Auðun Auðunsson
Auðun Auðunsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
NÓTASKIPIÐ Sigurður VE varð 40 ára gamalt 25. september síðastliðinn en skipið er eitt það aflasælasta í Íslandssögunni. Sigurður á sér allsérstæða sögu en upphaflega var skipið byggt sem síðutogari í Bremerhaven í Þýskalandi.

NÓTASKIPIÐ Sigurður VE varð 40 ára gamalt 25. september síðastliðinn en skipið er eitt það aflasælasta í Íslandssögunni. Sigurður á sér allsérstæða sögu en upphaflega var skipið byggt sem síðutogari í Bremerhaven í Þýskalandi. Það var útgerðin Ísfell á Flateyri sem lét smíða skipið en eigandi útgerðarinnar var Einar Sigurðsson. Skipið bar í frystu einkennisstafina ÍS 33 en kom þó sjaldan í heimahöfn og var lengstum gert út frá Reykjavík og bar því einkennisstafina RE 4. Þá stafi bar Sigurður þar til fyrir fáum árum þegar þeim var breytt í VE 15.

Sigurður var einn af fjórum svokölluðum þúsund tonna togurum sem smíðaðir voru fyrir Íslendinga en hinir voru Maí GK, Freyr RE og Víkingur AK. Maí og Freyr stoppuðu hins vegar stutt við hér á landi og voru seldir erlendis, en Víkingur er enn gerður út frá Akranesi.

Brösótt byrjun Sigurðar

Sigurður kom til landsins 1960 en fyrsti skipstjóri hans var Pétur Jóhannsson. Togveiðarnar gengu illa framan af þar sem skipið var langt og mastrið framarlega og fór svo að skipið lá við bryggju langtímum saman. Árið 1962 tekur Auðun Auðunsson við Sigurði og lét hann gera lagfæringar á spili skipsins þannig að áhöfnin átti betra með að athafna sig við að draga inn vörpuna og var snörlað inn þvert yfir skipið með því að hafa blokkir meðfram síðu. Af þessum breytingum Auðuns varð mikið vinnuhagræðing og tók það áhöfn Sigurðar aðeins 20 mínútur að taka inn trollið og kasta því aftur sem enn í dag þykir góður tími. Með þeim vinnubrögðum sem þarna voru tekin upp urðu Sigurður og Víkingur á skömmum tíma aflahæstu togskip landsins.

Auðun segir að á þeim tíma er Sigurður kom til landsins hafi ástand íslenska fiskiskipaflotans ekki verið beysið.

"Á sjötta og sjöunda áratugnum hrapaði togaraflotinn úr því að vera 40 skip niður í aðeins 11 sjóhæf skip og vorum við því komnir í algert þrot með fiskiskipaflotann. Ég tók við Sigurði 1962 og var með hann til ársins 1965 eða þrjú ár. Það var verulega skemmtilegur tíma enda var Sigurður afburðasjóskip og aflaði vel.

Sigurður frábært sjóskip

Guðbjörn Jensson tók við stjórn Sigurðar af Auðuni og var hann með skipið í eitt ár. Þá tók Arinbjörn Sigurðsson við skipinu og var hann með það allt þar til því var breytt í nótaskip. Arinbjörn segir að Sigurður hafi verið ákaflega gott sjóskip líkt og systurskip hans. "Ég tók við Sigurði 1965 og var með hann fram til 1974 en þá skilaði ég honum af mér til breytinga í Noregi. Sigurður var alveg frábært skip og líklega eitt af þeim bestu sem voru til á þeim tíma. Við öfluðum vel enda vorum við sjálfsagt með einhverja yfirburði á flest önnur skip. Ég leyfi mér allavega að efast um að nokkur togari hafi staðið honum á sporði sem sjóskip. Hann var ákaflega mikið sjóskip en engu að síður þægilegur til að fiska á hann. Það var að miklu leyti Auðuni Auðunssyni að þakka en hann lét gera breytingar á trolltökunni sem auðvelda alla vinnu. Fyrir þá breytingar var trolltakan mun erfiðari og voru menn að því komnir að gefast upp á þessum skipum vegna hennar. Sem betur fer datt Auðun niður á góða lausn á þessu sem breytti öllu.

Einar Sigurðsson útgerðarmaður lét breyta Sigurði í nótaskip 1974 og kom sú ákvörðun mörgum í opna skjöldu að breyta jafn stóru og góðu skipi í nótaskip. "Þegar Sigurði var breytt til nótaveiða fannst manni Einar vera bjarsýnn en tíminn hefur leitt það í ljós að hann sá lengra en margur annar. Nótaskip voru ekki svona stór á þessum tíma og því var þetta djarft hjá honum. Þetta var hins vegar á þeim tíma sem skuttogararnir voru að ryðja sér til rúms og því stóð togaraútgerðin á vissum tímamótum. Hann tók því þá ákvörðun að breyta Sigurði í nótaskip og smíða nýjan skuttogara sem var Engey. Mér var því sagt upp á Sigurði en ráðinn aftur á Engey.

Greinilega mikið vel til skipsins

Kristbjörn Árnason tók við Sigurði eftir breytingarnar 1974 og var hann skipstjóri á móti Haraldi Ágústsyni fyrstu árin. Kristbjörn er skipstjóri á Sigurði enn í dag og segir hann að breytingarnar yfir í nótaskip hafi að mestu tekist vel. "Sigurður aflaði mjög vel og því þótti mörgum það skrýtin ákvörðun að breyta því í nótaskip. Eftir að skipið hóf nótaveiðar kom í ljós að ýmislegt hefði betur mátt fara í breytingunum en þetta gekk þó ágætlega, sér í lagi ef tekið er tillit til þess að þetta var miklu stærra skip en menn höfðu áður notast við. Við urðum þó fyrir ýmsum skakkaföllum í byrjun. Asdikið virkaði ekki eins og það átti að gera, nótin okkar reyndist gölluð og auk þess voru ýmis smærri ljón á veginum. Þetta var þó allt lagað með tímanum og síðan höfum við verið að fikra okkur áfram með tímanum og reynt að fylgja þeirra þróun sem orðið hefur.

Skipið er afburðagott sjóskip og ver sig ákaflega vel. Við höfum lent í allavega veðrum á því, bæði tómu og eins með fullfermi, og það hefur verið erfitt eins og hjá öllum öðrum en skipið hefur staðið það vel af sér. Það er ekki annað að sjá en að skipið standi fyllilega fyrir sínu enn þann dag í dag og það er greinilegt að það hefur mikið verið vandað til skipsins í upphafi.

Mér hefur líkað ákaflega vel við skipið enda hefði maður líklega ekki endst svona lengi á honum ef svo væri ekki. Það er gott að sigla á honum, hann er hraðskreiður og gengur vel og er góður í sjó. Maður hefur treyst honum vel og hann hefur reynst traustsins verður.

Sigurður hefur í gegnum tíðina verið mikið aflaskip og er eitt af aflasælustu skipum Íslandssögunnar. Á þeim níu árum sem skipið var síðutogari var hann átta sinnum aflahæstur og hefur hann oft verið aflahæstur nótaskipa."