"Svalt kæruleysið er allsráðandi og smjörugir gítarhljómar ásamt þykkum bassalínum gera að verkum að maður sér ósjálfrátt fyrir sér kafloðinn vítisengill, brunandi á risavöxnum vélfáki um Arizonaeyðimörkina," segir m.a. um tónlist í Brain Police
"Svalt kæruleysið er allsráðandi og smjörugir gítarhljómar ásamt þykkum bassalínum gera að verkum að maður sér ósjálfrátt fyrir sér kafloðinn vítisengill, brunandi á risavöxnum vélfáki um Arizonaeyðimörkina," segir m.a. um tónlist í Brain Police
GLACIER Sun, netplata hljómsveitarinnar Brain Police. Sveitina skipa þeir Vagn Leví (gítar og aðalrödd), Hörður Stefánsson (bassi), Jón Björn Ríkarðsson (trommur) og Gunnlaugur Lárusson II (aðalgítar og Forte-píanó). Öll lög og textar eru eftir Brain Police. 58,14 mín. Brain Police gefa út.
"...EN mér líkar það samt" söng hann Mick okkar Jagger í eina tíð og setti þar með á smekklegan hátt eitt af helstu einkennum rokksins í orð. Rokkið er engin vísindi, sannindi sem strákarnir í Brain Police gera að sínum á þessari fyrstu útgáfu sinni. Tónlistin er drullugt eyðimerkurrokk, svokallað "desert rock" eða "stoner rock", en venjulega er lítill greinarmunur gerður á þessum tveimur stefnum. Hér er að finna feitar tilvísanir í guðfeður riffsins, sjálfa Black Sabbath og piltarnir feta rokkslóð áþekka þeirri sem erlendar sveitir eins og Fu Manchu, Kyuss og Queens Of The Stone Age hafa troðið.

En eitthvað kunna strákarnir fyrir sér í tölvuvísindum því að platan er, þegar þetta er ritað, einungis til á netheimum. Brain Police ákváðu að slá Eyfa vini mínum ref fyrir rass og hleyptu lögunum sínum tíu inn á Netið þegar nokkrar sekúndur voru liðnar af árinu, og urðu þar með fyrstir íslenskra tónlistarmanna til að gefa út á þessu ári. Þetta er í fyrsta skipti svo ég viti til að netútgáfa sé sett undir ritdóm og því ekki úr vegi að eyða smápúðri í vangaveltur um galla og kosti slíkrar útgáfu.

Plötuna er hægt að hlaða niður í heild sinni af heimasíðu piltanna (www.brainpolice.to) en einnig er hægt að hlaða niður einstök lög ef menn kjósa svo. Þar með er hugmyndin um heilstætt hljómverk þegar mölbrotin og ljóst að Netið er töluvert öðruvísi upplýsingamiðill en t.d. geisla- og vínylplötur. Hvað dreifingu plötunnar varðar er vert að hafa í huga aðgengi að tölvum, margir hreinlega eiga ekki slík tæki og netnotkun fólks er enn ekki orðin almenn þótt hún færist stöðugt í aukana. Þar af leiðandi eiga sumir líklega erfitt með að nálgast plötuna. Einnig er hægt að tiltaka hluti eins og tækjakost og tækniþekkingu. Sumir (eins og t.d. ég) eiga fremur hægvirkar tölvur sem eru heillengi að sækja gögnin og víst er að sumir veigra sér við að reyna afhleðslu á plötum, sökum "tölvuhræðslu" og þeirri staðreynd að tæknin er fremur ný af nálinni.

Augljósir kostir eru hins vegar þeir að þú greiðir opinberlega ekkert verð fyrir plötuna, þú getur valið að sækja hana í heild eða hluta og getur dreift henni um allan heim á tölvutæku formi. Listamennirnir sjálfir hafa líka betra færi á að halda utan um verkin sín er þeir keyra þau sjálfir út frá eigin vefsíðum. Tilvera MP3-hljómskjala á netinu, en það er heiti formsins sem hýsir tónlistina, hefur vakið upp heitar umræður undanfarið og fram hafa komið spurningar varðandi eðli höfundarréttar o.s.frv. Hvað sem því öllu líður eiga Brain Police heiður skilinn fyrir brautarruðning í þessum málum hér á landi og eflaust eiga fleiri sveitir eftir að fylgja þeim að málum í framtíðinni.

En hvernig er svo netverkið sjálft? Platan er oft á tíðum "drullu"flott, svalt kæruleysið er allsráðandi og smjörugir gítarhljómar ásamt þykkum bassalínum gera að verkum að maður sér ósjálfrátt fyrir sér kafloðinn vítisengil, brunandi á risavöxnum vélfáki um Arizona-eyðimörkina.

Heilalöggan er því með stílinn á hreinu. En vissir byrjunarörðugleikar hrjá þó plötuna. Ég geri mér í hugarlund að strákarnir hafi vísvitandi ætlað að hafa hljóminn svona þykkan, drullugan og skítugan en þessi tilætlan þeirra verður hins vegar til þess að hann verður fremur máttlítill. Lögin eru ekta rokkstuðlög og því hefði upptaka mátt vera skarpari og ákveðnari.

Söngur er í óöruggara lagi og lítið heyrist í ágætlega skemmtilegum trommuleiknum. Nokkur lög eins og t.d. "Erection Boogie", "Muscle Beach" og "God's Cleavage" ná að fara á fulla ferð og eru vel heppnaðar lagasmíðar.

Önnur lög eru heldur einsleit og renna saman í eitt við endurtekna hlustun.

Síðasta lag plötunnar er gríðarinnar langhundur, eins og grófmalaður gimsteinn sem gín gapandi við glóðarskugga Gaza... (þú ert rekinn! Ritstj.) Á hljómleikum er Brain Police allra sveita þéttust og það í fleiri en einum skilningi. Sá kraftur skilar sér því miður ekki nægilega vel inn á þennan frumburð piltanna. "Glacier Sun" er því sjúskað en sjarmerandi byrjendaverk.

Arnar Eggert Thoroddsen