Hannes Hólmsteinn Gissurarson: Fiskistofnarnir við Ísland Þjóðareign eða ríkiseign? Bækur Ólafur Björnsson Nýlega er komin út á vegum Stofnunar Jóns Þorlákssonar bók eftir dr. Hannes H. Gissurarson með ofangreindum titli.

Hannes Hólmsteinn Gissurarson: Fiskistofnarnir við Ísland Þjóðareign eða ríkiseign? Bækur Ólafur Björnsson Nýlega er komin út á vegum Stofnunar Jóns Þorlákssonar bók eftir dr. Hannes H. Gissurarson með ofangreindum titli. Er hér um að ræða framlag til hinnar miklu umræðu sem nokkur síðustu ár hefir átt sér stað hér á landi um leiðir til þess að takmarka á sem hagkvæmastan hátt sókn í íslenzka fiskistofna, þannig að komið sé í veg fyrir ofnýtingu þeirra. Hannes byrjar á því að rekja sögu átakanna um rétt til fiskveiða á Íslandsmiðum, en sú saga nær nú nær 600 ár aftur í tímann.

Þá ræðir Hannes allýtarlega kenningar hagfræðinga um það að tilhneiging verði til ofnýtingar náttúruauðlinda, sem enginn getur svo gert tilkall til umfram aðra, þannig að aðgangur að því að nýta slíkar auðlindir er öllum frjáls. Eignarréttur til landjarðarinnar hindrar það, að um slíka ofnýtingu hinna betri jarða verði að ræða, en þar gegnir öðru máli um fiskimiðin, þar sem meginreglan hefir til skamms tíma verið sú, að nýting þeirra hefir verið öllum frjáls, að undanskildum fiskimiðum innan þeirrar landhelgi, sem strandríki helguðu sér, en þar var fram á 8. áratug þessarar aldar aðeins um mjóa ræmu, 3-4 sjómílur, að ræða, þannig að alþjóðleg viðurkenning væri fyrir hendi. Um og eftir 1975 verður að vísu róttæk breyting á þessu, þar sem 200 sjómílna landhelgi verður nú alþjóðleg regla ef nálægð við önnur strandríki hindrar slíkt ekki. En útfærsla landhelginnar heimilar strandríkjum aðeins að bægja útlendingum frá því að nýta fiskimið innan landhelginnar, en setur ekki hömlur á veiðar ríkisborgara þess lands, sem í hlut á. Ef slíkar takmarkanir voru taldar nauðsynlegar urðu strandríki þau, er hlut áttu að máli, að setja um slíkt eigin lög og reglur.

Hér verður ekki nánar fjallað um þá þætti bókar Hannesar, þar sem rakin er saga átakanna um rétt til nýtingar íslenzkra fiskimiða og rök hagfræðinga fyrir nauðsyn þess, aðkomið sé í veg fyrir ofnýtingu hinna betri fiskimiða. Ég fæ ekki annað séð, en hér sé um greinargott alþýðlegt yfirlit um þróun þessara atriða að ræða.

