FLESTRA skoðun varðandi það að eldast mun vera sú að bæta við sig árum, sem síðar verða að áratugum. Við verðum fimmtug, sextug, sjötug og áttræð og jafnvel eldri, og höldum stundum upp á þessi tímamót. Sumir láta það hins vegar eiga sig.

FLESTRA skoðun varðandi það að eldast mun vera sú að bæta við sig árum, sem síðar verða að áratugum. Við verðum fimmtug, sextug, sjötug og áttræð og jafnvel eldri, og höldum stundum upp á þessi tímamót. Sumir láta það hins vegar eiga sig. Ef við viljum ekki að afmælis okkar sé getið í DV, hringjum við þangað eða látum vita með öðrum hætti. Hin svonefnda þjóðskrá geymir nöfn okkar og heimilisföng í sarpi sínum og aflar DV sér vitneskju um afmæli okkar þar.

En þetta kemur víst lítið við spurningunni um það, hvað sé að eldast. Jú, í flestum tilvikum styttumst við eitthvað, vegna þess að brjóskflögurnar milli hryggjarliðanna dragast saman. Maður, sem var t.d. 173 cm við fertugsaldur, er orðinn 170 cm um sjötugt. Þetta er þó vart áberandi. Hárið gránar með aldri, og það er meira áberandi. Þá verða margir þunnhærðir eða jafnvel sköllóttir á efri árum. Það er ýmsum nokkur raun, og reyna því sumir að ráða bót á því með einhverjum hætti, jafnvel að láta þræða hár í skallann, þótt kosti morð fjár. Húðin á öldruðu fólki gerist oft hrukkótt og það er einnig áberandi. Þetta er stundum reynt að laga með einhverjum hætti, jafnvel með ærnum kostnaði. Draumurinn um eilífa æsku blundar býsna lengi í okkur.

Þetta var um það sem út snýr, og flestir telja fylgifiska elli eða efri ára. En hér á eftir langar mig til að segja frá því, sem mér finnst, að sé megineinkenni öldrunar. Það er ekki endilega af líkamlegum toga, heldur sálarlegum. Þegar fólk hefur misst alla framgirni eða frumkvæði er það fyrst tekið að eldast, svo að marktækt megi teljast. Þori það til dæmis ekki að nota tölvu eða kynnast internetinu, er það tekið að eldast. Ótti við hið ókunna og nýja er einmitt einkenni á þeim, sem eru orðnir aldraðir í sálinni. Það er hin eina alvarlega öldrun.

Í framhaldi af þessu má ekki gleyma Félagi eldri borgara, en slík eru nú orðin um 50 alls staðar á landinu, fjölmennust að vonum í Reykjavík og nágrenni. Félagsmenn í Reykjavíkurfélaginu eru um 7.600, en þyrftu að vera helmingi fleiri. Þessi félög stuðla að því að rjúfa félagslega einangrun eldri borgara og styrkja sjálfstraust þeirra, svo ekki sé minnst á hagsmunamálin, sem sífellt brenna á þeim. Að lokum stutt erindi, sem ég bið alla eldri borgara að læra utan að: "Það er bara yndislegt að eldast, ef við kunnum rétt að mæta því, en öllu verra andlega að geldast."

AUÐUNN BRAGI SVEINSSON,

í stjórn FEB í Reykjavík

og nágrenni.

Frá Auðuni Braga Sveinssyni: