Listamenn og höfundar Skáldskapar skógarins.
Listamenn og höfundar Skáldskapar skógarins.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Á morgun verður opnuð óvenjuleg og viðamikil myndlistarsýning við Rauðavatn í útjaðri Reykjavíkur. Sýningin ber heitið Landlist við Rauðavatn og sýna þar sautján listamenn sextán verk, sem öll eru unnin með samspil við náttúruna þar í kring í huga.

Á morgun verður opnuð óvenjuleg og viðamikil myndlistarsýning við Rauðavatn í útjaðri Reykjavíkur. Sýningin ber heitið Landlist við Rauðavatn og sýna þar sautján listamenn sextán verk, sem öll eru unnin með samspil við náttúruna þar í kring í huga. Auk þess hafa listamennirnir notið aðstoðar ungs fólks úr Reykjavík, sem vinnur hjá Vinnuskóla Reykjavíkur í sumar. INGA MARÍA LEIFSDÓTTIR sá fjölbreytta myndlist og hitti fyrir samhentan hóp listafólks sem var að leggja síðustu hönd á verkin þegar hún heimsótti svæðið nú í vikunni.

SVÆÐIÐ í kringum Rauðavatn er vinsælt útivistarsvæði Reykvíkinga. Þar er ýmislegt hægt að gera; ganga, sigla, veiða, flatmaga og villast í skógi. Nú er þar einnig hægt að skoða margvísleg og forvitnileg listaverk unnin af íslenskum listamönnum og ungum aðstoðarmönnum þeirra í Vinnuskóla Reykjavíkur. Verkin standa á víð og dreif sunnan og austan við vatnið og eru eins misjöfn og þau eru mörg.

Samstarfsverkefni

Verkefnið er samstarfsverkefni Vinnuskóla Reykjavíkur og Reykjavíkur - menningarborgar Evrópu árið 2000. Hugmyndina að verkefninu átti Guðrún Erla Geirsdóttir, formaður stjórnar Vinnuskóla Reykjavíkur. Í henni felst að starfsemi Vinnuskólans breikki og tengist menningarborgardagskránni. Hugmyndin var auglýst og kynnt fyrir listamönnum í fyrra og skiluðu þeir tillögum að verkum, sem svo var valið úr. Skilyrðin voru þau að nemendur Vinnuskólans gætu á einhvern hátt komið að og átt þátt í gerð og uppsetningu verkanna, sem og að notast væri við náttúruna og verkin yrðu til upp úr því sem landið gæfi og félli vel inn í það landslag sem fyrir hendi væri. Nemendur Vinnuskólans áttu svo kost á að velja sér þetta verkefni sérstaklega og völdu flestir þeir sem taka þátt í verkefninu þetta starf. Starfið felst annars vegar í aðstoð við listamenn og hins vegar í almennri umhirðu og vinnu á svæðinu kringum vatnið.

Tuttugu og tvö ungmenni tóku þátt í verkefninu ásamt listamönnunum sautján. Verkin hafa flest verið í vinnslu síðan í byrjun júní, en tvö þeirra voru unnin síðasta sumar. Listamenn skiluðu í upphafi hugmyndum sem þróuðust áfram við vinnuna á staðnum. Mörg verkin breyttust eftir að komið var á staðinn og farið að kanna aðstæður og í sumum tilfellum fengu krakkarnir að taka þátt í sköpun og hugmyndavinnu verksins ásamt listamönnunum. Í öllum tilfellum er um að ræða verk sem tengjast á einhvern hátt náttúrunni og umhverfinu í kringum vatnið, þó að verkin taki á mjög ólíkan hátt á efninu.