Eins og hin langa saga átakanna um leyfi til fiskveiða á Íslandsmiðum ber vitni um, hefir stjórnvöldum hér á landi lengi verið ljóst, að æskilegt væri að takmarka sókn á miðin. Gera má þó að vísu ráð fyrir því, að áhugi Danakonunga fyrr á öldum á því að banna útlendingum veiðar á Íslandsmiðum hafi í ríkara mæli verið sprottinn af því, að nauðsynlegt var þá talið að hindra samskipti landsmanna við útlendingana fremur en því, að um ráðstafanir til verndar fiskistofnunum væri að ræða. Dreg ég í efa, að almennur áhugi hafi verið fyrir því, að stækka íslenzka fiskveiðilögsögu fyrr en nokkuð kemur fram á þessa öld. Samningur Breta og Dana frá 1900 um 3 mílna fiskveiðilögsögu Íslands eins og var þá í Danmörku, sætti að vísu gagnrýni hér á landi, en sú gagnrýni virðist ekki hafa komið til sögunnar í verulegum mæli fyrr en 2-3 áratugum eftir það að samningur þessi, er gilda skyldi til 50 ára, var gerður eða jafnvel síðar. Þráttfyrir kenningar míns gamla kennara, prófessors Jens Warmings, sem Hannes getur í bók sinni, um tilhneigingu til ofnýtingar fiskimiðanna, þá væri sú skoðun almenn meðal hagfræðinga á þeim tíma, að raunhæft gildi þessarar kenningar væri aðeins staðbundið, sbr. ála gildruréttinn (ålegårderetten) en hvað fiskveiðar á úthöfunum snerti, þá væri þar um svo stóra stofna að ræða, að ekki væri hætta á því að aukin sókn á þau fiskimið mundi draga svo úr afla, að teljandi væri. Engar áreiðanlegar aðferðir voru heldur til á þessum tíma til þess að mæla stærð fiskistofna og breytingar á þeim.

Það mun hafa átt verulegan þáttí auknum áhuga Íslendinga fyrir útfærslu fiskveiðilögsögunnar, að í ljós kom á fyrri heimsstyrjaldarárunum, að afli á Íslandsmiðum virtist aukast verulega vegna þeirrar friðunar fiskimiða fyrir ásókn útlendinga sem leiddi af styrjöldinni. Sama sagan endurtók sig svo í enn ríkara mæli á seinni heimsstyrjaldarárunum. Átökum þeim um veiðirétt útlendinga í íslenzkri fiskveiðilögsögu sem hófust upp úr 1950 lauk svo með útfærslu lögsögunnar í 200 sjómílur 1975.

Menn höfðu gert sér vonir um það, að friðun fiskimiða fyrir erlendri sókn á þau myndi í þeim mæli auka afla á þeim, að ekki þyrfti að takmarka sókn íslenzkra fiskiskipa á miðin. Þessar vonir brugðust þó. Mjög fljótlega eftir það, að deilan um veiðirétt útlendinga á Íslandsmiðum leystist með útfærslu landhelginnar 1975 og sérsamningi við Breta, sem rann út 1. des. 1976, var tekið upp hið svonefnda "skrapdagakerfi", en með því var ákveðið að eigendum togara væri skylt að halda þeim frá fiskveiðum ákveðinn dagafjölda á ári. Árið 1984 var hinsvegar á grundvelli löggjafar í árslok 1983 tekið upp hið svonefnda kvótakerfi, en samkvæmt því voru í stað sóknartakmarkana teknar upp takmarkanir á því aflamagni sem hverju skipi væri leyft að veiða. Leyfum til fiskveiða var úthlutað af sjávarútvegsráðuneytinu og skyldi aflakvótinn ákvarðaður á grundvelli meðalafla hvers skips síðastliðin þrjú ár. Nýjum skipum var hinsvegar veitt heimild til þessað velja milli aflamarks og sérstaks sóknarmarks, sem fólst í ákveðnum fjölda sóknardaga. Takmörkun veiðiheimildanna náði þó aðeins til fiskiskipa stærri en 10 smálestir brúttó.

