Thabo Mbeki
Thabo Mbeki
FORSETI Suður-Afríku, Thabo Mbeki, hefur á síðustu mánuðum legið undir ámæli fyrir að halda því fram að HIV-veiran sé ekki eina orsök alnæmis, gagnstætt því sem almennt er talið.

FORSETI Suður-Afríku, Thabo Mbeki, hefur á síðustu mánuðum legið undir ámæli fyrir að halda því fram að HIV-veiran sé ekki eina orsök alnæmis, gagnstætt því sem almennt er talið. Nú er svo komið að samflokksmenn forsetans hafa séð sig knúna til að fara þess á leit við Mbeki að hann falli frá þessari afstöðu sinni.

Dagblaðið The Cape Times birti í gær útdrátt úr trúnaðarskjali frá heilbrigðismálanefnd Afríska þjóðarráðsins, þar sem Mbeki og heilbrigðisráðherrann, Manto Tshabalala-Msimang, eru hvattir til að viðurkenna opinberlega að HIV-veiran valdi alnæmi. Að sögn dagblaðsins var skjalinu dreift til flokksfélaga fyrr í vikunni og mun efni þess hafa valdið nokkurri ólgu innan flokksins.

Mbeki hefur verið harðlega gagnrýndur fyrir að skipa umdeilda vísindamenn í ráð sem fjallar um varnir gegn alnæmi, en þeir telja að ýmsir aðrir þættir en HIV-veiran valdi sjúkdómnum, til dæmis fátækt, vannæring og ítrekaðar sýkingar á borð við malaríu eða kynsjúkdóma. Talið er að þeir hafi haft áhrif á þá ákvörðun stjórnvalda í október á síðasta ári að neita að veita barnshafandi konum, sem smitaðar eru af HIV-veirunni, lyfið AZT, sem rannsóknir sýna að minnki líkurnar á að veiran berist frá móður til barns. Einn af hverjum tíu Suður-Afríkubúum er smitaður af HIV-veirunni.

Höfðaborg. AFP.