netbanki.is
netbanki.is
GERA má ráð fyrir að um 35% virkra viðskiptavina Íslandsbanka hafi nú aðgang að netbanka Íslandsbanka, netbanki.is eða isbank.is , að sögn Hauks Oddssonar, framkvæmdastjóra upplýsingatæknisviðs Íslandsbanka. Aðgangsorð notenda eru orðin tæplega 17.

GERA má ráð fyrir að um 35% virkra viðskiptavina Íslandsbanka hafi nú aðgang að netbanka Íslandsbanka, netbanki.is eða isbank.is, að sögn Hauks Oddssonar, framkvæmdastjóra upplýsingatæknisviðs Íslandsbanka. Aðgangsorð notenda eru orðin tæplega 17.000 og framkvæmdar eru um 600 þúsund færslur á mánuði á netbanki.is, að sögn Hauks.

Hann segir að Íslandsbanki hafi tekið fyrstu skrefin út á Netið 1995 með upplýsingavef. "Um mitt ár 1996 kynntum við fyrsta netbankann, sem eftir því sem mér skilst, var einn af 100 fyrstu netbönkum í heiminum. Í fyrstu gátu menn eingöngu nálgast upplýsingar um færslur. Í desember 1997 höfðu öryggismálin á Netinu þróast svo mikið að við treystum okkur til að opna fyrir færslur á Netinu. Síðan hefur stöðugt og reglubundið verið aukið við þjónustuna á Netinu."

10-20% aukning á mánuði

Haukur segir undirtektir viðskiptavina hafi verið góðar og batnandi í takt við aukið þjónustuframboð. Nú séu tæplega 17.000 viðskiptamenn með aðgang að netbanka Íslandsbanka og þessi hópur framkvæmi um 600.000 aðgerðir á mánuði. "Síðustu misserin hefur orðið gríðarleg aukning; 10-20% á mánuði. Fyrir ári voru aðgerðirnar 200 þúsund á mánuði," segir hann. Þótt aðgangsorðin séu nú um 17.000 segir Haukur að notendur séu í raun mun fleiri því í mörgum tilfellum samnýti hjón sömu tenginguna og hafi jafnvel aðgang að reikningum barna sinna.

Um það hve stórt hlutfall viðskiptavina Íslandsbanka noti netbanka Íslandsbanka giskar Haukur á að hlutfall þeirra, sem hafa aðgang, nálgist 35% af virkum viðskiptavinum. "Þetta hlutfall hjá okkur er með því allra hæsta sem þekkist," segir hann.

Þrátt fyrir þessa útbreiðslu leggur Haukur áherslu á að við séum enn á upphafsstigi netviðskiptanna. Hann telur að enn séu möguleikar netviðskiptanna í bankaþjónustu vanmetnir, þótt reynt sé að gera þeim hátt undir höfði. "Eðli bankastarfsemi er þannig að hún fellur vel að Netinu," segir Haukur. "Það er fátt sem við gerum, sem ekki er hægt að útfæra á Netinu. Við sjáum sífellt flóknari þjónustuþætti flytjast yfir á Netið. Nýleg dæmi um þjónustu, sem veitt er á Netinu, eru kaup á verðbréfum og breytingar á yfirdráttarheimildum. Fyrir skömmu þurfti að bíða í biðröð til þess. Almennt er þróunin í þá átt að fleiri viðskiptavinir eru að nýta sér þann kost að láta bankann sjá um hlutina fyrir sig með greiðsluþjónustu og slíku en viðskiptavinurinn notar Netið til að fylgjast með því hvað er verið að gera fyrir hann. Almennum fyrirspurnum fjölgar meira en færslum því enn þora sumir ekki að framkvæma færslur sjálfir. En það er örstutt í að fólk geti stundað öll sín fjármálaviðskipti í gegnum Netið nema flóknari ráðgjöf sem útibúin ein geta veitt."