Frá því að byrjað var á því fyrir 13 árum að takmarka sókn íslenzkra fiskiskipa á fiskimiðin hefir enginn ágreiningur verið hér á landi, að nauðsyn bæri til þess að takmarka sókn á íslenzk fiskimið. Hinsvegar hafa verið skiptar skoðanir um það hvernig þessar takmarkanir skuli framkvæmdar. Hvort sem um er að ræða sóknarmark eða aflamark, einsog slíkt hefir verið framkvæmt til þessa, þá hefir verið um að ræða beinar takmarkanir á magni, þannig að hér er í raun um einskonar haftaog skömmtunarkerfi að ræða. En gallar slíkra kerfa eru fyrst og fremst fólgnir í því, að þau veita ekkert aðhald um hagkvæmni í rekstri á sama hátt og markaðskerfi, byggt á einkarekstri, gerir. Þegar innflutningur er takmarkaður með leyfisveitingum af hálfu hins opinbera, þar sem leyfin eru venjulega veitt með hliðsjón af innflutningi þeirra aðila, er um leyfin sækja að undanförnu, er síður en svo líklegt að innflytjendur þeir, sem leyfin fá, sjái sér hag í því að gera ódýr innkaup. Rök má jafnvel færa fyrir hinu gagnstæða. Þar sem álagning er jafnan ákveðin sem hundraðshluti af innkaupsverði vörunnar, var það raunar innflytjandanum í hag, að kaupa dýra vöru. Höftin tryggðu það, að eftirspurn eftir vörunni var jafnan meiri en framboð af henni þannig að seljandi vörunnar þurfti ekki að óttast það að hærri álagning leiddi til sölutregðu.

Svipuðu máli gegnir í rauninni um veiðitakmarkanir, sem framkvæmdar eru sem beinar takmarkanir sóknar eða aflamarks. Þær bitna jafnt á vel og illa rekinni útgerð, þannig að ekki verður um neina hvöt að ræða til hagkvæmni í rekstri.

Annar galli á kvótakerfinu, einsog það hefir verið framkvæmt hér á landi, er sá, að þar sem veiðileyfum er aðeins úthlutað til mjög skamms tíma, eða að jafnaði til eins árs, þá kemur slíkt í veg fyrir allar áætlanir útgerðarfyrirtækja til lengri tíma, þar sem alltaf má búast við setningu nýrra reglna um leyfaúthlutun þannig að fyrirtækin geta aldrei vitað hver hlutur þeirra verður sé eitthvað horft fram í tímann. Flestir þeirra hagfræðinga, sem um þetta mál hafa skrifað hér á landi, telja, að úr þessum ágöllum kvótakerfisins, eins og það til þessa hefir verið framkvæmt hér á landi, þyrfti að bæta með því að koma á fót virkum markaði fyrir veiðileyfin. Til þess að svo megi verða eru tvennskonar breytingar frá núverandi fyrirkomulagi nauðsynlegar. Í fyrsta lagi þurfa veiðileyfin að vera framseljanleg, þannig að þau geti gengið kaupum og sölum á sem frjálsustum (??) markaði. Í öðru lagi þurfa leyfin að gilda til miklu lengri tíma en nú tíðkast, eða helst að vera ótímabundin. Samkeppni útgerðarfyrirtækja um veiðileyfin myndi þannig verða hin bezta fáanlega trygging fyrirþví að þau verði rekin á sem hagkvæmastan hátt. Það er þessu hliðstætt þegar á það er bent, að frjáls gjaldeyrismarkaður tryggi það betur en innflutningshöft og gjaldeyris skömmtun að innflutningurinn verði í höndum þeirra fyrirtækja, sem hagkvæmust innkaup gera erlendis.

En þá kemur upp sú spurning, hverjum beri í raun eignarrétturinn til fiskistofnanna og þá um leið rétturinn til þess að nýta þá. Hér komum við að því, sem telja má kjarnann í bók Hannesar, sem er umfjöllun hans um þessa spurningu, eins og raunar kemur fram í titli bókarinnar, sem samkvæmt ofansögðu er: Fiskistofnarnir við Ísland: Þjóðareign eða ríkiseign. Hannes er svosem kunnugt er einhver eindregnasti formælandi frjálsra viðskipta og markaðsbúskapar í hópi yngri manna hér á landi, er þjóðfélagsmál láta til sín taka og tekur því að fullu undir þá skoðun hagfræðinga, sem telja má almenna, bæði hér á landi og annarrstaðar, að virkur markaður á grundvelli eignarréttar til nýtingar fiskimiðanna sé skilyrði fyrir hagkvæmni í þeim rekstri, sem hér erum að ræða. Hitt er svo annað mál, hvort önnur sjónarmið en hag kvæmnissjónarmiðið, svo sem byggðasjónarmið, eigi að hafa áhrif á stjórn fiskveiðanna, en það atriði er lítið rætt í bók Hannesar og þvíekki ástæða til að ræða það hér.

