[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í BÍLSKÚRNUM heima á Selfossi dundar Lára Ólafsdóttir sér við að smíða burstabæi í smækkaðri mynd. "Ætli ég hafi ekki smíðað svona þrjátíu bæi í þremur mismunandi stærðum og gerðum frá því í fyrra," segir hún og hyggst ekki láta staðar numið.
Í BÍLSKÚRNUM heima á Selfossi dundar Lára Ólafsdóttir sér við að smíða burstabæi í smækkaðri mynd. "Ætli ég hafi ekki smíðað svona þrjátíu bæi í þremur mismunandi stærðum og gerðum frá því í fyrra," segir hún og hyggst ekki láta staðar numið. Enda hafa flestir bæirnir selst og hún jafnvel farið landshorna á milli til að koma þeim haganlega fyrir í görðum kaupenda.

"Útlendingar eru líka mjög hrifnir af bæjunum mínum," segir hún stolt og rifjar upp ferð sína að Hofi í Öræfum í fyrra. " Á leiðinni stoppaði ég í Vík í Mýrdal og vissi ekki fyrr en hópur erlendra ferðamanna kom aðvífandi og hóf að mynda burstabæina mína í gríð og erg, en ég var með fjóra sem ég flutti á kerru aftan á bílnum."

Burstabær til Kanada

Lára vonar líka að burstabærinn, sem systir hennar, búsett í Kanada, hafði nýverið í farteskinu frá Selfossi vestur um haf, veki sömu lukku. "Ég bara finn á mér að aldamótabærinn á eftir að vekja athygli í Winnipeg þar sem hann verður á listasafni í tengslum við Íslendingadaginn í sumar," segir Lára og lætur þess getið, að oft sjái hún fyrir óorðna atburði. Til dæmis hafi hún sterkt hugboð um að stóri Suðurlandsskjálftinn muni ríða yfir á þessu ári. "Engin spurning," segir hún af sannfæringarkrafti, en vill ekki fara frekar út í þá sálma. Finnst skemmtilegra að tala um burstabæina sína. "Pabbi ólst upp í burstabæ hjá föðurbróður sínum að Ásakoti í Biskupstungum frá tíu ára aldri til tvítugs og hann er hafsjór af fróðleik um hvernig þeir litu út að utan sem innan," segir hún.

Svolítið ótrúlegt, því Lára er aðeins tuttugu og átta ára og ætla mætti að torfbæir hefðu fremur verið bústaðir fjarskyldari forfeðra. "Pabbi minn, Ólafur Jónsson bóndi, var ekkert unglamb þegar hann eignaðist mig og einu alsystur mína, sem er þrítug," segir Lára til skýringar. "Núna er hann níutíu og tveggja ára og segir að fjöldi fólks hafi búið í torfbæjum þegar hann var ungur maður. Ég á tólf hálfsystkini, bæði sammæðra og feðra, og eru þau elstu á sjötugsaldri, hvorki meira né minna. Þegar pabbi hætti búskap árið 1993 keypti hann þetta hús á Selfossi og óskaði eftir því að við hjónin flyttum til hans. Þótt við ættum okkar eigið hús á Hvolsvelli var mér ljúft að verða við þeirri bón og er ánægð með að geta hugsað um pabba á elliárunum. Annars er hann þessa dagana á Sjúkrahúsinu á Selfossi. Það er svo skrýtið að þegar pabbi er ekki heima er eins og einhver gæti herbergisins hans. Þótt ég sé alein í húsinu heyri ég annað slagið fótatak fyrir framan dyrnar og finnst það bara orðið heimilislegt."

Þrjár kynslóðir undir sama þaki

Þótt nú á dögum sé ekki algengt að þrjár kynslóðir búi undir sama þaki finnst Láru fyrirkomulagið prýðilegt. Bónda sinn, Sigurð Rúnarsson, mjólkurbílstjóra og flugvéla- og bílamálara, og synina tvo, sex og fjögurra ára, segir hún líka sama sinnis. "Það eina sem pirrar mig kannski pínulítið er að pabbi tekur svo mikið í nefið. Að öðru leyti er ekkert upp á hann að klaga. Svo eru líka hæg heimatökin fyrir mig að spyrja hann þegar mig vantar upplýsingar um einhver smáatriði varðandi torfbæina."

Þá kveðst Lára ekki hafa þurft að leita langt yfir skammt með verklegar leiðbeiningar. "Siggi, maðurinn minn, hjálpaði mér mikið í byrjun. Þótt ég segi sjálf frá er ég mjög liðtækur smiður og var fljót að tileinka mér handtökin. Mér finnst óskaplega gaman og nota hverja stund sem gefst frá heimilisstörfum og barnauppeldi til að smíða. Ég er ekki lærður smiður, en maður verður að kunna bjarga sér til að draga björg í bú."

Lára segist vera sveitastelpa að upplagi, fædd og uppalin á Oddhóli í Rangárvallasýslu. "Mannsefnið sótti ég nánast á næsta bæ," segir hún hlægjandi og kveðst hafa þekkt Sigurð frá bautu barnsbeini eins og alla aðra í sveitinni. "Meira að segja sama ljósmóðirin tók á móti okkur þótt sautján ára aldursmunur sé á okkur hjónum."

Vísir að búskap

Lára bjó um árabil í Reykjavík þegar hún var í Iðnskólanum en fór heim í sveitina hvenær sem tækifæri gafst. "Mér finnst alltof mikið stress og mengun í höfuðborginni og fer þangað ekki nema ég eigi brýnt erindi. Á Selfossi erum við hjónin með svolítinn vísi að búskap. Við keyptum útihús hérna skammt frá og höfum 32 kindur, 45 aligæsir og eigum auk þess þrjá hesta sem við fengum aðstöðu fyrir á bóndabæ í grenndinni."

Lára viðurkennir að vera mikil búkona í sér en hálft í hvoru hafi tiltækið þó verið vegna föður hennar. "Honum finnst svo gaman að fylgjast með þegar við förum og sinnum skepnunum." Auk ánægjunnar af að hafa kindur segir Lára þær hreinasta gull fyrir heimilishaldið. "Það er alltaf til nægur matur á þessu heimili," segir hún. "Þá eru gæsirnar líka mikil búbót," bætir hún við um leið og hún gætir að eggjunum í útungunarvélinni, sem hún hefur heima hjá sér.

Stærsti draumur Láru er að verða bóndi. Spurningunni um hvort hún gæti hugsað sér að búa í burstabæ, eins og þeim sem hún smíðar, svarar hún játandi. "Samt vildi ég að hann væri búinn helstu nútímaþægindum að innan. Kannski byggjum við Sigurður okkur svona burstabæ í framtíðinni. Þangað til verðum við bara að láta okkur nægja að hafa einn lítinn úti í garði hjá okkur."

vþj.