19. ágúst 2000 | Neytendur | 596 orð | 5 myndir

Verðskyn neytenda

Hvað kostar í matinn?

Hartmund og Gisela Gaigl.Nýmjólk 1 lítri: 79 krónurSmjör 500 gr: 320 krónurTómatar 1 kg: 240 krónurNautahakk 1kg: 1000 krónurKók 2 lítrar: 200 krónurSkinka 1 kg: 2000 krónurÝsuflök 1 kg: 1600 krónur
Hartmund og Gisela Gaigl.Nýmjólk 1 lítri: 79 krónurSmjör 500 gr: 320 krónurTómatar 1 kg: 240 krónurNautahakk 1kg: 1000 krónurKók 2 lítrar: 200 krónurSkinka 1 kg: 2000 krónurÝsuflök 1 kg: 1600 krónur
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Nokkrir viðskiptavinir í Nýkaupi í Kringlunni og Bónusi á Laugavegi tóku vel í beiðni Bryndísar Sveinsdóttur um að giska á verð á nokkrum algengum matvörutegundum. Allir vissu nokkurn veginn hvað mjólkin kostaði en flestir töldu smjörið mun dýrara en það er.
UNDANFARIÐ hefur matvöruverð hér á landi verið mikið til umræðu í fjölmiðlum og er skemmst að minnast nýlegrar könnunar neytendasamtakanna þar sem útkoman var ekki sem best fyrir Ísland. En hvað finnst hinum almenna neytanda sem fer og kaupir í matinn? Er það verðið sem ræður því hvaða vörur fara í körfuna? Vita menn almennt hvað hlutirnir kosta?

Í Nýkaupi reyndist viðmælendunum erfiðast að giska rétt á verð tómatanna, að meðaltali töldu menn að kílóið væri á 223 krónur en rétt verð er 398 krónur. Muninn má ef til vill skýra með því að verð á tómötum breytist ört á þessum tíma árs og því erfitt að geta sér til um rétt verð þegar það getur breyst vikulega eða jafnvel oftar. Flestir voru með á hreinu hvað mjólkurlítrinn kostaði en ágiskanir voru á bilinu 65-79 krónur á meðan rétt verð er 78 krónur.

Svíar eltast við tilboðin

Í Nýkaupi varð fyrst á vegi okkar Sigrún Ragna Jónsdóttur sem sagðist spá mikið í matvöruverð. Hún hafi búið í Svíþjóð þar sem fólk væri mjög meðvitað um matvöruverð en sér virtist Íslendingar vera að taka við sér í þeim efnum.

"Í Svíþjóð eltast menn mikið við tilboðin og segja má að þegar eitthvað fer á tilboð sé það á matarborði allrar þjóðarinnar. Þannig er því í raun stjórnað hvað þjóðin borðar. Stundum gerist þetta hér eins og til dæmis þegar kjúklingar fara á tilboð þá kaupa allir kjúkling í matinn." Sigrún sagðist helst finna fyrir háu grænmetisverði hér á landi og því væri ofboðslega kostnaðarsamt að vera grænmetisæta. "Í Svíþjóð borgar sig hins vegar frekar en hér að borða hollan mat því þar er ruslfæði eins og sælgæti og snakk mjög dýrt."

Við ostaborðið stóð Valgeir Guðmundsson og beið á meðan kona hans var að velja osta. Hann sagðist ekki vera fróður um matvöruverð því matarinnkaupin væru að mestu í höndum eiginkonunnar. "Ég fer með að versla þótt hún ákveði að mestu leyti hvað fer í körfuna."

Aldrei kynnst jafnháu verðlagi

Þýsku ferðamennirnir Hartmund og Gisela Gaigl virtust vera mjög meðvituð um matvöruverð á Íslandi og voru í mörgum tilvikum nálægt réttu verði nema þegar kom að ýsunni en þá giskuðu þau á næstum helmingi hærra verð en rétt er. Þau sögðu stóran mun á verðlaginu hér og í Þýskalandi og að yfirleitt væru matvörur helmingi dýrari hér og stundum meira. Þau sögðust hafa ferðast mjög mikið en aldrei hafa kynnst jafnháu verðlagi og hér á landi. "Okkur skilst að launin séu miklu hærri hér en í Þýskalandi enda hlýtur svo að vera. Fyrir okkur er því afar dýrt að lifa hérna en við verðum hér aðeins í þrjár vikur svo við verðum bara að þrauka."

Matur hækkað í verði síðustu fimm árin

Þessu næst var rölt yfir í Bónus til að athuga hvort viðskiptavinir þar væru meira að spá í matvöruverðið. Þar eins og í Nýkaup vissu menn hvað mjólkin kostaði en almennt giskuðu menn á hærra verð á matvörunum en viðmælendurnir í Nýkaupi.

Sigurður Freyr Magnússon og Perla Björk Egilsdóttir sögðust ekki spá sérstaklega mikið í hvað hlutirnir kostuðu en frekar kaupa það sem freistaði hverju sinni. Þau voru þó sammála um að dýrt væri að kaupa í matinn.

Elba Nunez sagðist fylgjast vel með matvöruverði og að sér fyndist matvörur hafa hækkað mikið síðustu fimm árin. "Ég get samt ekki látið verðið stjórna því hvað ég kaupi í matinn. Maður verður auðvitað að að kaupa það sem þarf fyrir fjölskylduna, börnin verða að fá hollan mat þótt hann sé dýr. Maður verður bara að vinna meira ekki satt?" bætti hún brosandi við og hélt afram að versla.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.