Bristol City var stofnað árið 1894 undir nafninu Bristol South End en hefur borið núverandi nafn frá 1897. Félagið fékk aðild að deildakeppninni árið 1901 og hefur verið þar samfleytt síðan.

Bristol City var stofnað árið 1894 undir nafninu Bristol South End en hefur borið núverandi nafn frá 1897. Félagið fékk aðild að deildakeppninni árið 1901 og hefur verið þar samfleytt síðan. Árið 1906 komst það í efstu deild í fyrsta skipti og náði strax á fyrsta tímabili, 1906-07, sínum besta árangri frá upphafi þegar félagið hafnaði í öðru sæti. Vorið 1909 komst Bristol City í úrslit ensku bikarkeppninnar en tapaði fyrir Manchester United, 1:0.

Bristol City féll á ný árið 1911 og komst ekki aftur í hóp hinna bestu fyrr en árið 1976. Þá náði félagið að halda sér í fjögur ár í deildinni en féll 1980 og hefur síðan leikið í neðri deildunum þremur á víxl. Síðast var Bristol City í núverandi 1. deild á síðasta tímabili en féll eftir eins árs dvöl. Liðið er nú 9. sæti 2. deildar, aðeins þremur sætum á eftir Stoke, en þó skilja 13 stig liðin að og Bristol City á enga möguleika á að komast í úrslitakeppnina um sæti í 1. deildinni. Fyrir utan annað sæti í deild og bikar á fyrsta áratug aldarinnar eru helstu afrek Bristol City þau að félagið komst í undanúrslit deildabikarsins árin 1971 og 1989 og hefur tvívegis leikið til úrslita í bikarkeppni neðrideildarliðanna. Bristol City lagði Bolton, 3:0, í úrslitaleiknum árið 1986 en beið lægri hlut fyrir Mansfield í vítaspyrnukeppni árið eftir en liðin skildu þá jöfn, 1:1. Í bæði skiptin mættu tæplega 60 þúsund áhorfendur á Wembley.

Bristol City kemur frá hafnarborginni Bristol í suðvesturhluta Englands. Heimavöllur liðsins heitir Ashton Gate en hann var byggður árið 1904 og rúmar nú 21 þúsund áhorfendur.

Tony Fawthrop er knattspyrnustjóri Bristol City en hann var ráðinn út þetta tímabil eftir að Tony Pulis var sagt upp störfum í febrúar. Byrjunin var góð því Fawthrop var valinn knattspyrnustjóri mánaðarins í 2. deild eftir fyrsta mánuð sinn í starfi. Hann hefur starfað hjá Bristol City síðan 1989 og var aðstoðarmaður knattspyrnustjóra félagsins þar til í febrúar.

Tony Thorpe er marksæknasti leikmaður Bristol City en hann hefur skorað 18 mörk á tímabilinu. Thorpe er 26 ára og lék áður með Luton, Reading og Fulham en Bristol City keypti hann fyrir 117 milljónir króna frá Fulham fyrir tveimur árum. Hann er annar dýrasti leikmaður félagsins frá upphafi. Thorpe gekk illa á síðasta tímabili og var settur á sölulista að því loknu en hefur sprungið út í vetur.

Keith Millen er fyrirliði Bristol City en hann var keyptur frá Watford í byrjun nóvember. Millen á að baki um 500 deildaleiki með Watford og Brentford og tók við fyrirliðastöðunni hálfum mánuði eftir að hann var keyptur - gegndi henni einmitt í fyrsta skipti þegar Bristol sótti Stoke heim í nóvember, helgina sem yfirtaka Íslendinganna á Stoke var kunngjörð.

Andrew Jordan hefur verið mest í sviðsljósinu af leikmönnum Bristol City síðustu dagana, þó hann sé aðeins tvítugur og að leika sitt fyrsta tímabil sem fastamaður. Hann er nefnilega sonur Joe Jordans, fyrrum landsliðsmanns Skota, sem var leikmaður og knattspyrnustjóri Bristol City árin 1988-1990 og stýrði liðinu aftur á árunum 1994-97. Jordan yngri þykir mjög efnilegur varnarmaður.

Ivan Tistimetanu er eini landsliðsmaður Bristol City en hann er frá Moldavíu þar sem hann varð meistari fjögur ár í röð með Zimbru áður en Bristol City keypti hann fyrir tveimur árum. Tistimetanu hefur átt í erfiðleikum vegna meiðsla á þessu tímabili og ekki átt fast sæti í liðinu. Bristol City hefur aðeins tapað einum heimaleik í 2. deild í vetur, færri en nokkurt annað lið, en hinsvegar gert 13 jafntefli á heimavelli og 18 alls, sem er það mesta í deildinni.