12. júlí 2000 | Aðsent efni | 970 orð | 2 myndir

Kjör

,,Gangastúlkurnar hvæstu..."

Guðmundur Sævar Sævarsson
Guðmundur Sævar Sævarsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hvarflar það virkilega að einhverjum, spyrja Ásta Svavarsdóttir og Guðmundur Sævar Sævarsson, að starfsmenn sem hafa langmestu samskiptin við sjúklinginn séu ekki aðilar að meðferð hans?
Á vegum Landspítalans eru nokkrar geðdeildir. Kleppur er þekktastur, svo geðdeildarbyggingin á Landspítalalóðinni, deildir á Lsp. í Fossvogi, Barna- og unglingageðdeildin o.fl. Starf þessara deilda er mannað með læknum, hjúkrunarfræðingum, sjúkraliðum og starfsmönnum. Það kann að koma ókunnugum á óvart að stærstur hluti starfsfólks er ófaglærðir starfsmenn og þeir hafa mest samskipti við sjúklingana. Og mestu samskiptin við þá mest veiku því yfir þeim er setið allan sólarhringinn.

Geðdeildir eru svolítið sérstakar sjúkrastofnanir vegna þess að sjúklingarnir eru ekki líkamlega veikir. Hefur sú hefð skapast að starfsmenn vinna við hlið sjúkraliða sömu störfin. Sjúkraliðarnir eru á hærra kaupi en þeir fást ekki inn á deildirnar. Starfsmenn sinna þ.a.l. verðmætari vinnu en þeir fá fyrir hana.

Áður fyrr skiptust starfsmenn í tvennt: gangastúlkur og gæslumenn. Gangastúlkurnar sinntu býtibúrum og mjúku verkunum en gæslumennirnir gættu friðar. Auðvitað voru karlmennirnir á hærri launum. Með minni fordómum og auknu jafnrétti voru þessi störf sameinuð og bera nú ófaglærðir starfskraftar hið óformlega starfsheiti; starfsmenn. Jafnrétti náðist með launalækkun karlanna.

Vinna starfsmanna flokkast, kjaralega séð, undir umönnunarstörf og er svo í langflestum tilvikum. Það getur verið ákaflega gefandi að vinna á geðdeild. Þangað kemur mikið af fólki, bæði venjulegu fólki og líka óvenjulegu, hverjum með sína sögu, sumar stórkostlegar en flestar þó sorglegar. Enda gerir enginn það að gamni sínu að leggjast inn á geðdeild.

Starfsmenn staldra yfirleitt stutt við sem er hið versta mál því sumir sjúklingar þurfa ítrekað að leggjast inn á deild og þurfa að kynnast nýju fólki í hvert skipti. Vinnureglan er að sjúklingurinn tilheyrir þeirri deild sem hann leggst fyrst inn á. Frekar tilgangslaus regla þegar mannabreytingarnar eru jafn örar og raun ber vitni.

Byrjunarlaun ungra starfsmanna eru rétt rúmlega 70.000 kr. á mánuði. Annars er það lífaldurinn sem blífur, starfsaldurinn hefur lítið að segja. Maður með 20 ára starfsreynslu er á sömu launum og sá með tveggja ára reynslu. Þótt þessi starfsreynsla sé ekki metin þar sem hún er fengin er hún vel metin annars staðar. Það er því engin ástæða til að ílendast.

Vegna þessara smánarlauna er viðvarandi mannekla og deildir iðulega reknar á aukavöktum. Gott dæmi um það að spara eyrinn og kasta krónunni. Hjúkrunarstjórnin stendur uppi ráðalaus og hvaða jólasveinn sem er ráðinn sem á ekkert erindi inn á deild. Stundum lítur starfsmannavaktin út eins og barnaheimili og kynslóðabilið á milli starfsmanna og fullorðinna sjúklinga óbrúanlegt. Það er slæmt þegar þú liggur inni á geðdeild og hefur engan til að tala við. Það segir sig líka sjálft að vinnustaður sem er sífellt mannaður viðvaningum getur ekki starfað eðlilega. Legutími sjúklinganna lengist og kostnaður skattgreiðenda eykst. Burtséð frá öllum krónutölum er þetta ástand vanvirðing gagnvart sjúklingunum.

