Luciano Pavarotti
Luciano Pavarotti
LUCIANO Pavarotti á ekki sjö dagana sæla um þessar mundir. Tenórröddin, sem hefur verið hans sterkasta tromp, dugar honum lítt í glímunni við skattayfirvöld.

LUCIANO Pavarotti á ekki sjö dagana sæla um þessar mundir. Tenórröddin, sem hefur verið hans sterkasta tromp, dugar honum lítt í glímunni við skattayfirvöld. Ítalskur dómstóll hefur dæmt hann til að greiða jafnvirði um 350 milljóna króna í sekt fyrir undanskot frá skatti og hann á enn yfir höfði sér sakamál vegna þessa. Viðureign hans við skattayfirvöld og umbrot í einkalífi hafa slegið á vinsældir hans meðal almennings og nú segja sumir að röddin sé líka að bregðast honum.

Í frásögn fréttaritara The Guardian í Róm segir að fáir Ítalir hafi gert athugasemdir við þau ummæli, þegar háttsettur ítalskur embættismaður kallaði Pavarotti svikara við föðurland sitt, og fáir hafi samúð með Pavarotti nú í skattahremmingum hans. Sá ljómi sem lék um nafn Pavarottis þegar hann lauk upp hliðum óperuheimsins fyrir fjöldanum hefur fölnað.

Pavarotti hefur haldið uppi þeim vörnum að hann eigi ekki að greiða skatta á Ítalíu, því hann sé búsettur í Mónakó. Fjármálaráðherra Ítalíu hefur sagt þetta tóma vitleysu og tilraun til þess að komast hjá því að greiða skatta og skyldur af 35 milljarða króna eign, enda verji söngvarinn meiri tíma á búgarði sínum í Modena en í íbúðinni í Mónakó. Skattayfirvöld á Ítalíu segja Pavarotti skulda nær 600 milljónir króna í skatta af vantöldum tekjum sínum í níu löndum, sem Pavarotti segist aftur á móti hafa greitt skatta af í viðkomandi löndum.

Þá hefur skilnaður hans og Adua Veroni ekki gengið hljóðalaust fyrir sig, en hún sótti um skilnað þegar innilegar ljósmyndir birtust af tenórnum og ritara hans, Nicolettu Mantovani. Þegar söngvarinn hafnaði kröfu Veroni, sem hljóðaði upp á átta milljarða, gekk hún til liðs við skattayfirvöld gegn honum. Þessi vandræði með Veroni hafa svo leitt til þess að ekkert hefur getað orðið úr hjónabandi Pavarottis og Mantovani ennþá.

Og eins og þetta sé ekki nóg fjölgar gagnrýnisröddunum um söng hans. Og hnén eru stöðugt að angra hann. En mitt í allri armæðunni segir fréttaritari The Guardian að Pavarotti hafi samt átt hug og hjarta þeirra sem á hann hlýddu, þegar hann í janúar sl. söng Cavaradossi í afmælisflutningi á Toscu í Róm. Heyra mátti að hann hafði áhorfendur á valdi sínu og þeir hylltu hann með bravóhrópum á eftir. Gullna tenórröddin er langt frá því að vera dauð úr öllum æðum.

London. Morgunblaðið.