Skáldskapur skógarins

Eina verkið á sýningunni sem unnið er í samstarfi tveggja listamanna nefnist Skáldskapur skógarins. Það er verk þeirra Guðrúnar Veru Hjartardóttur og Elsu Dórótheu Gísladóttur og fengu þær til liðs við sig tvö ungmenni úr Vinnuskólanum, Helgu Björk Pálsdóttur og Aðalstein Má Ólafsson. Verkið skiptist í fimm hluta sem liggja út af þröngum stíg í skóginum austan við vatnið. Fimmti og síðasti hlutinn er unninn í algjörri samvinnu listamannanna og krakkanna. "Við Guðrún Vera komum hérna í vetur og gengum um svæðið til að fá hugmyndir. Það var svo merkilegt að við fengum báðar sömu tilfinninguna á hverjum stað," segir Elsa Dóróthea. "Svo fórum við heim og unnum úr hugmyndunum en skildum eina eftir óunna. Þegar við hittum krakkana settumst við niður með þeim og fengum innblástur. Svo byrjuðum við bara að skapa hlutina."

Allir hlutar verksins bjóða upp á þátttöku áhorfandans. Fyrsti hluti verksins er trjábolur, sem skorinn hefur verið út eins og tréskór og hægt er að standa ofan í. "Okkur fannst svo mikil jarðtenging á staðnum," útskýrir Guðrún Vera. "Maður þarf bara að fara úr skónum sínum og ofan í þessa." Annar hlutinn er fullkomin andstæða fyrsta hlutans. Þar eru eins konar svalir á staur sem hægt er að klifra upp í. "Hérna vildum við fá frelsistilfinninguna, opnara og meira hengiflug. Staðurinn býður upp á það," segja listakonurnar. Þriðji hlutinn er hengirúm sem hangir milli tveggja tréstaura. Blaðamaður leggst upp í rúmið og lætur vindinn vagga sér. "Færðu ekki á tilfinninguna að þú svífir í lausu lofti?" spyr Guðrún Vera. "Það var tilfinningin sem við fengum á þessum stað." Fjórði hlutinn er þröngur tréstígur sem endar á palli. Listakonurnar hvetja blaðamann til að ganga inn á pallinn. Í fyrstu er ekkert sérstakt að sjá, en þegar litið er upp í trén sem umlykja pallinn má sjá óteljandi spegla- og glerbrot hanga í trjánum. "Töfraheimur," segir Elsa Dóróthea. Fimmti og síðasti hlutinn er í rjóðri inni í skóginum. "Þetta bjuggum við til öll saman, því þegar við Guðrún Vera komum hérna fundum við ekki fyrir neinu," útskýrir Elsa Dóróthea. "Við leiddum svo krakkana inn í sama ferli og við höfðum farið í gegnum áður. Settumst niður og pældum í staðnum." Í rjóðrinu er fjöldi smágerðra hluta unninna úr efniviði skógarins; hásæti, torg með eins konar gosbrunni, rólur, lítil hús og margt fleira. Guðrún Vera bætir við að þetta minni eiginlega á búleik. "Við hugsuðum okkur að þetta gæti verið fyrir fuglana. Eða álfana," segir hún hugsandi.

Aðstoðarmenn listakvennanna segja að vinnan við listaverkið hafi verið mjög skemmtileg. "Það var gaman að fá að taka þátt í að skapa. Svo er þetta skemmtilegt umhverfi að vinna í," segir Helga Björk. Hún segist ekki hafa þekkt til listakvennanna áður en vinnan hófst. En er þetta list að hennar dómi? "Já, mér finnst það. Þetta er skemmtileg list." Hvernig þá skemmtileg? "Bara það að sjá þetta fyrir sér og framkvæma þetta svo. Að gera eitthvað skemmtilegt úr þessu."