Inn á geðdeild leggst fólk með mjög alvarlega geðsjúkdóma. Þetta ætti nú að liggja í hlutarins eðli en launagreiðandi okkar virðist ekki átta sig á þessu. Við þurfum að fást við fólk sem er í sturlunarástandi og óábyrgt gerða sinna. Stundum kemur til ryskinga. Nógu oft samt til þess að ástæða er til að halda átakaskýrslur. Við búum við það öllum stundum að eitthvað geti út af borið á okkar deild eða annarra. Neyðarbjallan getur glumið hvenær sem er og okkur er skylt að bregðast við. Við höfum enga hugmynd um að hverju við komum né í hverju við lendum. Starfsfólk hefur orðið fyrir meiðslum og sumum alvarlegum. Sumir þessara sjúklinga sem eru að bíta okkur og klóra þjást einnig af smitsjúkdómum eins og lifrarbólgu b og c og HIV.

Nú verður því ekki neitað að við erum ófaglærðir starfsmenn í ríkisgeiranum og neðar verður varla komist, það var vitað við ráðningu. En nýverið gerðist það að vaktmenn Lsp. tóku við gæslu í geðdeildarbyggingu sem okkar menn, Eflingarmenn, höfðu sinnt. Við það eitt að koma inn í húsið hækkuðu þessir menn um einn launaflokk vegna áhættunnar. Lögreglumenn fá líka áhættuþóknun fyrir það að stíga inn um dyrnar. Við vinnum inni á deildunum og þykjum óhult! Ófaglærðir starfsmenn Barna- og unglingageðdeildar Landspítalans, og takið eftir að þetta er nákvæmlega sama stofnunin, hafa starfsheitið meðferðarfulltrúar og eru fyrir vikið á hærri launum. Meðferðarfulltrúarnir eru í SFR en við í Eflingu. Samt eru þetta sömu störfin, starfsmenn fara á milli staða og taka aukavaktir. Nú á að taka í notkun bráðaherbergi á Buglinu og fá meðferðarfulltrúar launahækkun fyrir það. Það eru bráðaherbergi hjá okkur og hafa verið í mörg ár en engin er launahækkunin. Hvers vegna starfsmenn Buglsins eru með hærri laun er einn af leyndardómum lífsins því engin rökrétt skýring hefur fengist á þessu. Kannski er það meiri og erfiðari vinna að vinna með börnum og unglingum en samkvæmt þeim rökum ættu leik- og grunnskólakennarar að vera með hæstu launin í kennarastéttinni en sú er ekki raunin. Og hvarflar það virkilega að einhverjum að starfsmenn sem hafa langmestu samskiptin við sjúklinginn séu ekki aðilar að meðferð hans?

Sú tíska er í gangi að fólk eigi helst ekki að vera í stéttarfélögunum, hver og einn eigi að semja fyrir sig svo að einstaklingurinn fái að njóta sín. Sem betur fer virðist þorri fólks átta sig á hvílík della þetta er og að samtakamátturinn gildir. Auðvitað er hægt að greina störfin í smáeiningar, þau eru mjög mismunandi eftir deildum. Eðli málsins samkvæmt er ívið hættulegra að vinna á móttökudeild en á langlegudeild. Einnig er mismunandi mikið álag á deildum og beinlínis ósanngjarnt að starfsmenn tveggja deilda með mjög mismikinn álagsþunga skuli hafa sömu launin. Og það bitnar frekar á körlunum þegar hættuástand skapast. Eigum við að fara í sama gamla farið og byrja hringavitleysuna upp á nýtt? Eða ættum við að standa saman? Því hverjum er það til gagns að við klifrum eftir bökunum hvert á öðru öðrum en launagreiðandanum? Með því að slíta okkur í sundur glötum við ekki aðeins samtakamættinum heldur veitum viðsemjendunum vopn í baráttunni gegn hinum. En það skiptir kannski litlu máli því það endist enginn hvort sem er.

Ásta Svavarsdóttir er starfsmaður og Guðmundur Sævar Sævarsson starfs- og vaktmaður.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.