd af rússnesku þjóðfélagi og hruni þess á tímum Napóleonsstríðanna 1812.

Ígor Zakharov, útgefandi nýju bókarinnar, sagði hana taka hefðbundnu útgáfunni fram. Hún væri styttri, það væru færri bardagasenur í henni og þess utan væri endirinn betri. "Þetta er ósvikinn Tolstoy sem er hrein ánægja að lesa. Ég skil bara ekki hvernig við gátum haldið áfram að lesa hefðbundnu útgáfuna," sagði Zakharov.

Þessi útgáfa bókarinnar er að sögn Moscow Times sett saman úr bréfum Tolstoys frá því í byrjun níunda áratugar nítjándu aldarinnar. Viðbrögð fræðimanna við bókinni hafa þó verið misjöfn og segja sumir hana meinlausa á meðan aðrir draga í efa að um nákvæma endurgerð fyrstu útgáfu bókarinnar sé að ræða.