Staðurinn El Tanque er falinn milli trjáa, en lítið skilti við veginn gefur til kynna að þarna sé matsölustaður.
Staðurinn El Tanque er falinn milli trjáa, en lítið skilti við veginn gefur til kynna að þarna sé matsölustaður.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Það er alltaf ánægjulegt að verða fyrir óvæntri upplifun. Kristín Heiða Kristinsdóttir rakst af hreinni tilviljun inn á magnaðan matsölustað í fjallahéraðinu Mogan á Kanarí. Hún og hennar heittelskaði ásamt börnunum tveimur, voru þar klárlega hneppt í álög. Þeim var bruggaður slíkur bragðlaukaseiður að þau svifu um á matarskýi langt fram eftir degi.

Á ÞVÆLINGI okkar inn til fjalla leiddu örlögin okkur inn á matsölustað sem stóð á milli tveggja lítilla þorpa. Þar tók á móti okkur elskulegur gamall maður, Ernesto að nafni, sem studdist við staf og reyndist annar eigandi þessa úti-veitingastaðar El Tanque. Þar snæða gestir mat sinn undir berum himni í skjóli ólívutrjáa og pálmablaða. Fornir munir prýða staðinn og kyrrlátir minna þeir á gamla tíma og horfið handbragð.

Við vorum einu viðskiptavinirnir og gestgjafinn fór sér hægt eins og bóndi í afdal og rétti aldrei alveg úr hnjánum. Okkur leið eins og við værum í persónulegri heimsókn heima hjá honum. Hann talaði ekki ensku og gaf okkur kærkomið tækifæri til að spreyta okkur á spænskunni. Hér var aðeins boðið upp á þjóðlegan Kanaríeyjamat og matseðillinn var mæltur af munni fram og var einfaldur: Grænmetissúpa kölluð Potaje, sem er þjóðarréttur eyjaskeggja, salat, kjúklingabringa og svínakótiletta. Við pöntuðum allt sem stóð til boða, til að fá sem fjölbreyttasta mynd af þeim mat sem innfæddir láta ofan í sig. Við áttum alveg eins von á einhverju hversdagslegu og urðum því óneitanlega frekar undrandi þegar Ernesto fór að hlaða borðið kræsingum. Réttirnir voru allir mjög vel útilátnir og skammtarnir svo stórir að okkur féllust nánast hendur. En þá var bara að fara sér að engu óðslega, slaka á yfir borðhaldinu og njóta hvers munnbita.

Matarlyst vakin með matarlist

Við fengum vertinn til að setjast hjá okkur og upplýsa okkur um matinn: Grænmetissúpan var eftir gamalli og góðri kanaríeyskri uppskrift og í henni voru hvorki meira né minna en 13 tegundir af grænmeti. Með súpunni fylgdi einkennilegt brúnleitt duft í skál sem reyndist vera ristaður og mulinn maís, sem okkur var ætlað að strá yfir súpuna. Bragðsterkur geitaostur fór sérlega vel með rauðvíninu og nýbökuðu brauði. Salatið eitt og sér var heil máltíð út af fyrir sig: Stór diskur hlaðinn af krabbakjöti og grænmeti í öllum regnbogans litum. Kjötréttirnir voru svo enn eitt innleggið í þessa hljómmiklu matar-sinfóníu og þeir voru blessunarlega lausir við brasbragðið sem við vorum búin að fá alveg nóg af á skyndibitastöðunum. Kjúklingurinn var með appelsínum og ókunnugu kryddi, en svínið var með allt öðru bragði svo himnesku að hver biti bráðnaði í munni. Allt bragð var svo framandi og óvænt að við lyftumst upp í einhverjar sæluhæðir og töpuðum nánast jarðsambandi. Og kartöflurnar sem þau kölluðu "papas", voru meira að segja öðruvísi en allt annað sem við höfðum áður smakkað. Og með þeim fylgdi eiturgræn sósa í skál sem var algjört lostæti. Í henni var m.a ólívuolía og hvítlaukur ásamt fjölmörgu öðru sem ekki var upp gefið, því uppskriftin var hernaðarleyndarmál hússins.

Kokkurinn kallaður fram

Við gátum ekki lengur stillt okkur um að biðja um að fá að hitta þann listakokk sem hafði töfrað fram slíkar kræsingar og Ernesto varð fús við þeirri bón og sótti litla konu með svuntu hnýtta um sig miðja. Og þarna stóð hún sem hafði dulist bakvið tjöldin: Matseljan Mercedes, systir Ernestos og meðeigandi. Og sú var aldeilis ekki orðlaus þegar kom að því að ræða um matinn og matargerðina. Spænskan flæddi fram svo við máttum hafa okkur öll við. Tilheyrandi handapat og svipbrigði fylgdu með, því þetta var henni mikið hjartansmál. Hún sagði að hér væri engin færibandavinna viðhöfð heldur litið á hverja pöntun sem sérstaka og lögð alúð í hvern rétt frá byrjun. Hún lagði mikið upp úr gæðum hráefnisins, ferskleika og síðast en ekki síst að gefa sál sína í matargerðina. "Þessi geitaostur sem þið eruð að borða var búinn til með höndunum einum, engar vélar hafa þar komið nálægt," sagði hún með stolti. "Ég elska að elda mat," klikkti hún svo út með tilþrifum og glampa í augum. Hún hafði náð okkur fullkomlega á vald sitt, galdrakonan Mercedes, en eins og gengur í návist slíkra kvenna þá áttuðum við okkur ekki á göldrunum sem hún lagði á okkur fyrr en við fórum frá henni. En við vorum henni þakklát, hvaða brögðum sem hún hafði beitt.

Tunglsjúk tík í vatnsgeimi

Við nefndum staðinn Tankinn á íslensku því það hljómar líkt og spænska heitið Tanque, sem í beinni þýðingu merkir geimir og kemur nafngiftin til af því að hluti af eldhúsbyggingunni er gamall vatnsgeimir. Það er óhætt að mæla með Tankinum fyrir alla þá sem dvelja á Gran Canaria og vilja fullnægja matarnautn sinni sem og fyrir þá sem kunna því vel að snæða í sérdeilis afslöppuðu andrúmslofti og fögru umhverfi.

Við kvöddum þessi einstöku systkin með virktum og þakklæti og börnin köstuðu kveðju á hund hússins, sem var risastór og grimm tík af kanaríeysku kyni sem hét því viðeigandi nafni Luna (Tungl). Hegðun þessa hunds var óneitanlega í ætt við tunglsýki og það hvarflaði að okkur þegar við yfirgáfum svæðið hvort nafnið á skepnunni væri ekki enn ein vísbendingin um að ekki væri allt sem sýndist þennan dag. Við litum um öxl og það var engin leið að sjá frá veginum að hér væri veitingastaður! Inn í hvaða heim höfðum við gengið?