Hilmar Jónsson
Hilmar Jónsson
Framundan er, segir Hilmar Jónsson, uppgjör um málefni kristninnar.

ÉG FÓR á Þingvöll laugardaginn 1. júlí. Það gerum við hjónin þrisvar til fjórum sinnum á ári okkur til sálubótar en af ýmsum ástæðum höfðum við ekki farið á stórhátíðirnar 1974 og 1994. Þetta var því mitt síðasta tækifæri að sjá hátíð á þessum helga stað. Veðrið var gott . Umferðin nánast engin og allt skipulag eins og best verður á kosið. Tveggja kílómetra labb frá bílastæði að hátíðarsvæði var æskileg hreyfing fyrir mann, sem gengur 5-10 km á degi hverjum. Hins vegar sóttist okkur Elísabetu og sonarsyni okkar leiðin seint, einkum eftir að Öxará kom í augsýn og hægt var að kasta út í hana steinum. Stiginn við fossinn var stórkostlegur og á að standa um langa framtíð. Hann minnti okkur Elísabetu á þjóðgarð í Júgóslavíu, sem við komum í 1988, þar sem óteljandi fossar voru gerðir aðgengilegir með stigum. Á góða barnamessu og hluta af Þrymskviðu hlustuðum við í sólskininu og þegar heim kom sá ég stórkostlega gospel-tónleika á stóra sviðinu. Í fréttum og öllum fjölmiðlum löngu fyrir hátíðina var gert ráð fyrir 50-70 þúsund manns.

Elín Hirst sagði í sjónvarpsviðtali um kvöldið að þarna hefðu verið um 6-7 þúsund manns. Hvað var að gerast?

Einn af vitrustu mönnum þjóðarinnar sagði við mig daginn eftir: "Þetta var svar 80% þjóðarinnar við KFUM- fólki og vinstri sinnuðum gáfumönnum á borð við Kolbrúnu Halldórsdóttur, er mótuðu dagskrána. Við sátum flest heima og ég er stoltur af minni þjóð. Svo á ríkisstjórnin sinn þátt í almennri reiði." En ekki stóð á hrokanum, þegar rök og staðreyndir brustu: Í sjónvarpsþætti sagði framkvæmdastjóri hátíðarinnar við Margréti Sverrisdóttur, þegar hann var mát í kappræðunni: "Varaþingmaðurinn segir .." Í sama þætti virtist prestur ekki vita að við hefðum gengið páfa á hönd árið 1000. Ófriðnum linnir ekki innan kirkjunnar: Mér var sagt af presti, sem ekki fekk boðskort á Þingvöll. Hann er á svörtum lista. Af þessu tilefni tel ég að Sigurður Guðjónsson, ágætur rithöfundur og góðviljaður maður, ætti að draga kæru sína til baka á fyrrverandi biskup, Sigurbjörn Einarsson. Sú kæra er ekki til bóta. Í þessum forarpolli fara marxistar hamförum undir leiðsögn Gunnars Kristjánssonar, prófasts á Reynivöllum. Hann sagði við útför Halldórs Laxness, að Kiljan hefði verið frelsis- og mannvinur. Fyrr má nú rota en dauðrota. Blessaður forsetinn lætur ekki sitt eftir liggja. Hann krossaði Vilborgu Dagbjartsdóttur, einan rithöfunda, í tilefni kristnihátíðar. Fyrr á tíð voru voru prestar höfuðskáld og menningarvitar nú er farið inn í kirkjur með auman leirburð og ófullburða verk eins og þar sé um Davíð Stefánsson eða Matthías Jochumsson að ræða. Það uppgjör, sem ýmsir greindir menn hafa séð óumflýjanlegt, er nú framundan um málefni kristninnar.

Höfundur er rithöfundur.