Fuglahús í ýmsum litum

Í rjóðri skammt frá listamönnum skáldskaparins er Kristín Reynisdóttir að hengja upp fuglahús í trén. Húsin, sem eru úr plexigleri, eru í mismunandi litum og formum. "Ég vinn þetta þannig, að ég bý til pappírslíkan af húsinu og læt svo smíða það úti í bæ. Vinnan í kringum þetta hefur snúist talsvert um arkitektúr, engin húsanna eru eins og ég reyni að hafa þau í mismunandi stíl," útskýrir Kristín. Hugmyndina segir Kristín hafa vaknað þegar hún kom á staðinn um vetur og sá ekkert nema fuglana sem feyktust um í vindinum. "Þá vildi ég byggja eitthvert skjól fyrir þá. Það er þessi árátta manns að manngera alla hluti. Ég veit ekkert hvort fuglarnir vilja nokkuð nota þessi hús," segir Kristín og brosir.

Norðlingabúð - voðaverkið

Niðri við vatnið er Anna Þóra Karlsdóttir umkringd ungu fólki sem keppist við að klippa til furugreinar, flétta tjaldgrindur og sauma saman voðir. Alls eru þarna risin fjögur tjöld, úr ullarvoðum. "Upphaflega vildi ég bara vinna með ullina utandyra og gera skýli. Þegar leið á veturinn kom upp umræða um Norðlingaholtin, sem eru hér í grenndinni, og þá datt mér í hug að tengja þetta saman," útskýrir Anna Þóra. Hún segir unglingana hafa haft tækifæri til að taka mikinn þátt í uppsetningu verksins og þróun þess. "Ég hefði aldrei getað gert þetta ein, þetta er svo mikil vinna," segir hún hlæjandi. "Þetta er mjög heppilegt efni að vinna í með krökkum. Þessar voðir eru gerðar með elstu aðferð sem til er við að vinna ullarefni. Krakkarnir kalla listaverkið voðaverkið."

Hafsteinn Vilhelmsson og Arndís Kristjánsdóttir eru tvö þeirra ungmenna sem hafa verið Önnu Þóru innan handar við gerð Norðlingabúðar. Þau segja vinnuna hafa verið skemmtilega og verkið flott. "Minnir dálítið á Gísla Súrsson," skýtur Hafsteinn inn í. En er þetta list að þeirra dómi? "Já, er það ekki? Þetta eru listamenn að störfum. En fyrst og fremst er verkið okkar voðaverk."

Norðurljósasætið

Erla Þórarinsdóttir setti upp verk sitt, Norðurljósasæti, í fyrrasumar. "Verkið stendur þar sem ekkert rafmagn er, þannig að norðurljósin sjást hérna. Ég vildi gera verk sem vísar til norðurljósanna, þar sem þau eru mjög sérstakt fyrirbrigði og einstakt að þau skuli sjást hér í borginni," segir Erla. "Ég gerði þennan stól sem vísar til upplifunar einstaklingsins á þessu náttúrufyrirbæri, bara eitt sæti. Það stendur í norður-suður-segulátt, en segulkraftar jarðar hafa afgerandi áhrif á birtingu norðurljósanna." Með Erlu unnu þrjú ungmenni síðasta sumar og segir Erla að þau hafi hjálpað sér mjög mikið. "Hver steinn er 14 kíló, þannig að þetta voru áreiðanlega nokkur tonn sem við þurftum að bera og hlaða. Það var gott að hafa dygga aðstoðarmenn, sem þau voru."

Fjölbreytt útilistaverk

Verkin á sýningunni eru sextán talsins. Flest eru þau gerð úr náttúrulegum efniviði og falla inn í landslagið sem fyrir er. Verkin eru mjög fjölbreytt; þar má sjá lóur gá til veðurs, stórt laufabrauð úr torfi, fleka fljótandi á vatninu og svo mætti lengi telja. Mörg verkin eru líka þess eðlis að áhorfandi getur að einhverju leyti tekið þátt í þeim, sest á þau, klifrað í þeim eða jafnvel bætt við þau. Til stendur að verkin fái að standa þar til þau eyðast af sjálfum sér.

Með sýningunni fylgja kort og upplýsingabæklingur, sem greina frá staðsetningu verkanna, hugmyndum á bak við þau og höfundum.