Sveinn H. Skúlason
Sveinn H. Skúlason
Eiga þeir aðilar sem eru í rekstri hjúkrunarheimila í dag að taka því öllu lengur, spyr Sveinn H. Skúlason, að viðvarandi taprekstur sé að eyða eigin fé þeirra?

Nýtt hjúkrunarheimili

Hinn 19. janúar sl. var viðtal við Ögmund Jónasson alþingismann í fréttatíma Ríkisútvarpsins um þá ákvörðun heilbrigðisráðuneytisins að semja við Securitas/Verkafl um byggingu og rekstur nýs hjúkrunarheimilis. Í framhaldinu var rætt við Guðmund Hallvarðsson, formann Sjómannadagsráðs, en það á og rekur Hrafnistuheimilin, og Davíð Á. Gunnarsson ráðuneytisstjóra heilbrigðisráðuneytisins. Þar sem þessi umræða tengist mjög þeim fyrirtækjum sem við Guðmundur erum í forystu fyrir sé ég mig knúinn til að skýra nánar frá því hvernig þessi mál líta út frá okkar sjónarhóli. Sem fyrr segir tilkynnti heilbrigðisráðuneytið nýverið að stefnt væri að því að semja við Securitas um rekstur 90 rýma hjúkrunarheimilis við Sóltún í Reykjavík. Þessi tilkynning kom þeim sem vinna að málefnum aldraðra mjög á óvart og ekki síst þegar fréttir fóru að berast um þau daggjöld sem greidd skyldu fyrir þjónustuna og einnig vegna þess að í útboði sem farið hafði fram var miðað við 60 rýma hjúkrunarheimili. Í febrúar 1999 var auglýst eftir aðilum sem vildu taka þátt í forvali vegna útboðs á byggingu og rekstri 60 rýma hjúkrunarheimilis í Reykjavík. Þegar upp var staðið voru það þrír aðilar sem tilkynntu vilja til þátttöku. Það voru Hrafnista/Sjómannadagsráð, Nýsir/Ístak og Securitas/Verkafl. Allir þessir aðilar voru metnir hæfir. Fulltrúar þessara fyrirtækja og fulltrúar heilbrigðisráðuneytis og Ríkiskaupa hittust á nokkrum fundum til undirbúnings útboðsins. Var það mjög eðlileg framvinda því aldrei hafði áður verið staðið að útboði sem þessu á Íslandi. Þegar útboðsgögnin voru afhent kom í ljós að eitt af skilyrðunum fyrir þátttöku væri að stofna yrði sérstakt fyrirtæki um rekstur þessa hjúkrunarheimilis. Ekki mætti nýta sér stoðdeildir ef heimilið yrði reist á lóð hjúkrunarheimilis sem væri í fullum rekstri. Selja bæri alla þjónustu sem þar færi á milli á sannanlegu markaðsverði. Þetta þýddi að Hrafnista gat ekki nýtt sér hagkvæmni þess að hafa eldhús í næsta húsi, sameiginlegan hjúkrunarforstjóra, launadeild, byggingadeild, sjúkraþjálfun, þvottahús, sérstök stjórn yrði að vera fyrir hjúkrunarheimilið og áfram mætti lengi telja. Gera yrði reikning fyrir allri þjónustu sem færi frá húsi A (gömlu Hrafnistu) yfir í hús B (nýja hjúkrunarheimilið). Þessu fyrirkomulagi hefði fylgt gríðarleg skriffinnska og að auki hefði þurft að leggja virðisaukaskatt á alla reikninga sem hefði einfaldlega þýtt hærri daggjöld. Hrafnista ætlaði að taka þátt í þessu útboði til að auka þjónustu sína og auka hagkvæmni í rekstri með samnýtingu stoðdeilda. Mat okkar á fyrrnefndum skilyrðum í útboðinu var að þessi markmið okkar næðust ekki og því ákvað Hrafnista að hætta við þátttöku í útboðinu.

