SALA á nýjum, sjö sæta Suzuki hefst síðla næsta sumars og er sagt að þarna verði á ferðinni einhver mesti lúxusjeppi sem sögur fara af.

SALA á nýjum, sjö sæta Suzuki hefst síðla næsta sumars og er sagt að þarna verði á ferðinni einhver mesti lúxusjeppi sem sögur fara af. Líklegt þykir að bíllinn fái heitið Grand Vitara Long Wheelbase en hann var sýndur sem hugmyndabíll á bílasýningunni í Detroit í síðasta mánuði.

Bíllinn er á lengri gerð undirvagns Grand Vitara og stefnir framleiðandi að því að geta boðið hann á umtalsvert lægra verði en Mitsubishi Pajero, sem verður helsti keppinauturinn.

Suzuki segir að munaðurinn í nýja bílnum felist ekki síst í mjúkum leðursætum, sem verða staðalbúnaður á sumum mörkuðum, þremur sætaröðum og sjálfstæðri miðstöð fyrir afturrými. Bíllinn verður 4.620 mm langur með 2.799 mm hjólhafi og því um 4,2 sm lengri en Grand Vitara, sem nægir til að koma fyrir þriðju sætaröðinni. Til að auðvelda aðgengi að aftasta sætabekknum og til þess að hámarka farangursrýmið verður miðjubekkur á sleða svo hægt verður að færa hann fram og aftur. Bíllinn verður með 2,7 lítra, V6 vél sem er að grunnupplagi sú hin sama og 2,5 lítra vélin í Grand Vitara, en 20 hestöflum aflmeiri, samtals 190 hestöfl.