Á Alþingi því, sem lauk í síðasta mánuði, voru samþykkt ný lög um stjórn fiskveiða. Í fyrstu grein laganna, sem ekki fela í sér neina þá skipan þessara mála er til framtíðar megi verða, segir svo: "Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslenzku þjóðarinnar. Flestir munu út af fyrir sig vera þessu sammála, svo langt sem það nær. En ósvarað er spurningunni um það hver eigi að fara með umboð þjóðarinnar til þess að nýta þessa sameign og á hvern hátt veður það gert þannig að náð verði þeim yfirlýsta tilgangi laganna að tryggja sem hagkvæmasta nýtingu fiskistofnanna?

Tvö höfuðsjónarmið hafa komið fram í því máli hvernig fullnægja megi þeim tveimur höfuðskilyrðum sem varla er ágreiningur um að séu nauðsynleg forsenda fyrir því að virkum markaðsbúskap verði komið á við stjórn fiskveiða, þ.e. í fyrsta lagi því, að veiðileyfi geti gengið kaupum og sölum og í öðru lagi þvíað þau séu ekki tímabundin. Fyrra sjónarmiðið er það, að ríkið gefi út veiðileyfi, sem gangi svo kaupum og sölum á frjálsum markaði. Sumir nefna slíkt fyrirkomulag auðlindaskatt. Ríkisvaldið verður þannig sá aðili sem ber úr býtum þann arð, sem fiskimiðin sem náttúruauðlind gefa af sér. Hitt sjónarmiðið er það, sem Hannes telur hina skynsamlegu lausn þessa máls, að hafa þann hátt á, að ríkið úthluti leyfum ókeypis til útgerðarmanna eftir svipuðum reglum og þeim er nú er fylgt, en veiðileyfin verði varanleg réttindi þeirra er þau fá, í stað þess að gilda aðeins til árs eða skemmri tíma, svosem verið hefur til þessa. Það verða þannig útgerðarmennirnir, eða eigendur fiskiskipanna, sem fá þann arð, sem fiskimiðin gefa af sér sem náttúruauðlind, eða sjávarrentuna eins og sumir nefna það.

Líklegt má telja, að hið fyrra þessara sjónarmiða, það að ríkinu beri sjávarrentan, eigi meira fylgi að fagna bæði meðal stjórnmálamanna og almennings en sú skoðun, sem Hannes heldur fram, að þau verðmæti, sem hér er um að ræða, falli útgerðarmönnunum í skaut. En þótt slíkt kunni að vera rétt, þá sker það ekki úr um það hver sé hin skynsamlegasta skipan þessara mála, því að fjarri fer því, að hægt sé að fullyrða að meiri hlutinn hafi alltaf á réttu að standa.

Margir munu eflaust líta svo á, að í titli bókarinnar: Þjóðareign eða ríkiseign, felist mótsögn. Þeir sem fara með ríkisvaldið hljóti alltaf að hafa umboð til þess að ráðstafa og nýta þann hluta þjóðareignarinnar sem er í opinberri eigu. Í sjálfu sér mun það tæpast vera umdeilt, að slíkt umboð sé fyrir hendi, hvort sem það er fengið á lýðræðislegan eða annan hátt. Hitt er svo annað mál, að engan veginn er víst, að þær ákvarðanir, sem teknar eru af handhöfum ríkisvaldsins í þessu efni þurfi alltaf að vera þær hagkvæmustu fyrir þjóðarheildina, auk þess sem það er, sem kunnugt er, mjög umdeilt hve opinberi geirinn, eins og það er kallað á máli þeirra, er fást við gerð þjóðhagsreikninga, eigi að vera stór, eða m.ö.o. hve stórum hluta þjóðareignarinnar eða þjóðarteknanna skuli ráðstafað af ríkisvaldi eða öðrum opinberum aðilum. Þetta er einmitt eitt af höfuðdeilu efnum þeirra sem kenna sig við sósíalisma eða félagshyggju annarsvegar eða frjálshyggju er leggur áherzlu á sem víðtækasta einkavæðingu hins vegar. (Ég get ekki látið hjá líða að nefna það úr því að frjálshyggju ber hér á góma, að ofangreind merking þess orðs, sem nú virðist sú sem almenningur leggur í orðið, er þrengri en sú, sem ég lagði í það í bók minni, Frjálshyggja og alræðishyggja, sem út kom fyrir 12 árum.)

