Bananaframleiðandi á Santa-Lúsía-eyjum hampar framleiðslu sinni, sem nýtur forgangs inn á Evrópumarkað, þar sem eyjurnar eru fyrrverandi bresk nýlenda. Deilur um bananaviðskipti eru dæmi um það sem eitrað hefur loftið í samskiptum Bandaríkjanna og Evrópu a
Bananaframleiðandi á Santa-Lúsía-eyjum hampar framleiðslu sinni, sem nýtur forgangs inn á Evrópumarkað, þar sem eyjurnar eru fyrrverandi bresk nýlenda. Deilur um bananaviðskipti eru dæmi um það sem eitrað hefur loftið í samskiptum Bandaríkjanna og Evrópu a
ÁKVEÐIN þróun mála beggja vegna Atlantshafsins grefur undan hálfrar aldar samstarfi N-Ameríku og Evrópu. Ef þessi mál verða bitbein í samkeppni álfanna og önnur álfan nær forskoti á hina mun draga úr friðsæld, stöðugleika og velmegun í heiminum.

ÁKVEÐIN þróun mála beggja vegna Atlantshafsins grefur undan hálfrar aldar samstarfi N-Ameríku og Evrópu. Ef þessi mál verða bitbein í samkeppni álfanna og önnur álfan nær forskoti á hina mun draga úr friðsæld, stöðugleika og velmegun í heiminum.

Hvaða öfl færa nú Ameríku og Evrópu hvora frá annarri? Þeirra má m.a. leita í þeirri staðreynd að þungamiðja N-Ameríku færist vestur á bóginn. Langt er síðan Kalifornía varð fjölmennari en New York-ríki og Breska-Kólumbía leikur sífellt stærra hlutverk í Kanada. Kísildalur og Microsoft eru bæði á vesturströndinni og þrátt fyrir núverandi erfiðleika eru Japanir efnahagslegt stórveldi. Í Kína liggja mestu viðskiptatækifæri Bandaríkjanna en um leið verður stórveldið Kína líklega stærsti keppinautur þeirra í framtíðinni.

Deilur í viðskiptum hafa komist einna næst því að skaða samstarf heimsálfanna.

Tilraunir Bandaríkjanna til að hafa lagaleg áhrif langt út fyrir lögsögu sína, t.a.m. með því að banna breskum kaupsýslumönnum að heimsækja Kúbu, ýtir undir gremju í Evrópu. Viðhorf Evrópu til innflutnings á banönum frá Karíbahafi og á hormónabættu nautakjöti kallar á sterk viðbrögð í N-Ameríku. Erfitt er að stýra samstarfi á viðskiptasviðinu þar sem viðskiptahagsmunir eru síbreytilegir. Sífellt færist í aukana að fyrirtæki leiti aðstoðar ríkisstjórna landa sinna. Árekstrar eru óumflýjanlegir.

Jafnmiklar ógnir steðja að samstarfinu frá Evrópu, einkum frá samrunaferli ríkjanna þar. Að hluta til er þeim samruna ætlað að skapa mótvægi við hið bandaríska stórveldi. Ég segi "að hluta til" því ekki eru allir, sem hlynntir eru einu evrópsku ríki, andvígir Bandaríkjunum. En margir eru það.

Allherjaratkvæðagreiðsla um Maastricht-sáttmálann var haldin í Frakklandi árið 1992. Þá mátti sjá á veggspjaldi einu, sem einn stuðningsmaður sáttmálans bar, hvar kúreki traðkaði á hnettinum með stígvélum sínum. Fyrirsögnin hljóðaði svo: "Faire l'Europe c'est faire le poids." (Uppbygging Evrópu styrkir okkur.)

Mitterrand Frakklandsforseti var meira afgerandi í framsetningu sinni: "Frakkar vita það ekki en við eigum í stríði við Ameríku. Já, í stöðugu stríði, mikilvægu stríði, stríði án dauðsfalla. Bandaríkjamenn eru mjög erfiðir. Þeir eru gráðugir og vilja óskipt vald yfir heiminum."

Nýlega réðst franski utanríkisráðherrann, Hubert Vedrine, af offorsi á Bandaríkin og endurtók skilgreiningu sína á þeim sem "ofurveldi". Margir talsmenn evrunnar vilja að hún keppi við dollarann sem alþjóðlegur vara-gjaldmiðill ríkisstjórna.

Góður grundvöllur er fyrir sameiginlega utanríkisstefnu Evrópusambandsins innan vel skilgreindra marka og ef algjör eining er um ákvarðanir. Aðildarríki Evrópusambandsins eiga margra sameiginlegra hagsmuna að gæta. Skynsamlegt er að gæta þessara sameiginlegu hagsmuna og fylgja þeim eftir með sameiginlegum og samhæfðum aðgerðum. Samfara mögulegum aðgerðum af þessu tagi aukast möguleikar á árekstrum við N-Ameríku. Evrópulönd hafa aðra stefnu en Bandaríkin gagnvart löndum eins og Kúbu, Ísrael, Írak og Lýbíu, svo dæmi séu tekin.