Benda má á að Hrafnista var búin að láta gera frumdrög að 60 rýma hjúkrunarálmu á lóð Hrafnistu í Laugarási og grenndarkynning hafði farið fram án athugasemda um mitt ár 1998. Ef samið hefði verið við Hrafnistu á þeim tímapunkti væri verið að opna nýja hjúkrunarálmu við Hrafnistu í Reykjavík um þessar mundir. Heilbrigðisráðuneytið valdi aðra leið, leið sem seinkar opnum nýs heimils um allt að þrem árum. Og það mitt í allri bráðaþörfinni. Rétt er að benda á að nú bíða 170 einstaklingar metnir í brýnni þörf eftir hjúkrunarplássi hér í Reykjavík. Einnig eru 169 aðilar metnir í brýnni þörf fyrir vist á dvalarheimili. Með byggingu þessa nýja heimilis er vandinn hvergi nærri leystur.

Daggjöld hjúkrunarheimila

Frá því að daggjaldanefnd var lögð niður 1990 hefur heilbrigðisráðuneytið ákvarðað daggjöldin einhliða. Þeir sem standa í þessum rekstri hafa haldið því fram að allt að 9% halli hafi myndast á þessum tíma. Hrafnista í Laugarási fékk í sjúkradaggjöld árið 1999 kr. 7.800 á sólarhring. Það er skilgreining heilbrigðisráðuneytisins að daggjöld eigi að duga fyrir rekstri heimilanna og miðað sé við að enginn hagnaður sé af rekstrinum. Það kom í ljós fljótlega á síðasta ári að þessi daggjöld dygðu Hrafnistu engan veginn. Launahækkanir höfðu orðið miklar í heilbrigðisgeiranum og voru þær fyrst og fremst orsök hallans ásamt þeirri skekkju sem hafði myndast frá 1991. Á árinu tókst með miklu aðhaldi að halda öðrum rekstrarkostnaði í skefjum. Í aukafjárlögum voru veittar kr. 60,5 milljónir til Hrafnistu í Laugarási til að leiðrétta þann rekstrarhalla sem var fyrirsjáanlegur. Hvergi hefur annað komið fram en að einungis var verið að bæta rekstrarhalla ársins 1999 og rétt er hjá ráðuneytisstjóranum að fullt tillit var tekið til þeirra talna er Hrafnista sendi Ríkisendurskoðun. Eftir að aukafjárlögin höfðu bæst við urðu sjúkradaggjöld vegna ársins 1999 kr. 8.492. Í fyrrnefndu útvarpsviðtali segir ráðuneytisstjóri heilbrigðisráðuneytisins að í fjárlögum hafi uppsafnaður 9% rekstarvandi verið leiðréttur. Þar með var þá loksins viðurkennt opinberlega að sá vandi hafi verið fyrir hendi. Þar sem sú viðkenning er nú komin hjá ráðuneytinu skyldi maður ætla að tekið yrði tillit til þess í ákvörðun sjúkradaggjalda vegna ársins 2000. Nú þegar þessar línur eru skrifaðar hafa daggjaldastofnanir enn ekki fengið staðfestar upplýsingar frá ráðuneytinu um hver daggjöldin verði árið 2000. Það hefur gert daggjaldastofnunum mjög erfitt fyrir við að áætla rekstur sinn fyrir líðandi ár. Óstaðfestar fregnir hafa þó borist frá starfsmönnum heilbrigðisráðuneytisins um að daggjöld Hrafnistu í Laugarási verði kr. 8.550 vegna ársins 2000. Þar sé búið að reikna inn 3% launahækkun sem varð um síðustu áramót og vegur hjá okkur um kr. 140 á hvern legudag. Sem þýðir að ef bera á saman daggjöld ársins 1999 og 2000 LÆKKA gjöldin úr kr. 8.492 í kr. 8.440. Svo er sagt að búið sé að leiðrétta 9% rekstrarhalla. Heyrst hefur úr ráðuneytinu að ástæðan sé lágt RAI-mat (mat á hjúkrunarþyngd) á Hrafnistu í Laugarási. Menn hafa verið að þróa sig áfram með RAI-matið. Þeir sem framkvæma matið hafa verið að læra á aðferðafræðina og skekkjur hafa víða komið fram. Við gerð matsins 1998 komu fram afgerandi skekkjur hjá Hrafnistu í Laugarási og var ráðuneytinu strax tilkynnt að svo væri. Ráðuneytið ákveður síðan skyndilega í lok árs 1999 að miða við matið frá 1998 við ákvörðun daggjalda ársins 2000. Það hafði enginn hugmynd um að RAI-mat þess árs yrði grunnur að daggjöldum og allir litu á að verið væri að vinna þróunarvinnu til að allt yrði tilbúið þegar RAI-matið yrði endanlega tekið í notkun.

