[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Conor Byrne hefur tekið við starfi forstöðumanns á viðskiptaþróunarsviði. Conor lauk M.A.-prófi í stjórnmálafræði, heimspeki og hagfræði frá Oxford-háskóla árið 1989 og M.B.A.-prófi frá London Business School 1994. Frá 1994 til 1997 starfaði Conor hjá C.
Conor Byrne hefur tekið við starfi forstöðumanns á viðskiptaþróunarsviði. Conor lauk M.A.-prófi í stjórnmálafræði, heimspeki og hagfræði frá Oxford-háskóla árið 1989 og M.B.A.-prófi frá London Business School 1994. Frá 1994 til 1997 starfaði Conor hjá C.D.C. Development Bank, og síðan hjá Seagram, sem viðskiptaþróunarstjóri, þar til hann hóf störf hjá ÍE í september sl. Eiginkona Conors er Helga Valfells forstöðumaður ráðgjafarsviðs hjá Útflutningsráði og eiga þau einn son.

Guðlaugur Stefán Egilsson hefur tekið til starfa sem hugbúnaðarhönnuður í lífupplýsingadeild. Guðlaugur lauk B.Sc.-prófi í tölvunarfræði frá HÍ árið 1996 og M.Sc.-prófi í tölvunarfræði frá háskólanum í Skövde árið 1999. Frá 1995 starfaði Guðlaugur sem forritari hjá TölvuMyndum ehf., með hléi árið 1997-1998, vegna náms í Svíþjóð, þar til hann hóf störf hjá ÍE.

Arnaldur Gylfason hefur hafið störf sem hugbúnaðarhönnuður í lífupplýsingadeild. Hann lauk Cand. Scient.-prófi í vélaverkfræði frá Háskóla Íslands árið 1997, og hefur m.a. starfað hjá vöruþróunardeild Marels hf. og Verkfræðistofnun H.Í.

Guðmar Þorleifsson hefur tekið við starfi sérfræðings í tölfræðideild. Guðmar lauk B.Sc.-prófi í eðlisfræði frá Háskóla Íslands árið 1987, Cand. Scient.-prófi í eðlisfræði frá Kaupmannahafnarháskóla árið 1991 og Ph.D. í háorkueðlisfræði árið 1994, frá sama skóla. Árin 1994 til 1996 starfaði Guðmar sem sérfræðingur við University of Syracuse í Bandaríkjunum, og síðan við rannsóknir við Bielefeld University í Þýskalandi, þar til hann hóf störf hjá ÍE.

Guðrún Margrét Jónsdóttir hefur tekið við starfi sérfræðings í tölfræðideild. Guðrún lauk B.Sc.-prófi í eðlisfræði frá University of London og M.Sc. í eðlisverkfræði frá Álaborgarháskóla. Guðrún starfaði áður við kennslu í eðlisfræði og stærðfræði, við menntaskóla og háskóla í Danmörku, og síðan sem verkfræðingur við ísótópadeild Sjúkrahúss Álaborgar, þar til hún hóf störf hjá ÍE. Eiginmaður Guðrúnar er Hörður Ragnarsson tölvuverkfræðingur og eiga þau tvö börn.

Harpa Rúnarsdóttir hefur tekið til starfa sem sérfræðingur í tölfræðideild. Harpa lauk B.Sc.-prófi í stærðfræði frá Háskóla Íslands árið 1992 og M.Sc.-prófi í læknisfræðilegri tölfræði frá London University (LSHTM) árið 1999. Eiginmaður Hörpu er Engilbert Sigurðsson geðlæknir og eiga þau þrjú börn.

Andrei Manolescu hefur tekið til starfa sem sérfræðingur í tölfræðideild. Andrei útskrifaðist með Ph.D.-próf í kjarnorkueðlisfræði frá Institute of Atomic Physics í Búkarest 1983. Hann stundaði rannsóknir í eðlisfræði við raunvísindastofnun Háskóla Íslands, og síðan við Max-Planck-stofnunina í Stuttgart. Hann starfaði við háskólann í Regensburg í Þýskalandi 1996-1998. Eiginkona Andrei er Ileana tölfræðingur hjá ÍE og eiga þau 2 börn.

Hólmfríður B. Þorsteinsdóttir hefur tekið til starfa sem sérfræðingur á rannsóknarstofu, í rannsóknarhópi á sviði krabbameinsrannsókna. Hólmfríður lauk B.Sc.-prófi í lífefnafræði árið 1997 og er að vinna að M.Sc.-prófi í sameindalíffræði frá háskólanum í Lundi. Hólmfríður starfaði á Tilraunastöðinni á Keldum áður en hún hóf störf hjá ÍE.