Samið við VMSÍ og flugvirkja Skrifað hefur verið undir nýja kjarasamninga Verkamannasambands Íslands og Landssambands iðnverkafólks við Samtök atvinnulífsins og gilda þeir í tæp fjögur ár. Verkfalli aðildarfélaganna hefur því verið frestað til 4.

Samið við VMSÍ og flugvirkja

Skrifað hefur verið undir nýja kjarasamninga Verkamannasambands Íslands og Landssambands iðnverkafólks við Samtök atvinnulífsins og gilda þeir í tæp fjögur ár. Verkfalli aðildarfélaganna hefur því verið frestað til 4. maí, en í millitíðinni verða greidd atkvæði um samninginn í hverju félagi fyrir sig og fer talning atkvæða fram 29. apríl nk. Samkvæmt samningnum munu lægstu laun hækka um 34,5% á samningstímanum en samningurinn gildir til ársloka 2003. Þá tókst samkomulag milli Flugleiða og flugvirkja og verða því ekki truflanir á millilandaflugi Flugleiða.

Endurmat á eigin fé Landssímans

Gert er ráð fyrir að Landssíminn endurgreiði ríkissjóði 3,8 milljarða kr. sem eigið fé fyrirtækisins reyndist vanmetið um, samkvæmt niðurstöðu starfshóps á vegum samgönguráðuneytisins. Landssíminn mun taka lán til þess að standa undir því. Samkeppnisstofnun taldi á sínum tíma eigið fé fyrirtækisins vanmetið um 10 milljarða kr.

Kostnaður við ESB-aðild 7-8 milljarðar

Árlegt framlag Íslands sem aðildarríkis Evrópusambandsins gæti orðið á bilinu sjö til átta milljarðar kr., að því er fram kom í skýrslu Halldórs Ásgrímssonar utanríkisráðherra um stöðu Íslands í Evrópusamstarfi og hugsanlega aðild landsins að ESB. Í skýrslunni kemur fram að til baka gætu runnið um 5 milljarðar kr. úr sameiginlegum sjóðum ESB en það yrði háð samningum og aðstæðum.