Nú segja þeir, sem aðhyllast auðlindaskatt í einni eða annarri mynd og telja þannig að ríkisvaldið eigi að hafa forgöngu um markaðsvæðingu stjórnunar fiskveiða, að ágreiningurinn um það hvort þá leið skuli fara eða þá sem Hannes vill fara, að úthluta varanlegum veiðileyfum ókeypis til útvegsmanna, sé með öllu óviðkomandi spurningunni um það, hvort byggja skuli á einkarekstri í atvinnulífnu eða þjóðarnýtingu. Þær tekjur, sem ríkið kynni að fá með auðlindaskattinum ef menn vilja nota það orð sem ég tel vafasamt að sé heppilegt, geta auðvitað einsog aðrar tekjur, sem því opinbera falla í skaut, skapað grundvöll fyrir auknum umsvifum af þess hálfu. En það sé enginn sjálfsagður hlutur, að þessum auknu tekjum þurfiað verja til aukinna umsvifa ríkisins. Það sé hægt að lækka aðra skatta í stað þess að auka útgjöld og umsvif ríkisins. Fræðilega séð er þetta rétt, en hitt er annað mál, að með tilliti til fenginnar reynslu, ekkisízt hér á landi, er tortryggni Hannesar og fleiri, sem andvígir eru auknum umsvifum ríkisins, gagnvart því, að auknum tekjum ríkisins verði í raun ráðstafað til annars en aukinna umsvifa þess, skiljanleg. Allir þekkja þann þrýsting sem fjárveitingavaldið er stöðugt undir um aukin framlög til margvíslegra mála, þannig að freistandi verður fyrir þá aðila, er með þetta vald fara, að láta undan þeim þrýstingi, ef um auknar tekjur er að ræða.

Að mínum dómi er þessi spurning þó aukaatriði í deilunni um leiðir til þess að markaðsvæða stjórn fiskveiðanna. Það sem þar skiptir máli eru spurningarnar um réttlæti og hagkvæmni. Báðar þessar spurningar eru ræddar ýtarlega í bók Hannesar. Telur hann þá leið að úthluta veiðileyfum til útgerðarmanna ókeypis til lengri tíma bæði réttlátari og hagkvæmari en þá leið að ríkið leggi á auðlindaskatt í einhverri mynd. Gert hafi verið ráðfyrir því líka, að fyrrnefnda leiðin yrði farin í frumvarpi því um stjórn fiskveiða, sem núverandi sjávarútvegsráðherra lagði fyrir Alþingi í febrúar sl. þótt afgreiðsla málsins yrði sem fyrr segir sú, að um bráðabirgðalausn varð að ræða, en ákvörðun um frambúðarlausn var slegið á frest.