Greiðslumiðlun skammt á veg komin

Um markmið bankans varðandi aukna netvæðingu viðskiptanna næstu misserin segist Haukur líta á markvissa hagnýtingu Netsins sem eina af meginforsendum góðs árangurs í framtíðinni "Án þess að segja of mikið frá því sem við höfum á prjónunum er ljóst að á markaðinn eru að koma alls konar tengingar við Netið, lófatölvur, farsímar, sjónvörp og fleira. Við sjáum fram á að geta innan skamms boðið fólki að sinna öllum sínum bankaviðskiptum hvar sem er og hvenær sem er. En á hitt ber að líta að greiðslumiðlun á Netinu almennt er komin skammt á veg og þar eru ýmis verkefni sem þarf að leysa."

Spurður um áhrif netvæðingar á bankakerfið, bankaþjónustuna og útibúanetin segir Haukur að þrátt fyrir netvæðingu hafa bankar ekki verið að loka útibúum sínum. Umsvifin hafi aukist um 15-20% á ári án þess að útibúum og starfsfólki hafi fjölgað að sama skapi. "Það er Netið og önnur sjálfsafgreiðsla og sjálfvirkni sem hefur skilað þessum árangri," segir hann. "Til lengri tíma litið verða áhrifin örugglega mikil á bankakerfið. Útibúin eru að breytast úr afgreiðslustöðum í miðstöðvar flóknari afgreiðslu og ráðgjafaþjónustu á sviði fjármála. Sú þróun mun halda áfram," segir Haukur. "Þá má ekki gleyma því að vegna Netsins er auðveldara fyrir Íslendinga nú að sækja bankaþjónustu til útlanda þótt greiðslumiðlun milli landa þurfi að verða hraðvirkari og skilvirkari áður en fólk fer að gera það í miklum mæli. Áhrifa þess mun gæta í báðar áttir," segir Haukur og í samtalinu kemur fram að þessi alþjóðavæðing feli ekki síður í sér tækifæri en ógnun fyrir íslenska bankakerfið. Vegna hins háa vaxtastigs megi allt eins búast við því að erlendir viðskiptavinir leiti til íslenskra banka.

Framleiðniaukning

Varðandi áhrif netvæðingarinnar á rekstrarkostnað Íslandsbanka segir Haukur að mikil framleiðniaukning hafi átt sér stað í bankakerfinu undanfarin ár. "Þótt erfitt sé að eyrnamerkja aukninguna einstökum aðgerðum og framkvæmdum má með nokkurri vissu eigna netvæðingunni þetta að verulegu leyti. Það á líka við um aukna hagkvæmni í rekstrinum almennt. Það er ljóst að það er miklu ódýrara að afgreiða viðskiptavin yfir Netið. Eftir því sem fleiri nýta sér það verður kostnaðurinn við starfsemina minni."

Haukur segir að aldrei hafi verið farið út í að mæla nákvæmlega muninn á kostnaðinum við afgreiðslu í gegnum Netið borið saman við hefðbundna afgreiðslu.

Um framtíð hefðbundinnar bankaþjónustu í dreifðum byggðum og áhrif netvæðingarinnar á rekstur útibúa segir Haukur að það gefi augaleið að Netið nýtist á fáum stöðum betur en í hinum dreifðu byggðum. "Það er liðin tíð að menn þurfi að keyra tugi eða hundruð kílómetra til þess eins að borga reikning í banka. Netvæðingin mun eflaust verða til þess að þörfin og hagkvæmni þess að reka útibú á mjög dreifbýlum svæðum mun minnka. Þó má ekki gleyma því að áfram verður mikilvægt fyrir banka að dekka ákveðin landsvæði og áfram verður þörf fyrir ráðgjöf og mannleg samskipti í þjónustunni."

Haukur vill hins vegar leggja áherslu á að með netvæðingunni batni þjónustan við fólk úti á landi, ekki síður en við aðra, hvað sem framtíð útibúanna líður.