Hver er framtíðin?

Í upphafi sagði ég að menn væru undrandi á því sjúkradaggjaldi sem nýju heimili verður greitt. Miðað við vísitölu í ágúst 1999 eru það kr. 11.880 vegna rekstrar og kr. 2.420 vegna húsnæðis, eða kr. 14.300 samtals. Ég er alls ekki að segja að þeir hjá Securitas séu ofsælir af þessum upphæðum. Gagnrýni okkar beinist ekki að þeim. Við vitum að þar eru hæfir menn í forystu og bjóðum þá velkomna í þann samhenta hóp sem starfar að rekstri hjúkrunar og elliheimila. Gagnrýni okkar beinist að því hvernig heilbrigðisráðuneytið vinnur sína vinnu. Með því að bjóða rekstur og byggingu út á almennum markaði mátti vera ljóst að einkafyrirtæki sem tækju þátt í slíku útboði myndu krefjast a.m.k. 10-12% arðsemi fjárfestingar. Sem fyrr segir miðast daggjöld þeirra stofnana sem eru í rekstri í dag við að arðsemi sé engin. Því vaknar sú spurning þegar heilbrigðisráðuneytið velur þessa nýju leið hvort það sé ekki siðferðisleg skylda ráðuneytisins að tryggja öðrum hjúkrunarheimilum a.m.k. jafnvægi í rekstri hafandi í huga að rekstur nýja heimilisins kostar allt að 67% meira pr. legudag en hjá þeim hjúkrunarheimilum sem fyrir eru. Eiga þeir aðilar sem eru í rekstri í dag að taka því öllu lengur að viðvarandi taprekstur sé að eyða eigin fé þeirra?

Í lokin skal það tekið fram að stjórnendur Hrafnistuheimilanna hafa átt mjög gott samstarf við starfsmenn heilbrigðisráðuneytisins. Því urðu það okkur mikil vonbrigði þegar Davíð Á. Gunnarsson sagði eftirfarandi í viðtali við Ríkisútvarpið hinn 21.1. sl. "Þannig að ef menn ætluðu til dæmis að nýta hagkvæmni fyrirliggjandi þjónustueininga eins og eldhúss og annars slíks yrðu menn að gera grein fyrir því á hvaða verðlagi eldhúsin voru að selja þjónustu. Annars hefði auðvitað verið ákveðin hætta á því að í svona samkeppni hefðu menn einfaldlega undirboðið verð og síðan leitað eftir því að fá bættan hallann með öðrum leiðum hjá ríkisvaldinu." Með þessum orðum sínum gaf hann í skyn að Hrafnista væri líkleg til að vinna á þann hátt. Ekki gat hann átt við aðra. Þetta finnst okkur vera ómakleg ávirðing. Við héldum að Hrafnista ætti ekki inni þvílíka sendingu eftir áralangt samstarf við heilbrigðisráðuneytið. Við töldum reyndar að það hefði verið til að gæta jafnræðis milli bjóðenda sem skilyrðin voru sett. Við gátum sætt okkur við þau rök. Fyrrnefnd ummæli ráðuneytisstjórans breyta þó ekki þeirri skoðun okkar að í heilbrigðisráðuneytinu sé yfirleitt mjög hæft fólk sem vinnur fáliðað erfið störf í stærsta ráðuneytinu. Við viljum eiga áfram gott samstarf við þessa aðila, enda eru það sjaldnast þeir sem ráða stefnumörkuninni.

Höfundur er forstjóri Hrafnistuheimilanna.