Að því er fyrri spurninguna varðar, hver sé hin réttlátasta skipan í þessu efni, þá verður það auðvitað fyrst og fremst háð huglægu mati, hvað sé réttlátt og hvað sé ranglátt. Engin hlutlæg vísindi fá úr þessu skorið og a.m.k. að mínum dómi er hlutlægni skilyrði þess, að um vísindi geti verið að ræða. Í sambandi við deilu þá, sem hér er um fjallað, skiptir það raunar ekki máli, hvert sé hlutverk vísindanna í þessu efni. Hitt getur hinsvegar skipt miklu máli fyrir framvindu þessa máls á vettvangi stjórnmálanna, hvort tillögur þær sem gerðar eru um skipan þessara mála, séu að dómi þeirra stjórmálamanna, er um þau fjalla, í samræmi við réttlætishugmyndir almennings. Sá er þetta ritar hefir verið hallur undir þær skoðanir, erí þessu efni hefir verið haldið framaf þeim Gylfa Þ. Gíslasyni, Markúsi Möller og fleirum, að auðlindaskattur í einhverri mynd sé skynsamlegasta leiðin til þess að markaðsvæða stjórn fiskveiða. Hef ég ekki skiptum skoðun í því máli, þótt ég taki undir margt í þeim skoðunum, sem Hannes heldur fram í bók sinni um þennan þátt málsins. Það má lengi deila um það, hver sé hin réttlátasta skipan þessara mála og ókeypis úthlutun veiðileyfa til útgerðarmanna þarf ekki að vera ranglátari en hvað annað. Það ber þó að hafa hugfast í þessu sambandi að hagnaðurinn af því að þessi leið sé valin fellur aðeins í skaut þeim, sem stunda útgerð á þeim tíma, sem hinum ókeypis veiðileyfum er úthlutað. Ef litið er hinsvegar yfir lengri tíma ætti það ekki að skipta neinu máli frá hagsmunasjónarmiði útgerðarmanna sem stéttar, hvort þessi leið eða auðlindaskattsleiðin hefir verið valin, því að smám saman verða allir þeir sem útgerð stunda að greiða veiðileyfin fullu verði.

En ástæðan fyrir því, að ég tel auðlindaskattsleiðina raunhæfari en þá, að úthluta leyfum ókeypis, er sú, að með fullri viðurkenningu þess sjónarmiðs, að engu verði slegið föstu um það hver sé hin réttlátasta lausn þessara mála, þá hygg ég að mat stjórnmálamanna á því, hvað almenningur telji réttlátt sé á þann veg, að hætt sé við því að aldrei geti orðið um nægilega víðtækt samkomulag að ræða um þá leið, að útgerðarmenn fá ókeypis varanlegan veiðikvóta. En ef svo er verður hætta á því, að ekkert geti orðið af þeirri markaðsvæðingu fiskveiðistjórnunarinnar, sem hagfræðingar eru almennt sammála um, að æskileg sé.

Hannes gerir sér líka ljóst, að þetta sjónarmið muni koma fram, en telur það léttvægt, því að það byggist á röngu mati á siðferðishug myndum almennings, sbr. bls. 96-97 í bókinni. Hér veður raunar, þegar öllu er á botninn hvolft, um trúaratriði að ræða. Málið er of flókið til þess að nokkuð væri hægt að byggja á skoðanakönnunum meðal almennings, þó að til þeirra yrði stofnað.

Þá er það hin spurningin, sem telja má að skipti meginmáli þegar ákvörðun er tekin í því efni, sem hér er til umræðu, en hún er sú, hvað hagkvæmt megi telja frá þjóðhagslegu sjónarmiði. Eignarhald veiðileyfa skapar kaupgetu hjá þeim, sem það öðlast og hvorir eru líklegri til þess að ráðstafa þessari kaupgetu í samræmi við þjóðarhagsmuni, útgerðarmennirnir eða fjárveitingarvaldið, ef leið auðlindaskattsins er valin? Í titli þeim, sem Hannes hefir valið bók sinni, þar sem þjóðareign og ríkiseign er talið sitthvað felst því engin mótsögn, heldur er málefni það, sem hér um ræðir, með þessu tengt því sem lengi hefir verið eitt mikilvægasta deilumál stjórnmálanna, nefnilega það hvort sé betra ríkisforsjá eða einkaframtak.

Hér verður þessi spurning ekki rædd að öðru leyti en því að nefna hér tvö dæmi er gætu hjálpað mönnum til að gera sér grein fyrir því, í hverju spurningin er fólgin.

