3. ágúst 2000 | Innlendar fréttir | 693 orð

Þorgeirskirkja við Ljósavatn vígð á sunnudag

Ásatrúarmenn hyggjast blóta við Goðafoss

HINN 6. ágúst næstkomandi verður Þorgeirskirkja að Ljósavatni í Ljósavatnshreppi í S-Þingeyjarsýslu vígð til kirkjulegrar notkunar. Athöfnin hefst kl. 13.30 á því, að Karl Sigurbjörnsson biskup Íslands vígir kirkjuna.
HINN 6. ágúst næstkomandi verður Þorgeirskirkja að Ljósavatni í Ljósavatnshreppi í S-Þingeyjarsýslu vígð til kirkjulegrar notkunar.

Athöfnin hefst kl. 13.30 á því, að Karl Sigurbjörnsson biskup Íslands vígir kirkjuna. Pétur Þórarinsson prófastur Þingeyjarprófastdæmis mun ásamt Arnaldi Bárðarsyni sóknarpresti þjóna fyrir altari og kór Ljósavatnskirkju syngja undir stjórn Dagnýjar Pétursdóttur.

Að lokinni guðsþjónustu munu nokkrir aðilar taka til máls í kirkjunni og færa henni gjafir. Kaffi verður síðan veitt í safnaðarheimilinu.

Kl. 16 hefst hátíðardagskrá við Goðafoss. Þar munu allir kirkjukórar prófastsdæmisins sameinast, alls um 150 manns, og flytja meðal annars tvö frumsamin lög og texta, sem samin voru sérstaklega af þessu tilefni. Barnakór skipaður 100 börnum mun síðan flytja fjögur lög og sr. Bolli Gústavsson vígslubiskup að Hólum í Hjaltadal flytur hátíðarræðu að því loknu. Eftir ræðu sr. Bolla ávarpar Halldór Kristinsson sýslumaður Þingeyjarsýslna samkomuna.

Lokaatriði dagskrárinnar er leikþáttur, sem túlkar þá sögn, þegar Þorgeir Ljósvetningagoði kastaði hinum heiðnu goðum í Goðafoss. Sú sögn birtist fyrst á prenti í Íslandssögu Jónasar frá Hriflu og sagði sr. Pétur Þórarinsson prófastur í samtali við Morgunblaðið, að hún væri talin vera frá miðri 19. öld. Samkvæmt sögninni kastar Þorgeir goðunum í fossinn eftir að hafa tekið kristna trú og losar sig þannig við hin áþreifanlegu tákn fyrir goðmögn ásatrúarinnar. Öðrum þræði er sögnin tilraun til að útskýra nafn Goðafoss. Rannsóknir á fornum átrúnaði hafa hins vegar sýnt að fossar hafa gegnt mikilvægu hlutverki sem blótstaðir og því gæti nafngiftin allt eins átt sér uppruna í því, að fossinn hafi verið staður, þar sem goðin voru blótuð.

Ásatrúarmenn hyggjast blóta

Ásatrúarmenn ætla að koma saman við Goðafoss og blóta skömmu fyrir hátíðina á sunnudag. Valgeiri Sigurðssyni, sem er í forsvari fyrir norðlenska ásatrúarmenn, finnst að með því að sýna leikþáttinn sé nánast eins og verið sé að sparka í liggjandi mann. "Þegar Þorgeir setur goðin í fossinn, þá er hann bara að blóta. Þetta er engin sorplosun. Mér finnst það sem kirkjan er að gera vera svipað því að við færum að brenna biblíur og prestshempur."

Sr. Pétur tekur ekki undir þá staðhæfingu ásatrúarmanna, að með leikþættinum sé verið að óvirða ásatrúna.

Goðunum sýnd virðing

"Þessi leikþáttur er skrifaður af Jónasi Kristjánssyni hjá Árnastofnun og er mjög vel byggður og hvílir náttúrlega þungamiðjan á því, að Þorgeir var heiðinn höfðingi og þurfti því að takast verulega á við sinn innri mann að velja á milli. Goðin voru hans bestu vinir og hann treysti þeim. Þetta leikrit sýnir kveðju Þorgeirs til goðanna og hann flytur goðunum ákveðin orð, um leið og hann varpar þeim til hvíldar í fossinum. Ég myndi segja að goðunum sé gert mjög hátt undir höfði og einmitt minnt á það sterklega, að þarna réði heiðinn höfðingi því, að Íslendingar urðu kristin þjóð."

Tíu hestamenn munu leika Þorgeir og fylgdarlið hans og koma ríðandi frá Ljósavatni að Goðafossi. "Þessi þáttur á að vera tákn og undirstrikun á heiðni Þorgeirs og eiginlega benda á þá skynsemi sem hann lét ráða, þegar hann kvaddi goðin, þótt hann segði, að það mætti blóta á laun. Þessi afstaða hans er mjög merkileg og kristnisögu Íslands mjög nærri og menn mættu veita því meiri athygli að þarna var heiðinn maður að verki." Pétur segist hafa skilning á því að fyrirhuguð leiksýning veki viðbrögð hjá ásatrúarmönnum. "Í sjálfu sér finnst mér ekki óeðlilegt að þeir bregðist við, þegar þeir fá svona óljósar sagnir af því, hvað þarna eigi að fara fram; að það eigi bara að henda goðunum í fossinn. Þá hugsa þeir sennilega, að þarna sé verið að hæðast að goðunum, en ég veit það, að ef þeir koma þangað, þá muni þeir hrífast af þeim texta, sem verður fluttur. Þarna er virðing fyrir goðunum mjög hátt upp hafin og þeim sýnd virðing, nánast eins og við kveðjuathöfn eða útför. Og fossinn er veglegur hvílustaður. Þess vegna er sagan svona myndræn og lifir með þjóðinni."

Þér finnst það ekki vera óvirðing við goðin, að þau séu lögð til hinstu hvílu?

"Nei, mér hefði þótt það, hefði það verið gert með einhverjum spjátrungsskap og háði. Þetta leikrit er ekki sigurhátíð Krists yfir goðunum, heldur einfaldlega tjáning á tilfinningum og baráttu Þorgeirs fyrir því að þarna skyldi einn siður ráða og það hefur örugglega ekki verið sársaukalaust af hans hálfu."

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.