Hingað til hefur verið tekið á þessum ágreiningi án þess að skaða grunnjafnvægi bandalagsins. Ekki er þó erfitt að sjá fyrir sér aðstæður þar sem ágreiningur gæti orðið alvarlegur. Hvað ef Evrópusambandið tæki allt aðra afstöðu en Bandaríkin hvað varðar sölu á hátæknibúnaði til Kína? Hversu langur tími myndi líða þar til samskipti við Kína yrðu það sem samkeppni heimsálfanna snerist einkum um?

Framtíð hernaðarlegra samskipta Evrópu og N-Ameríku eru viðkvæm. Í 50 ár hafa þau verið hornsteinn samstarfsins þrátt fyrir erfiðleika sem stafa af þeirri staðreynd að ekki eru öll evrópsk aðildarríki NATO aðilar að Evrópusambandinu frekar en að öll aðildarríki Evrópusambandsins séu aðilar að NATO. Vestur-Evrópusambandið (WEU), sem í eru öll þau lönd sem skipta máli, myndaði nauðsynlegan grunn til að viðhalda samstarfinu og styrkja það.

Að frumkvæði bresku ríkisstjórnarinnar verður Vestur-Evrópusambandið nú innlimað í Evrópusambandið. Í St. Malo samdi breska ríkisstjórnin við hina frönsku um hernaðarsamstarf landanna tveggja "innan og utan NATO". Aðrir samningar snúa að uppbyggingu óháðs varnarsamstarfs í Evrópu. Ekki er erfitt að sjá hvernig evrópskt hernaðarsamstarf utan NATO getur haft mikla erfiðleika í för með sér fyrir samstarf heimsálfanna tveggja. Hlutverk Breta í þessari framkvæmd vekur þá spurningu hvernig Bretar ætli að sinna hefðbundu hlutverki sínu sem sáttasemjarar.

Þetta er ekki sagt til að draga úr þessu hlutverki sem verður mikilvægt áfram. En þetta er hlutverk sem Bretar geta ekki lengur leikið ef þeir ganga úr Evrópusambandinu eins og þeir hafa stundum talað um. Hvort sem Bretar verða í Evrópusambandinu eða ekki geta Bandaríkjamenn ekki lengur gengið að því vísu að Bretar taki þetta hlutverk að sér.

Kalda stríðið var límið sem hélt ströndum heimsálfanna saman. Erfiðleikar og ágreiningur bliknaði í samanburði við ógnina frá Sovétríkjunum. Þetta lím hefur leyst upp. Þar sem ógn þessi er horfin telja margir að óhætt sé að taka áhættu.

Þessi afstaða er illa ígrunduð og yfirborðskennd. Hún er án nokkurs efa útbreidd í Evrópu og á sér einhverja fylgismenn í Bretlandi. Taki samkeppni við af samstarfi og breytist samkeppni í fjandskap munu Evrópa og Ameríka tapa. Þá munu einhverjir segja - þegar eru raunar farnar að heyrast slíkar raddir - að Evrópa hafi ekki roð við N-Ameríku og tilraunir til samkeppni séu dæmdar til að mistakast. Ég er sammála. Og að reyna slíka samkeppni skaðar samstarfið.

Mörg þeirra vandamála sem menn standa frammi fyrir eftir lok kalda stríðsins er vænlegast að leysa með samvinnu Evrópu og Ameríku. Kosovo er gott dæmi. Jafnvel fjær, í Austur-Tímor, voru breskar og bandarískar hersveitir sendar til stuðnings ástralska hernum.

Það myndi bitna á öðrum löndum heimsins ef Evrópa og Bandaríkin færðu sér í nyt vandamálin og sneru þeim upp í samkeppni og fjandskap, í stað þess að vinna saman. Segjum sem svo að Taívan og Kína lenti saman. Tækju Evrópa og Ameríka afstöðu með sama aðilanum? Hvað ef Evrópa og Ameríka lentu í framtíðinni í ágreiningi vegna átaka á Balkan-skaga? Hvað ef álfurnar styddu andstæðar herfylkingar?

Til að vernda samstarfið yfir Atlantsála er mjög nauðsynlegt að tryggja að þeir sem stýra stefnumörkun beggja vegna hafsins séu vakandi fyrir hættum. Nauðsyn þess að styrkja samstarf milli álfanna má ekki alltaf vera útgangspunkturinn í ákvörðunum. En sé hún höfð í huga og séu menn í ábyrgðarstöðum staðráðnir í að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að að draga úr spennu og minnka skaðann má komast hjá hættu. Án slíkra aðgerða er sambandið yfir Atlantshafið, sem má rækta nú við kjöraðstæður, dæmt til slita og skilnaðar.

Michael Howard var í bresku ríkisstjórninni 1990-1997 og innanríkisráðherra 1993-1997. Hann var innanríkisráðhera í skuggaráðuneyti íhaldsmanna frá 1997 til 1999 og er nú þingmaður fyrir kjördæmið Folkstone.