Merchant
Merchant
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
SNORRI Þórisson , aðaleigandi kvikmyndafyrirtækisins Pegasus, hefur undirritað í New York þróunar- og framleiðslusamning við eitt þekktasta óháða kvikmyndafyrirtæki heims, Merchant Ivory Productions, um samframleiðslu kvikmyndarinnar Sjálfstætt fólk...
SNORRI Þórisson , aðaleigandi kvikmyndafyrirtækisins Pegasus, hefur undirritað í New York þróunar- og framleiðslusamning við eitt þekktasta óháða kvikmyndafyrirtæki heims, Merchant Ivory Productions, um samframleiðslu kvikmyndarinnar Sjálfstætt fólk eftir skáldsögu Halldórs Laxness . Jafnframt hefur helsti samstarfsmaður framleiðandans Ishmail Merchant og leikstjórans James Ivory , handritshöfundurinn Ruth Prawer Jhabvala, verið ráðin til að skrifa handritið.

Merchant, Ivory og Jhabvala hafa hlotið fjölda alþjóðlegra viðurkenninga fyrir vandaðar myndir sem gjarnan eru byggðar á þekktum bókmenntaverkum sígildra höfunda á borð við Henry James og EM Forster. Ruth Prawer Jhabvala hefur m.a. hlotið tvenn Óskarsverðlaun, fyrir handrit sín að myndunum A Room With a View (1986) og Howard's End (1992). Af öðrum þekktum myndum þessa þríeykis má nefna Heat and Dust og Remains of the Day.

Snorri Þórisson kveðst afar ánægður með að hafa náð samningum við þetta virta framleiðslufyrirtæki og við handritshöfund með jafn mikla reynslu af handritsgerð eftir skáldverkum. "Hún er mjög heppileg fyrir verkefnið enda hafa flest handrit hennar byggst á sögum um fólk sem er að reyna að halda mannlegri reisn við erfiðar kringumstæður." Hann segir Ruth Prawer Jhabvala ekki hafa lesið Sjálfstætt fólk fyrr en nú. "En hins vegar hitti hún Halldór Laxness í Delhí á Indlandi árið 1956 þegar hann var þar að flytja fyrirlestur. Honum var þá boðið í samkvæmi til að hitta þarlenda rithöfunda og þar var Ruth stödd. Þau áttu langt spjall saman, sem er henni minnisstætt." Ruth Prawer Jhabvala er þýsk að uppruna en gift Indverja.

Samningurinn við Merchant Ivory Productions hljóðar upp á helmingaskipti í bæði fjárhagslegum og listrænum efnum. Kostnaðaráætlun er nú á bilinu 14 til 20 milljónir dollara og segir Snorri áhuga fjárfesta þegar orðinn umtalsverðan. Kunnir leikarar eru nú til skoðunar í helstu hlutverk en Snorri segir ekkert ákveðið í þeim efnum. "Fyrst þarf handrit að liggja fyrir og svo kemur allt hitt á eftir," segir hann. Fyrstu drög munu væntanlega vera tilbúin eftir u.þ.b. níu mánuði og framleiðsla ætti að geta hafist árið 2002. Sem fyrr er ráðgert að leikstjóri verði Hector Babenco en ekki hefur verið gengið frá formlegum samningi við hann.

Sæbjörn Valdimarsson fjallar í Bíóblaðinu í dag um feril Ruth Prawer Jhabvala . /3