Á sl. vori dvaldi sá er þetta ritar um tveggja vikna skeið í Bandaríkjunum. Ég rakst þá af tilviljun á grein eftir ungan hagfræðing þarsem hann gagnrýnir þá aðferð við mat á verðmæti þjóðarframleiðslunnar, að leggja saman söluna á markaðnum og verðmætasköpun þá sem á sér stað í opinbera geiranum, sem reiknuð er á kostnaðarverði. Það sé ekki, segir hann, hægt aðleggja að jöfnu þau verðmæti sem seld eru á markaði og eru þá að mati neytendanna a.m.k. jafnvirði þeirra peninga sem þau kosta, og þá þjónustu, sem veitt er af opinberum aðilum eða fjárfestingar á þeirra vegum, þar sem óvissa ríkir um það, hvort borgararnir telji þessi gæði nokkurs virði eða þá hve mikið sé gefandi fyrir þau. Telur hagfræðingurinn réttmætt að deilt sé a.m.k. með tveimur í kostnaðarverð þessara verðmæta til þess að þau verði sambærileg við þau, sem ákvarðast af framboði og eftirspurn á markaðnum.

Út frá þessu sjónarmiði, sem ég geri engan veginn að öllu leyti að mínum, er auðsætt, að þjóðhagslega séð er hagkvæmara að útgerðarmenn fái sjávarrentuna heldur en hún falli hinu opinbera í skaut sem auðlindaskattur.

Hið gagnstæða sjónarmið við þetta kemur á skemmtilegan hátt fram í lofkvæði Kasakaskáldsins, Djambúls til Stalíns, sem þýtt er í Kvæðakveri Laxness, þar sem einræðisherrann er titlaður sem "söngvari þjóðvísunnar", sbr. í þessu sambandi þegar Jakob Ásgeirsson talar í bók sinni "Þjóð í hafti", er út kom fyrir tveimur árum og fjallar um innflutningshaftatímabilið, um "söngsveitina á Skólavörðustíg 14, þar sem átt er við hina valdamiklu gjaldeyrisúthlutunarnefnd sem þar hafði lengst af bækistöð sína á þessu tímabili. Vissulega trúi ég ekki á neinar "söngsveitir" af þessu tagi, eða oinberar nefndir sem þekki betur þarfir hins almenna neytanda en hann gerir sjálfur. ?msir munu nú telja að ekki sé fullt samræmi milli þessa sjónarmiðs og þess sem ég sagði hér að framan að ég væri hallur undir þá skoðun þeirra Gylfa Þ. Gíslasonar, Markúsar Möller o.fl. að auðlindaskattur í einhverri mynd væri skynsamlegri lausn þess vanda er hér hefir verið til umræðu en ókeypis úthlutun veiðileyfa til lengri tíma til þeirra er fást við útgerð. Ég tel þó að svo sé ekki. Í fyrsta lagi þarf auðlindaskattur ekki nauðsynlega að hafa í för með sér aukin umsvif hins opinbera ef aðrir skattar eru lækkaðir sem nemur jafngildi þess, er hann gefur af sér. Í öðru lagi - og það tel ég vera það sem í þessu sambandi skiptir mestu máli - þá tel ég, að það sem kynni að vera í húfi þótt viðurkennt væri að auðlindaskatturinn leiddi til lakari nýtingar sjávarrentunnar en ef hún félli útgerðarmönnum í skaut, sé ekki svo mikilvægt sem það sem tapast myndi ef ósamkomulag um framkvæmd markaðssetningar leiddi til þess að af henni yrði ekki, en áfram yrði byggt á núverandi kerfi með öllum þeim ókostum sem því fylgja.

En þó að ég geti þannig ekki fallist á allt, sem Hannes heldur framí bók sinni, þá tel ég tvímælalaust að hér sé um mjög mikilvægt framlag að ræða í því deilumáli, sem hún fjallar um, þannig að nauðsynlegt sé fyrir alla þá, sem vilja mynda sérskoðun á þessu stóra máli, að kynna sér efni hennar.

Hannes Hólmsteinn Gissurarson